12.05.1925
Efri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Eftir þær miklu deilur, sem orðið hafa hjer í þinginu út af meðaltalsreglunni svonefndu, mætti ætla, að jeg væri óánægður með undirtektir nefndarinnar. En jeg er alls ekki mjög óánægður. Að því er snertir breytinguna á skattskyldu hlutafjelaganna hefi jeg álitið, að aðalatriðið fælist í ákvæðunum um varasjóð, bæði um ívilnun skattgjalda á því, sem lagt er í varasjóð, og heimildina til að telja varasjóð með hlutafje við ákvörðun skattstigsins.

Jeg lít svo á, að meðaltalsreglan skifti ríkissjóð fremur litlu máli, ef litið er yfir langt árabil. Jeg get verið nefndinni þakklátur fyrir það, að hún gengur að ívilnun á skattgreiðslu af því, sem lagt er í varasjóð, þó að auðvitað lækki það tekjur ríkissjóðs, eins og hv. frsm. (SE) tók fram. Eftir atvikum er jeg ekki mjög óánægður með breytingar nefndarinnar, því að jeg tel frv. mikla rjettarbót þrátt fyrir þær. Jeg tel þó upphaflega frv. algerlega rjettmætt. Án þess að gera þetta að deiluatriði skal jeg gera grein fyrir því, hvert þessi uppástunga var sótt. Fyrirmyndin er tekin þar, sem mestrar fyrirmyndar er að leita um fjármálastjórn. Hún er tekin frá Bretlandi. Þetta ákvæði er þar í gildi og hefir gilt í langan aldur. Það hefir orðið umtal um að fella það niður núna, til þess að fá hærri skatt fyrir árið 1924, því það ár er tekjumikið eins og hjá okkur, en þó hefi jeg ekki sjeð þess getið, að sú tillaga hafi verið borin fram í þinginu. Þar er stigið tekið hreint þannig, að ef tap verður eitthvert árið, þá kemur það fram í meðaltalinu sem frádráttur. Einnig mun reglan þar ná til fleiri gjaldenda en hlutafjelaga. Þetta fyrirkomulag hefir reynst vel og komið á meiri jöfnuði um tekjur ríkissjóðs, þrátt fyrir mismunandi árferði. Jeg hefi ekki orðið var við neinar mótbárur gegn þessu fyrirkomulagi, nje að það hafi þótt valda óþægindum í Englandi. Fyrirmyndin er því í besta lagi, og hefði þetta verið hjer frá byrjun, hefðu allir talið það eðlilegt. En ástæðan fyrir því, að þetta var nú borið fram hjer, var óttinn um það, að skattgreiðslurnar 1924 yrðu ýmsum atvinnufyrirtækjum ofviða og kynnu að koma þeim á knje, ef árið 1925 yrði rýrt ár, sem ekkert varð um vitað, þegar stjórnarfrumvarpið var samið. Til sönnunar því, að þessi ótti var ekki ástæðulaus, má vísa til álits bankanna. Skrifleg umsögn þeirra var ekki útveguð fyr en komið var fram á þing, en mjer var álit þeirra áður kunnugt. Mjer þykir rjett, að umsögn þeirra sjáist í umræðuparti Alþt., og leyfi mjer því að lesa brjefin hjer upp. Umsögn Landsbankans er dagsett 14. mars og hljóðar þannig:

„Með brjefi dags. í dag hefir hið háa fjármálaráðuneyti beiðst yfirlýsingar bankastjórnarinnar um það, hvort hún sje því meðmælt, að lögleitt verði ákvæðið 1. gr. a. í frv. til laga um breytingar á og viðauka við lög nr. 74, 27. júní 1921, um tekjuskatt og eignarskatt, en ákvæði þetta fer fram á þá breytingu á núgildandi löggjöf, að tekjuskattur innlendra hlutafjelaga skuli miðaður við meðaltal af skattskyldum tekjum þriggja ára, ef fjelagið hefir starfað svo lengi, en tveggja ára, ef fjelagið hefir starfað í tvö ár einungis.

Út af þessu leyfir bankastjórnin sjer að láta í ljós það álit sitt, að hún telur umrædda lagabreytingu eigi aðeins heppilega, heldur og nauðsynlega til þess, að umrædd atvinnufyrirtæki geti unnið á heilbrigðum grundvelli. Hjer á landi er alveg sjerstök nauðsyn á að miða skattskyldar tekjur slíkra atvinnufyrirtækja við meðaltal fleiri ára, þar sem oft er stórfeldur mismunur á afkomu atvinnufyrirtækjanna frá ári til árs, og það er öllum til hagsmuna, einnig ríkissjóði sem skatttaka, að atvinnufyrirtækin komist á heilbrigðan grundvöll og, svo frekast sem unt er, komist varanlegt jafnvægi í afrakstur atvinnunnar.

