21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2223 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Það eru aðeins nokkur orð út af því, sem háttv. frsm. minni hl. (JAJ) sagði, að jeg hefði reiknað rangt dæmið í nál. hv. minni hl. á þskj. 213. Hann sagðist sjálfur hafa reiknað dæmið með sömu aðferð og við hæstv. fjrh. hvor í sínu lagi höfum reiknað dæmið á þskj. 189, en hann hefir sjálfur sannað það áþreifanlega, að hann getur alls ekki hafa reiknað dæmið. Hann hefir þannig blátt áfram sagt ósatt frá, eða að öðrum kosti hefir hann reiknað skakt, og er þá komið að því, sem jeg sagði, að hann hefir ekki getað reiknað það.

Háttv. þm. (JAJ) hefir ekki gert sjer grein fyrir því, hver munurinn er á aðferðum við að reikna skattinn. í nál. vísar hann til þess, hver munurinn sje á skattinum, en sú tilvísun er alveg út í hött. En hafi hann reiknað dæmið með báðum aðferðum, þá er best, að við berum okkur saman um tölurnar. Hverjar verða þá meðaltalstekjur, sem skattur reiknast af á hverju ári í báðum tilfellum? Hver verður skatturinn hvert árið? Jeg hefi þessar tölur allar, en hv frsm. minni hl. ekki. En upp úr þessu fór hv. frsm. (JAJ) í hring. Hann neitar fyrst, að skatturinn geti orðið meiri fyrir þessa aðferð, játar svo, að hún geti komið sjer ver fyrir veikari fjelög — en hvernig má það ske nema þau greiði meira? Svo bætir bann því við, að hann hafi ekki trú á framtíð slíkra fjelaga. En bætir því svo við, að fjelag með lítið hlutafje, sem legði gróða sinn Í varasjóð, hafi betri aðstöðu fjárhagslega en þau, sem hafi mikið hlutafje.

Þá er það um varasjóð ríkissjóðsins. Hv. frsm. minni hl. hafði ekki trú á því, að neitt af tekjum ríkissjóðs yrði lagt í varasjóð. Nei, jeg hefi ekki mikla trú á því heldur, að mikið verði gert að því. En jeg geri heldur ekki ráð fyrir því, að þingið geri það, heldur góðærið, sem öðruhvoru kemur þinginu að óvörum og gerir tekjur ríkissjóðs meiri en búist var við. Slíkur varasjóður myndast því án tilverknaðar þings eða stjórnar, og jeg segi, að það sje hentugt okkur, sem eigum svo mikið undir árferðinu, að geta þannig átt vísan nokkurn varasjóð eftir hvert góðæri. T. d. má geta þess, að í stað þess að í núgildandi fjárlögum er gert ráð fyrir 800 þús. kr. tekjuskatti, þá verða tekjurnar af skattinum, vegna góðærisins síðastl. ár, svo miklar, að hjer í Reykjavík munu þær verða meira en tvöföld þessi áætlunarupphæð, og líklegt, að á öllu landinu verði þær alt að 11/2 miljón umfram áætlun. Þannig getur tekjuskatturinn með gildandi fyrirkomulagi orðið ríkissjóði varasjóður frá góðærum til lakari ára. Jöfnun tekjuskattsins stefnir að því, að alt verði uppjetið jafnóðum.