24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) benti á sem rjetta reglu að telja varasjóð með hlutafjenu við ákvörðun skattstigs hjá hlutafjelögum, en þetta hefir aftur í för með sjer hækkun á skattinum, ef varasjóður tapast. Alt um það hefir fjhn. fallist á að taka þessa reglu upp. Þetta sýnir ekkert annað en það, að í þessari löggjöf sem annari er ekki hægt að setja svo víðtækar reglur, að hægt sje að sneiða hjá öllum agnúum. Annars er það óeðlilegt, að hlutafjelög skuli þurfa að greiða mjög mismunandi skatt af gróða sínum, eftir því hvort þau hafa mikið eða lítið hlutafje. Þannig þarf t. d. hlutafjelag, sem hefir 10 þús. króna hlutafje, að greiða tiltölulega miklu hærri skatt en annað, sem hefir 100 þús. króna hlutafje. Þetta er hæpið rjettlæti. En því er ekki hægt að breyta nema með gagngerðri endurskoðun á lögunum, en um það þýðir ekki að tala nú.

Þá hefði jeg átt að svara hv. 1. þm. S.-M. nokkrum orðum. En mjer finst þegar búið að gera of mikið að því að teygja umr. með alt of löngum ræðum, sem ekkert koma málinu við. Öll ræða hv. 1. þm. S.-M. var af þessum skóla. Fyrst var hann með dylgjur um efni frv., sem hann sagði þó ekki rjett frá. Þá gerði hann allharða tilraun til æsinga, þótt í hógværðarbúningi væri. Hann talaði um ótamin öfl, sem hjer væri verið að verja, og virtist yfirleitt vera að gefa æsingagjörnum mönnum í skyn, að hjer væri tækifæri til að láta til sín taka.

Þá fanst mjer ekki með öllu laust við hálfgerða hugsjónaþoku hjá þessum hv. þm. (SvÓ), er hann talaði um það sem hugsjón, að ríkið tæki að sjer korneinkasölu. Jeg veit nú satt að segja ekki, hvaða flokkur það er í þinginu, sem þá hugsjón elur. Það er ekki langt síðan einn af fyrirmönnum Framsóknarflokksins, hv. þm. Str. (TrÞ), lýsti yfir því, að flokkur sinn væri fríverslunarflokkur og andstæður einkasölu yfirleitt. Þá hefir öldungur Sjálfstæðisflokksins lýst yfir því sama fyrir hönd þess flokks. Enginn hefir vænt Íhaldsflokkinn um slíkt. Jeg veit því ekki, fyrir hönd hvaða flokks það er, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) ljet þessi ummæli falla.

Jeg mun ekki lengja umræður hjer og fylgja þannig illu fordæmi. Allir hafa verið sammála um það, að rjett væri að veita fjelögunum ívilnun um skattálagningu á varasjóð þeirra. Sumir andstæðingar málsins hafa haldið því fram, að frv. hefði engan gróða í för með sjer fyrir meiri hluta fjelaganna. En hinsvegar verður ekki um það deilt, að þau telja sjer miklu hagkvæmara að greiða skatta sína á þennan hátt. Og eins og nú stendur á, er mörgum fjelögum þetta fullkomin nauðsyn, svo að ríkissjóður verði ekki alt of harðhentur við þau. Þau hafa varið gróða sínum undanfarið ár til að greiða áfallið tap, og hafa því ekkert til að greiða skatta sína með. Auk þess verður að gæta þess, að hjer er alls ekki um endanlega uppgjöf að ræða á skatti nokkurs árs, heldur er þetta aðeins gjaldfrestur á nokkrum hluta þess skatts, sem fjelögin eiga að greiða af gróða síðastl. árs.

Jeg verð að segja það, að þótt andstæðingar mínir væru hluthafar í fjelögum þessum, að jeg met þó fjárhagslega heilbrigði svo mikils, að jeg vil ekki taka svo háan skatt af þeim, að bankarnir þyrðu ekki að lána þeim, og skatturinn yrði þeim þannig að falli. Auk þess miðar frv. að því að koma fjelögunum aftur á heilbrigðan grundvöll eftir öll skakkaföll undanfarinna krepputíma.

Jeg læt mjer því í ljettu rúmi liggja, þótt sagt sje, að jeg láti stjórnast af flokkshagsmunum í þessu máli. Vera má, að það bíti á einhvern nú, en þegar málið er komið í hæfilega fjarlægð, þá sjest, að jeg hefi aðeins viljað hindra það, að ríkisvaldið tæki við þar, sem kreppan endaði, til að stofna fjelögum þessum í glötun. Skylda ríkisvaldsins er þvert á móti að stuðla að því, að fjelög þessi, eins og önnur atvinnufyrirtæki í landinu, geti staðið upprjettum fótum og að hjálpa þeim til viðreisnar eftir örðuga tíma.