21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvinsson:

Það er aðeins örstutt spurning til hæstv. fjrh. (JÞ) viðvíkjandi því, hvernig ætlast sje til, að skatturinn verði reiknaður samkv. 1. gr. frv. Hefi jeg aldrei heyrt greinilega frá því skýrt. Það mætti hugsa sjer t. d., að öll árin væru gerð upp í einu og tap dregið frá, þannig að fjelag, sem hefði grætt 8000 kr. og tapað svo 8000, ætti engan skatt að greiða. Um þetta væri gott að fá upplýsingar.

Jeg hefi áður lýst afstöðu minni til þessa máls og mun ekki þurfa þess frekar. Hinsvegar vildi jeg víkja að ummælum hv. þm. Str. (TrÞ) um gengismálið, og er það fljótsagt, að jeg er alveg á gagnstæðri skoðun.

Þá hefi jeg ástæðu til að víkja að hæstv. fjrh. (JÞ) út af starfsmannahaldinu við landsverslunina. Það er ekki óeðlilegt, þó þeir menn, sem þar starfa, sjeu farnir að hugsa sjer fyrir stöðu, þegar nú mun útsjeð um, hvernig fari með verslunina. Hitt ber að víta, að varla hefir svo nokkur vika liðið, að Morgunblaðið hafi ekki flutt árásargreinir á starfsmennina við landsverslunina, og verður ekki betur sjeð en að hæstv. fjrh. (JÞ) sje þar með í verki. Að minsta kosti hefir einn maður þar verið sviftur starfi, sem honum hafði verið veitt, og var honum neitað um frest uns þingið hefði ákveðið um einkasöluna. En hæstv. ráðh. (JÞ) ætti ekki að tala drýgindalega, þó þessir menn leiti fyrir sjer um atvinnu, þegar búið er að kúga hæstv. atvrh. (MG) til hlutleysis í tóbakseinkasölumálinu og ekki verður annað sjeð en hún verði afnumin. Annars eru þær rógburðarherferðir, sem Morgunblaðið hefir hafið gegn þessum mönnum, sem starfa við landsverslunina, næsta óskiljanlegar. Og jeg álít það alveg ósamboðið hæstv. ráðh. (JÞ), ef hann gerir svo lítið úr sjer að taka þátt í þessu.