21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Jeg komst það langt síðast, að jeg hefði nokkra sjerstöðu í máli þessu. Og um það get jeg vísað til þess, sem jeg sagði við 1. umr. Jeg lýsti því þá, að jeg væri öldungis óviss um, hvernig sú breyting á tekjuskattslögunum, sem felst í þessu frv., þ.e. ákvæðin um meðaltalsskattinn, myndi verka. Jeg hefi síðan sannfærst enn betur um, að þessi breyting er mjög varhugaverð. Ekki fyrst og fremst vegna þeirrar tekjurýrnunar, sem búast má við að hún hafi í för með sjer fyrir ríkissjóðinn, heldur kannske öllu fremur sakir .þess, að þessi breyting kemur afskaplega misjafnt niður á þeim skattþegnum, sem hjer ræðir um. Eins og hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. frsm. minni hl. (JAJ) bentu á, má deila um það, hvort dæmin um skattinn, sem tekin eru í nál., eru rjett reiknuð. En sú aths. á vitanlega jafnt við bæði, og ekki síður við nál. háttv. minni hl. en háttv. meiri hl. En sannleikurinn er sá, að ekki er hægt með neinni vissu að setja upp þessi dæmi þannig, að hægt sje að segja: Svona er það rjett. Dæmi hv. meiri hl. tekur þannig til samanburðar sömu skattskyldu tekjurnar til að reikna út skattinn. En það er vitanlegt, að ef skatturinn breytist, þá verða skattskyldu tekjurnar aðrar næsta ár. En það er fleira, sem hefir áhrif en skatturinn einn. Ef við tökum t. d. dæmi háttv. minni hl., þá er á árinu 1924 um að ræða 59 þús. kr. skatt samkv. gildandi lögum, en eftir jöfnunartill. verður hann 19 þús. kr. Skattskyldar tekjur yrðu þá 40 þús. kr. hærri næsta ár, ef breytingin kæmist á. Þó er það ekki víst, og jafnvel ekki líklegt, að svo miklu munaði, því að ætla mætti, að eitthvert tillit yrði tekið til þessarar lágu skattgreiðslu við útsvarsálagninguna, svo munurinn yrði ekki eins mikill. Þess vegna er ekki hægt að setja dæmið þannig upp, að segja megi: svona er það rjett, en hinsvegar vitlaust. En jeg skal samt játa, að hitt er nær lagi, að taka tillit til breytinga á skattinum. Hæstv. fjrh. gat þess, að eftir sínum útreikningi yrði skatturinn samanlagður eftir dæmi hv. meiri hl. um 155 þús. kr. Jeg hefi reiknað þetta líka og fengið mjög svipaða upphæð. Það kemur því út, að munurinn á skattinum eftir gildandi ákvæðum og því, sem hann verður eftir frv., er ekki eins mikill og gert er ráð fyrir í nál. Hann verður ekki nema 17 þús. kr., í stað 34 þús. kr. En sje hitt dæmið endurskoðað, þ. e. dæmi hv. minni hl., sem hefir fengið „attest“ frá bönkunum um að útgerðarfjelögunum sje hrein og bein lífsnauðsyn að fá þessu framgengt, þá kemur það hlálega út, sje dæmið reiknað eins og hitt, að skatturinn verður lítilsháttar meiri, eða 120 þús. kr., í staðinn fyrir 118 þús. kr. Þetta verður því tap fyrir skattþegnana, í stað þess, að tilgangurinn er sá, að þeir græði á breytingunni. Staðfestir þetta fullkomlega það, sem jeg sagði um frv. við 1. umr., að vandsjeð væri, hver árangurinn yrði. Menn gæti og betur að mismuninum á dæmi hv. meiri og minni hl. Fjelag háttv. minni hl. er veikt og tiltölulega lítilfjörlegt, með aðeins 300 þús. kr. í hlutafje, í stað 400 þús. kr. hjá hinu. Því verða tekjur þess á góðu árunum hlutfallslega meiri og skatturinn hærri. En þetta þýðir, að nýstofnað fjelag með lítið hlutafje og sama sem engan varasjóð verður miklu ver úti en öflugt fjelag, sem á öflugan varasjóð og ríflegt hlutafje. M. ö. o., breyting sú, sem hjer er farið fram á, fer alveg í þveröfuga átt við það, sem ætti að vera. Hún ljettir skattinn á öflugu fjelögunum og þyngir hann á þeim, sem veikari eru. Hv frsm. minni hl. (JAJ) sagði, að dæmi þeirra væri ekki út í loftið, heldur væri það mjög nálægt því, sem hann vissi til um fjelag eitt. Staðfestir það enn frekar um mæli mín. Nú hefi jeg orðið var við, að menn spyrja: Hvernig getur staðið á því, að skatturinn getur orðið meiri eftir með altalsálagningunni? En þetta er vel skiljanlegt, þegar þess er gætt, að eftir meðaltalsálagningunni eru hinar skattskyldu tekjur alt aðrar en nú. T. d. eru tekjur þær, sem skattskyldar eru eftir dæmi hv. minni hl., 530 þús. kr. samkv. gildandi reglum, en eftir ákvæðum frv. eru þær 570 þús. kr. Munurinn er 40 þús. kr., sem vitanlega kemur hjer ofan á. Í öðru lagi nær skatturinn öll árin hærra skattstigi þrátt fyrir jöfnuðinn, sakir þess, hve tekjurnar eru miklar á góðu árunum í samanburði við höfuðstólinn. Þetta getur hver sannfært sig um, sem nennir að hafa fyrir því. Hjer við bætist það, að samkvæmt ákvæðum frv. verða ný fjelög harðara úti í skattgreiðslum en gömul fjelög Þau verða til dæmis að greiða þrisvar skatt af fyrsta árs tekjum. Því er ekki að neita, að öflug fjelög fá með þessu nokkra ívilnun, en hún er þó ekki, svo afskaplega mikil, að hún sje nokkurt lífsspursmál fyrir útgerðina, eins og bankarnir segja. Því að ef fjelögin eru fjárhagslega veik þá hefir þetta enga þýðingu og er aðeins lakara fyrir þau, en sjeu þau öflug, þurfa þau síður stuðnings við. Það er því alveg þveröfugt í rauninni við það, sem haldið er fram, að hjer sje verið að hjálpa útgerðinni. Nei, það er miklu fremur verið að vinna henni til óþægðar. Hitt, að fjelögin megi telja varasjóð með hlutafjenu og að nokkur ívilnun sje gefin í skatti af því, sem árlega er lagt í varasjóð, er alveg rjettmætt, enda var enginn ágreiningur um það í nefndinni.

