24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bjarni Jónsson:

Jeg varð allur ein undrun, þegar jeg heyrði þessa síðustu ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg hjelt, að hann væri orðinn mjer samsekur og sammála um alla eyðslusemi o. fl. síðan við fylgdumst að með listamannastyrkinn síðast. En nú sest hann upp á öldufald rjettlætisins frá 1921 og hrósar mjög skattalögunum, sem án efa eru ranglátustu lög, sem samin hafa verið, fyrir það, hve ójafnt skatturinn kemur niður. Þannig greiða t. d. stóreignamenn úti á landi miklu lægri skatt en jeg af sultarlaunum. Lögum, sem áttu að skattleggja bækur okkar og fatnað. Þó hægt væri að leiðrjetta það á síðustu stundu, var það ekki flm. að þakka. Það er þetta rjettlæti, sem fæddist á öldufaldi rjettlætisins 1921, sem þessi hv. þm. var að hæla.

Annars er jeg hissa á þessum hv. þm., sem einu sinni var sjálfstæðismaður, að fara að tala um þetta nú. Hissa á honum, sem var fylgjandi frjálsri verslun, að fara að harma það hjer, að ekki var hægt að koma á einkasölu á korni. Því að þetta er hvorttveggja langt frá stefnu hins gamla Sjálfstæðisflokks, sem hafði á stefnuskrá sinni „frjálsa verslun í frjálsu landi“.

Um gjörningaþoku Íhaldsins, sem háttv. þm. var að tala um, skal jeg ekkert segja; læt íhöldin togast á um hana. Að jeg tek til máls nú, er fyrir þá sök, að jeg ætla að fylgja þessu frv. út úr deildinni. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir sannfært mig um, að hjer geti ekki verið um tjón fyrir ríkissjóð að ræða, þó frv. þetta verði samþykt. En hinsvegar hafa gjaldþegnar farið fram á að fá þessa aðferð lögleidda, því að þegar stórgróðaár koma, getur skatturinn orðið svo hár, að atvinnurekendur beinlínis bíði tjón á atvinnurekstri sínum við að þurfa að greiða hann allan í einu. Sakir þess hafa þeir farið fram á að fá þessa greiðsluaðferð.

Það, sem hefði dregið mig til að vera á móti þessu máli, var aðeins það, ef ríkissjóður hefði tapað fje við hið breytta fyrirkomulag. En þar sem nú er upplýst, að svo muni ekki verða, þá sje jeg ekki. hvað getur verið því til fyrirstöðu að veita þessar ívilnanir, þegar gjaldið til ríkissjóðs er jafnt eftir sem áður.

Hvað viðvíkur fjepúkaíhaldi, þá veit jeg ekki með vissu, hvort Íhaldið ber það nafn með rjettu. Annars má vera, að hv. 1. þm. S.-M. geri grein fyrir því næst þegar hann stendur upp. En ef þetta fjepúkanafn á við útgerðarmennina, þá er víst, að það eru ekki margir þeirra, sem bera það með rjettu.

Læt jeg svo útrætt um þetta mál. En sakir þess, að flokkarnir voru dregnir hjer inn í, þá þurfti jeg að lýsa yfir því, að jeg hvorki tilheyri fjepúkaíhaldinu eða maurapúkaíhaldinu.