12.05.1925
Efri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Tekjuskattur hjer á landi var fyrst ákveðinn með lögum 1877, en þá hvorki af landbúnaði eða sjávarútvegi. Tekjuskattur af þeim atvinnuvegum var fyrst ákveðinn 1917, er hv. 2. þm. G.-K. (BK) var fjrh., og einnig í lögum um sama efni frá 1921.

Það frv., er hjer liggur fyrir, ræðir um verulegar breytingar á tekjuskattslögunum frá 1921. Fjhn., sem haft hefir málið til meðferðar, hefir orðið ásátt um að leggja til, að frv. stjórnarinnar verði samþykt, en þó með allverulegum breytingum, er jeg nú mun víkja að. Fjhn. hefir orðið sammála um að láta eitt atriði í stjfrv. standa óbreytt með öllu. Er það ákvæðið um varasjóðinn, sem er á þá leið, að nokkur hluti þeirrar upphæðar, er fjelögin leggja í varasjóð sinn, skuli vera skattfrjáls, og að varasjóöur skuli framvegis vera talinn með hlutafjenu við ákvöröun skattsins. Nefndin telur þetta gott ákvæði, þar sem það hvetur fjelögin til að safna fje fyrir á góðu árunum, er verði þeim kjölfesta, er ver árar. Saga botnvörpuútgerðarinnar hjer á landi hefir því miður sýnt, að ekki hefir jafnan verið nægrar varfærni gætt í þessu efni. Hluthöfum hefir verið borgaður út of mikill ágóði, er vel hefir látið í ári, en er slæmu árin hafa dunið yfir, hefir af engu eða litlu verið að taka.

Nefndin telur sjálfsagt og eðlilegt, að löggjafarvaldið hvetji og styðji fjelög þessi til þess að sýna fullkomna varúð. Afkoma þessara fjelaga hefir svo stórvægilega þýðingu fyrir fjárhag ríkissjóðs, að einskis má láta ófreistað að stuðla að öryggi þeirra. Nefndin var því sammála um, að þetta ákvæði væri heppilegt. Og enda þótt minni hl. nefndarinnar teldi sig geta bent á annað fyrirkomulag, varð það þó að samkomulagi í nefndinni að hækka hinn skattfrjálsa hluta varasjóðs fjelaganna úr 14 upp í

Þetta ákvæði hefir þá fyrst og fremst þá skattminkun fyrir fjelögin í för með sjer, að þessi vissi hluti varasjóðs verður skattfrjáls. Í öðru lagi færist tekjuskatturinn af hærra stigi á lægra, eftir því sem varasjóðurinn verður stærri, þar sem hann reiknast með hlutafjenu. Enda þótt svo færi, að fjelögin legðu nokkurt kapp á að safna í varasjóð í því skyni að minka skatt sinn, fælir það mig alls ekki frá því að fylgja þessu ákvæði. Þótt ríkissjóður færi þannig á mis við nokkrar tekjur, væri það lítilsvert á móts við þá tryggingu, sem slíkur varasjóöur gæti veitt fjelögunum í illu árferði.

Kem jeg þá að hinu meginatriði frv., a.-lið 1. gr., sem ákveður svo, að skattgjald fjelaganna skuli miðað við tekjur næstu 3 ár á undan, eða 2 ár, ef fjelögin hafa ekki starfað lengur. Nefndin hefir orðið sammála um að leggja til að fella þetta ákvæði burt. Að vísu hefir einn hv. nefndarmaður (BK) gert þá athugasemd, að hann væri þessari reglu meðmæltur að sumu leyti, en vildi, eftir því sem atvik lægju til, ekki gera ágreining við nefndina um þetta atriði.

Nefndin lítur svo á, að regla þessi sje alls ekki heppileg fyrir fjelögin sjálf. Að vísu mun ekki hægt að neita því, að regla þessi dregur úr skatti fjelaganna að einhverju leyti, án þess þó að hægt sje að segja um, hversu miklu sú lækkun nemur. Það liggur í hlutarins eðli, að meðaltalsreglan gerir það að verkum, að hinar skattskyldu upphæðir ná ekki eins háu skattstigi eins og ella. En ef tilgangur reglunnar væri sá, mætti auðvitað alveg eins ná honum með því að lækka skatt á hærri skattstigum. Nefndin álítur því, að reglan, þegar litið er burt frá þessu atriði, sje hvorki heppileg fyrir fjelögin sjálf nje heldur ríkissjóð, og mun jeg greina ástæður til þess.

