21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2221 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. (JBald) út ,af ákvæðum 1. gr. frv., þá get jeg lýst yfir því, sem líka er augljóst, að ekki er ætlast til, að tap undangenginna ára dragist frá, eða arður gerður upp í einu fyrir þrjú ár, en að skattskyldar tekjur hvers árs fyrir sig verði gerðar upp eftir núgildandi reglum, og er svo tekið meðaltal hinna þriggja ára. Þannig er dæmið reiknað í nál., og mun enginn ágreiningur um, að slík sje tilætlunin í frv.

Rangt er það, sem hv. þm. (JBald) sagði um herferð gegn starfsmönnum tóbaksverslunarinnar. Að minsta kosti hefir af minni hálfu engin slík ferð verið farin, og er það ekki rjett, sem hann sagði, að jeg hafi svift einn þessara starfsmanna, sem vera mun hr. Hjeðinn Valdimarsson, starfi, sem honum hafði verið veitt við hagstofuna. Jeg átti tal um þetta við viðkomandi mann og gaf honum hæfilegan tíma til að segja til um, hvort hann vildi hverfa að starfinu við hagstofuna. Hann vildi fá að bíða með svarið fram yfir þing, en hagstofunnar vegna var það ekki hægt. Þá er það síður en svo, að jeg amist við því, þó menn leiti fyrir sjer eða búi sig undir aðra atvinnu, þegar fyrir þeim liggur að fara úr þeirri, sem þeir hafa. Og jeg get sömuleiðis endurtekið þau orð, er jeg, að gefnu tilefni, sagði við Hjeðin Valdimarsson í sumar, að mig skifti engu máli, hverrar pólitískrar skoðunar starfsmenn þeir væru, sem jeg ætti yfir að segja, aðeins ef þeir væru góðir og dugandi starfsmenn. En verkið þurfti engu síður að vinna í hagstofunni en í landsversluninni, og því gat jeg ekki haldið plássinu þar lausu lengur.

Jeg skal ekki fara langt út í það, sem hv. þm. Str. (TrÞ) gerði að umtalsefni, en hann má kenna flokksbróður sínum, hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um það, að dregið hefir verið inn í umræðurnar tillag Sís. til blaða Framsóknarflokksins. Stendur það óhrakið, að samvinnumenn úr Íhaldsflokknum verða að horfa upp á það, að af þeirra fje sje haldið uppi andstæðingablöðum. Má vera, að sumir aðrir verði meir varir við óánægju út af þessu en hv. þm. Str. — Hvað því viðvíkur, að hæstv. atvrh. (MG) hafi látið kúgast til hlutleysis í einkasölumálinu, þá býst jeg við, að honum verði ekki, fremur en endranær, skotaskuld úr því að svara fyrir sig. Annars er heppilegast fyrir hv. þm. (TrÞ) að tala varlega. Jeg gæti nefnt einn hv. þm., sem gerði tilraun til að fá atkvæði í því máli, þó sú tilraun hafi raunar mishepnast og strandað á sannfæringu mannsins, sem átti að snúa til fylgis við einkasöluna. Hv. þm. Str. kannast víst við þetta.

Um gengismálið ætla jeg ekki að tala að sinni. Skoðanamunurinn er þar naumast svo mikill milli mín og hv. þm. Str., að ávinningur sje að deila um það. Um ræktunarsjóðsfrv. er það að segja, að þó ekki þætti ráðlegt að ráðast í margt næstu árin og lítil lán yrðu veitt, þá heldur löggjöfin sínu gildi fyrir það, því hún tekur engu að síður til framtíðarinnar.

Í sambandi við gengismálið liggur fyrir þinginu annað stórmál, sem jeg hefi undirbúið forsvaranlega, að því er jeg vona, en það er frv. um skipun seðlaútgáfunnar. Verður gengismálið ekki til lykta leitt fyr en ráðið er fram úr seðlaútgáfumálinu, og væri það ábyrgðarhluti fyrir þingið að tefja fyrir því, að það komist fram. En því miður hefi jeg ekki orðið var við nægilegan skilning á þessu í þinginu.