21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg mun reyna að halda mjer við efnið, enda hefi jeg ekki miklu við að bæta frá fyrri hluta þessarar umr. málsins. Vil jeg þó víkja að nokkrum atriðum í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hann talaði meðal annars um hættu þá, er af meðaltalsreglunni gæti leitt fyrir ríkissjóð, með því að svo gæti farið, að fjelögin gætu alls ekki greitt skatt sinn eftir vont ár. En gæti ekki farið svo, að fjelög, sem mikið skulda, fengju alls ekkert að greiða í skatt, þótt fyrirkomulaginu væri ekki breytt ? Jeg þekki að minsta kosti dæmi til þess, að lánardrottnar hafa gengið svo hart að, enda er engin regla til, sem fyrirbyggi að skattfall verði á þann hátt.

Þá sagði hv. þm. (JakM), að veiku fjelögin nytu hjer einskis góðs af. Má og vera, að þeim verði minni styrkur að breytingunni en hinum. En það, sem fyrir mjer vakir, er það, að fjelögunum verði gefin hvöt til að efla sig með varasjóði. Jeg sje ekki ástæðu til að ívilna því fjelagi, sem flanar út í togarakaup fyrir 300 þús. kr., en á sjálft aðeins 100 þús. kr. Slík fyrirtæki eru ekki á svo traustum grundvelli bygð, að ástæða sje til að ýta undir stofnun þeirra.

Jeg gæti hugsað, að ekki yrði altaf fylgt þeirri reglu að leggja fyrir í varasjóð hjá ríkissjóði, er góðæri kæmi. Slíkt hefir ekki lánast enn, og mun ekki geta það fyrst um sinn, en fyrir liggur að greiða 3–4 milj. kr. af lausaskuldum á næstu árum. Það er því hentugra fyrir ríkissjóð, eins og aðra, að hafa sem jafnastar tekjur frá ári til árs.

Jeg er alveg sammála því, að nauðsyn beri til að hafa yfirskattanefnd fyrir alt landið. Benti jeg á það við fyrri hluta umræðunnar og hefi áður látið þá skoðun í ljós. Og þó jeg hafi verið með í að samþykkja 2. gr. frv., þá var það ekki af því, að jeg væri blindur fyrir göllunum. En jeg vænti þess, að bráðlega verði lög þessi tekin til rækilegrar endurskoðunar. í Svíþjóð, Danmörku og Noregi er það svo, að þar hefir yfirskattanefnd vald til að ívilna mönnum í skattgjaldi alt að 80%. Hjer eru engin stjórnarvild eða stofnun með líku valdi, þó svo sje ástatt, að skattgreiðandinn missi heilsuna og verði að leggja niður atvinnurekstur sinn og hafi ekkert eftir sjer til uppeldis, er hann hefir goldið skattinn að fullu.

Hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) vildi víst höggva nærri mjer, er hann sagði, að hjer rjeðu hagsmunir þeirra manna, sem stæðu að fjelögunum. Hann hefir síðar árjettað orð sín með því, að ekki væri nema eðlilegt, að skoðanir manna mótuðust af hagsmunavoninni. Jeg get sagt honum í hreinskilni og með fullum rökum, að þessi regla kemur ekki til greina að því er snertir mína afstöðu til málsins. Það er satt, að jeg hefi nýlega lagt nokkurt fje í togara. En það er svo langt frá, að breyting sú á lögunum, meðaltalsreglan, sem frv. fer fram á, komi mínu fjelagi til góða; þvert á móti verður hún beinlínis til að íþyngja því að miklum mun, að minsta kosti fyrstu árin. En jeg vil samt ekki standa á móti því, að önnur fjelög, sem sanngirniskröfu eiga, fái leiðrjetting mála sinna. Að vera andvígur slíku vegna hræðslu við nokkurt peningatap, það væri að líta á eigin hagsmuni. Annars vona jeg, að það verði aldrei almenn regla, að eiginhagsmunirnir móti skoðanir manna hjer á Alþingi.

Það er satt, að útkoman fer eftir því, hvorri reglunni er fylgt, þeirri, sem nú gildir, eða þeirri, sem frv. gerir ráð fyrir að gildi eftirleiðis. En dæmið á að vera hægt að reikna stærðfræðilega rjett, hvor aðferðin, sem notuð verður. Hv. frsm. (SvÓ) gat þess, að minni hl. hefði haft orð á því, að dæmið, sem hann tók, væri ekki allskostar rjett reiknað. Þetta er rjett, og í nál. minni hl. er á það bent, hve miklu þessi reikningsskekkja geti munað. En hv. frsm. (SvÓ) hefir ekki viljað við það kannast, að dæmið í nál. meiri hlutans sje rangt reiknað, og ekki er heldur á það bent í nál. hv. meiri hl., enda lítur svo út, sem hann einn allra nefndarmanna meiri hl. vilji dylja það.

Að lokum skal jeg taka það fram, sem jeg hefi áður vikið að, að jeg legg aðaláherslu á að fá b.-, c.- og d.-liðina samþykta. Jeg vil, að ekki sjeu gerðar gyllingar til þess að veikja fjelögin og draga úr öryggi þeirra, með því t. d. að láta þau borga háan arð eða útþynna hlutafjeð. Fjelag, sem hefir 300 þús. kr. innborgað hlutafje og græðir 300 þús., sem það svo leggur í varasjóð, á betri fjárhagslega aðstöðu en fjelag, sem leggur allan sinn 300 þús. króna gróða í það að gefa út sömu upphæð nýrra hlutabrjefa; því borgi fjelagið 5% arð, þá eru það aðeins 15 þús. kr. í fyrra tilfellinu. en 30 þús. í hinu síðara, og ennþá meiru munar, ef útborgaður arður er hærri.