Samkvæmt ákvæðum, sem giltu fyrir nokkrum árum, var tekjuskattur ekki innheimtur fyr en tveim árum eftir að hann var lagður á. Þessi frestur var styttur fyrir nokkru, enda voru allir sammála um, að þetta ákvæði væri mjög óheppilegt. Svo gat farið, að ástæður þess manns, sem greiða átti skatt eftir tvö ár, væru svo breyttar síðara árið, að hann ætti erfitt eða ómögulegt með að greiða skattinn síðara árið, enda þótt fyrra árið hefði verið honum hagstætt. Menn eru ekki jafnan svo varkárir í góðu árunum, að taka tillit til erfiðleikanna, sem framundan kunna að vera, og því gat farið svo, að ríkissjóður bæri engan skatt úr býtum eftir ákvæði þessu. Hið sama gildir um reglu þá, er flutt er í stjfrv.

Ef vjer tökum t. d. góða árið 1924, sem er eindæma gott ár, og gerðum svo ráð fyrir, að næstu ár, 1925 og 1926, yrðu vond ár. Þá mundi reglan hafa þau áhrif, að fjelag með miklum tekjum frá árinu 1924 mundi losna við að greiða allmikinn skatt á góða árinu, en verða svo að endurgreiða hann á vondu árunum. Eða með öðrum orðum, á góðu árunum er skuld lögð til hliðar, sem á að greiðast á vondu árunum. Þessi regla dregur því til óvarfærni, öfugt við varasjóðsregluna. Þá er enn að athuga það, að ef fjelag yrði gjaldþrota, þá misti landssjóður skattinn. Svo er eitt enn. Jeg fæ ekki betur sjeð en að það, sem gagnar einu fjelaginu í þessu efni, geti verið ranglátt gagnvart öðru. Einkum gæti þetta komið hart niður á nýstofnuðum fjelögum, sem nú yrðu að borga skatt af eins árs tekjum. Svo gæti komið vont ár mest, og þá yrðu þau samt að borga háan skatt, þar sem góða árið mundi í 2 ár hafa áhrif á skatt þess.

Jeg veit, að því er haldið fram, að reglur svipaðar þessum gildi í öðrum löndum. Jeg hefi heyrt sagt, að þær hafi gilt í Englandi. Nefndin sneri sjer því til breska konsúlsins og spurði hann, hvernig þessu væri háttað í Englandi. Hann er glöggur maður og vel að sjer, en hann gat ekki fundið neinn staf fyrir því, að reglan gilti þar. Hann spurði Englending, sem hjá honum var staddur, og hann kvað þessa reglu ekki mundu gilda í Englandi. í Frakklandi mun hún ekki heldur gilda. Annars get jeg ekkert fullyrt um þetta.

Svo að jeg víki að skýrslu frá skattstofunni, þá sýnir hún, að tekjuskatturinn allur 1922 var 28899 kr., 1923 43974 kr., en 1924 nemur skatturinn 919770 kr. Þessar tölur sýna, að tekjuskatturinn hefir komið ákaflega ljett niður á útgerðarfjelögunum. Ef vel er að gáð, sjest, að hann kemur mjög ljett niður bæði á sjávarútveginum og landbúnaðinum, en aftur á móti lítur út fyrir, að hann hvíli einna þyngst á launamönnunum. Þá fer betur að skiljast, hvað launalágir menn verða hart úti, þegar ríkið, auk þess að launa þeim illa, tekur af þeim bróðurpartinn af þessum skatti. Þyrfti að rannsaka þetta efni betur.

Það er eitt ákvæöi enn, sem nefndin hefir lagt til, að felt yrði burtu, ákvæðið í 2. gr. um, að undir vissum kringumstæðum megi veita ívilnun í tekjuskatti. Þetta ákvæði telur nefndin viðsjárvert að hafa, og vill því að það sje felt burtu.

Eins og tekið er fram í nál., virðist nefndinni æskilegt, að stjórnin tæki þessi lög sem fyrst til gagngerðrar endurskoðunar. Jeg skal benda á, að þegar þessi lög voru sett 1921, var líkt um meðferð þeirra eins og nú kemur of oft fyrir á hinu háa Alþingi, að stórmál eru fengin fjárhagsnefnd á síðasta augnabliki, svo að hún verður að hraða störfum sínum alt of mikið. Ástæðan til þess, að þetta frv. var afgreitt 1921 án þess að nægilega væri til þess vandað, var sú, að hagur ríkissjóðs var örðugur.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en legg til fyrir nefndarinnar hönd, að frv. sje samþykt með þeim breytingum, sem hún hefir á því gert.