24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Jeg á hjer brtt. við frv., en svo er ástatt um hana, að jeg er ekki fullsannfærður um, að hún sje til verulegra bóta á frv. Ástæðan til þess, að jeg bar hana fram, var sú, að koma á meira samræmi gagnvart öðrum en hlutafjelögum, þannig að ívilnanir skuli veittar, í stað þess að frv. gerir aðeins ráð fyrir, að heimild sje til þess að veita þær. Geta skattþegnar því valið um, hvort þeir vilja greiða skattinn eftir núgildandi lögum eða samkvæmt þessari breytingu, sem frv. gerir á lögunum; en jeg býst við, að allir gjaldþegnar geti fallið undir þessa breytingu.

Jeg veit, að þetta hefir og vakað fyrir stjórninni, en hún hefir kosið heldur að hafa það í heimildarformi; talið hitt erfiðara meðferðar. En jeg verð að líta svo á, að það sje öldungis fráleitt að hafa slíkt í heimildarformi, og jeg veit, að mjög margir líta svo á með mjer. Þó að það sje fjarri mjer að væna hæstv. núverandi stjórn þess, að hún mundi nota þessa heimild hlutdrægt, þá er þess að gæta, að þessi lög eru ekki sett aðeins fyrir yfirstandandi tíma. En sá galli er á tillögunni, að hún girðir að vísu engan veginn algerlega fyrir hlutdrægni, því að óákveðið er, hve mikla ívilnun skuli veita. En þegar jeg sá, að málið hafði verið tekið á dagskrá, datt mjer í hug að bera þessa brtt. fram, og álít jeg rjett, að hún komi til umr. og verði athuguð, þó að jeg sje sjálfur í nokkrum vafa um, að hún verði til mikilla bóta. Jeg hefi svo ekki neitt sjerlegt að bæta við það, sem jeg hefi áður sagt um þetta mál, en þó tel jeg rjett að geta þess, að raunverulega er frv. í mótsögn við sjálft sig, þar sem frv. hefir ákvæði um að hlynna sem mest að því, að fjelögin leggi í varasjóði eitthvað af umframtekjum sínum, heldur en að auka við hlutafjeð. En fjelagið kemst lítið ljettara frá skattinum með þessu, nema rjett í svip, því ef allur varasjóðurinn hverfur vegna taps, kemur skatturinn að mun þyngra niður heldur en ef gróðinn hefði verið notaður til að auka hlutafjeð. Jeg geri því ráð fyrir, að þessar ívilnanir frv. hafi ekki mikil áhrif á varasjóðs myndanir yfir höfuð; en breytingin kemur sjerstaklega hart niður á þeim gjaldþegnum, sem hafa lítinn varasjóð eða lítið hlutafje, eða hvorttveggja, og hefi jeg sýnt glögt fram á þetta við 2. umr.

Brtt. hæstv. atvrh. (MG) hefi jeg ekki átt kost á að athuga ennþá, og hefi því ekkert um hana að segja.