Með ákvæði 2. gr. er stjórninni gefin heimild til að ívilna einstaka atvinnurekendum, sem reka áhættusaman atvinnuveg, á svipaðan hátt og hlutafjelögum, ef skattur þeirra verður mjög ósanngjarn að öðrum kosti.

Þetta ákvæði virðist mjer algerlega ófært til samþyktar. Annaðhvort á engum að ívilna á þennan hátt eða ákvæðið verður að gilda jafnt fyrir alla. Jeg sje ekki betur en að eins megi hafa slíkt ákvæði um einstaka atvinnurekendur og hlutafjelög. Hitt er mjög hættulegt, án þess að jeg sje að væna sjerstaka stjórn þess, að beitt verði hlutdrægni. Það hefir verið talað um, hversu sanngjarnt væri, að tekið væri tillit til þess, hve sjávarútvegurinn er áhættusamur og hversu miklu tapi hann verður oft fyrir. Þetta er rjett, en þess ber að gæta, að ekki einu sinni í þessu frv. er það gert. Það er ekki hægt að rjettlæta þetta ákvæði með því, þar sem meðaltalsreglan miðar ekki í þá átt nema í einstökum tilfellum. Og sannleikurinn er sá, að ekki aðeins þessi fyrirtæki verða fyrir töpum. Það er fjöldi manna yfirleitt, sem aldrei eru teknir til greina í þessu efni. Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði um mann fyrir norðan, sem tapaði mjög miklu ár eftir ár á útgerð, en græddi það svo alt upp á síðastliðnu ári. Hann var auðvitað heppinn að græða. En hvað mega þeir segja, sem ganga í ábyrgð fyrir slíka menn? Þeir fá ekkert tillit tekið til þess, að þeir tapa stórfje á ábyrgðum. Því er engin sanngirni í, að maðurinn fái það sjálfur. Það þyrfti þá að taka lögin til allsherjarendurskoðunar og samræma slík ákvæði, til þess að fullnægja þessum kröfum.

Þetta var það, sem jeg þurfti að segja sjerstaklega vegna minnar aðstöðu. Þó að jeg hafi ekki skrifað undir nál. með fyrirvara, tel jeg ekki aðalatriðið, hvort um ívilnun eigi að vera að ræða, heldur hitt, hvernig það kemur niður að öðru leyti. Hv. minni hl. hefir drepið á, að sum fjelög borgi meira í skatt á vissu tímabili en allar nettótekjur tímabilsins nema. Nú vill svo til, að eftir dæmi hv. minni hl. þá er það svo hvort eð er, og enn freklegar eftir breytinguna, þar sem skatturinn hækkar við hana. Það, sem þá ber að athuga og bera saman, er aðeins þetta, hvort skattþegni sje hentugra að greiða þegar í stað skatt af góðu ári eða að geyma það að mestu leyti til lakari ára. Samkv. dæmi hv. minni hl. á fjelag að borga mestan skatt 59 þús. kr. samkvæmt gildandi reglum, en af sama árs tekjum á fjelagið að borga samkv. frv. fyrst 19 þús. kr., fyrir næsta ár, sem ekki hefir gefið fjelaginu nema 30 þús. kr. tekjur, á það að borga 39 þús. kr., og fyrir næsta ár þar á eftir 17 þús. kr., fyrir ár, sem fjelagið hefir tapað 250 þús. kr. — Mundi nú ekki fjelaginu hentugra að borga skattinn allan á því árinu, sem tekjurnar fjellu til á?

Fyrir mjer er þetta hrein hugsunarvilla. Það hefir verið sagt, að tekjurnar verði farnar út í veður og vind, þegar árið sje liðið. En ekki eru þær frekar til staðar eftir 1–2 ár, með litlum eða engum tekjum.

Jeg hefi ekki mikið að athuga við það, sem sagt hefir verið. Skýrslu þá, sem hæstv. fjrh. las upp frá Íslandsbanka um hag botnvörpuskipa, sem við hann skifta, skal jeg á engan hátt rengja, en mjer virðist augljóst, að meðal þessara skipa muni ekki vera nein þeirra, sem gerð eru út af sterkustu fjelögunum. Hinsvegar er þá á það að líta, að fyrir þessi fjelög er ekkert unnið við breytinguna. Það eru einmitt öflugustu fjelögin, sem vinna við þetta, einmitt fjelögin, er best geta greitt tekjuskatt.

Hv. frsm. minni hl. (JAJ) lagði mikið upp úr því, að mikilsvert væri fyrir ríkissjóð að hafa jafnar tekjur af skattinum, og er töluvert til í því. En ef virkilega er um að ræða breytingu til hins verra, get jeg ekki metið það svo mikils, að það ráði úrslitum, enda er gott fyrir ríkissjóð að hafa eitthvað upp á að hlaupa eftir góðu árin. Ef núverandi fyrirkomulag helst, á ríkissjóður að eiga varasjóð eftir góð ár, í stað þess, að eftir frv. á hann aldrei varasjóð.

Jeg er hissa á, að hv. frsm. minni hl. skyldi mæla með því, að hlutafjelög ættu sem mest hlutafje. Aðalástæðan til þess að ýta undir þau að leggja í varasjóð er einmitt sú, að koma í veg fyrir, að hlutafje verði óeðlilega mikið.

Jeg skal taka það fram um e.-lið, að að því leyti, sem hann á við ákvæði um varasjóð, hefi jeg ekkert á móti, að hann gengi í gildi þegar í stað. En ef frv. gengur fram óbreytt með a.-lið, greiði jeg atkv. með því, að e.-liður falli burt.