Virðingarfylst,

Landsbanki Íslands“.

Þá er álit Íslandsbanka, dagsett 16. sama mán., og er á þessa leið:

„Út af brjefi hins háa ráðuneytis, dags. 14. þ. m., skulum vjer leyfa oss að skýra frá því áliti voru, að vjer teljum miklu rjettara að miða tekjuskatt innlendra hlutafjelaga við meðaltal af skattskyldum tekjum þriggja ára, ef fjelagið hefir starfað svo lengi, en tveggja ára, ef fjelagið hefir starfað tvö ár einungis, heldur en að miða tekjuskattinn aðeins við síðasta árið, eins og nú er gert. Að miða við þriggja ára meðaltal mundi koma á miklu meiri festu og öryggi í þessum efnum en nú á sjer stað, og teljum vjer það alveg nauðsynlegt, en núverandi fyrirkomulag álítum vjer hættulegt fyrir atvinnufyrirtækin, og þess eðlis, að það muni, þegar á alt er litið og að öllu samanlögðu, verða happadrýgra fyrir ríkissjóð að taka upp þriggja ára meðaltalið.

Vjer mælum því eindregið með því, að umrædd breyting á tekjuskattslögunum komist á.

Vjer skulum taka það fram, að með því að mál þetta kemur undir nefnd í Alþingi, sem Sigurður Eggerz bankastjóri á sæti í, hefir hann ekki tekið þátt í þessu svari bankastjórnarinnar.

Virðingarfylst,

Íslandsbanki.“

Þá hefi jeg ennfremur umsögn E. Claessens bankastjóra við Íslandsbanka um hag útgerðarhlutafjelaganna í Reykjavík, sem eingöngu skifta við Íslandsbanka, eins og hann kom bankastjóranum fyrir sjónir um áramótin. Jeg skal einnig lesa þetta brjef. Það er dagsett 15. mars og er svo hljóðandi:

(Sjá bls. 2173–2174 hjer að framan).

Allir vita, hverjar ástæður eru fyrir þessum bágborna hag fjelaganna, þrátt fyrir gróðann 1924. Næstu þrjú árin á undan voru þessi fyrirtæki sem sje rekin með tapi og vaxandi skuldum, og þó að árið 1924 væri veltiár, hefir það ekki nægt til þess að jafna þann halla. Ástand ið er ekki enn betra en svo, að sum fjelögin eru ekki einungis búin að tapa öllu hlutafje sínu, heldur skulda bönkunum mikið auk þess. Jeg vona, að enginn, sem heyrt hefir rjettmæt ummæli hv. frsm. (SE) um þýðingu þessara fyrirtækja fyrir þjóðfjelagið, lái mjer, þó að mjer þætti djarflega teflt að taka allan tekjuskattinn 1924, sem landinu ber eftir gildandi lögum, þar sem allar tekjurnar fara í greiðslur til skuldheimtumanna upp í áfallið tap.

En það má vitanlega hafa það á móti því að innleiða regluna núna, að til þess að byrja með má segja, að fyrsta árið verði það alveg einhliða ívilnun til handa gjaldendunum, og vinningur sá, sem ríkissjóður hefir af upptöku reglunnar, fellur ekki í ríkissjóðs skaut fyr en næstu tvö árin á eftir. Ef reglan hefði verið fram borin undir þeim kringumstæðum, að hún hefði ekki á fyrsta ári haft nein áhrif á upphæð skattsins, og þess vegna hvorki verið ívilnun til gjaldenda nje gróði fyrir ríkissjóð, þá held jeg, satt að segja, að enginn maður hefði haft neitt á móti henni, en það má náttúrlega frá vissu sjónarmiði segja, að svo framarlega sem þessi fyrirtæki eru fær um að borga sinn skatt, þá sje ekki rjett að vera að gefa þeim frest með það, því að ríkissjóður geti haft góð not fjárins nú þegar upp í lausaskuldir sínar, en ef fjárhagur ríkissjóðs væri í góðu lagi, þá teldi jeg það ekkert lán fyrir hann að hafa svo misjafnar tekjur, heldur væri hitt hollara, að þær verði sem jafnastar ár frá ári. En það, sem gerir það, að jeg ætla ekki að verða harður á því, að þessi regla verði lögleidd að sinni, er það, að mjer sýnist nú vera horfur á því, að fjelögin geti borgað þetta, án þess að að því verði

verulegt tjón. Mjer sýnist miklu meiri horfur á því nú en áður; vertíð hefir gengið vel og allar horfur taldar á því, að afkoma verði góð fyrir fjelögin. En jeg vil geta þess, að geta fjelaganna til þess að borga háan tekjuskatt í ár byggist alls ekki á afkomu umliðins árs, að minsta kosti ekki þeirra fjelaga, sem hafn orðið að skila öllum gróða sínum upp í tap fyrri ára, og ekki nema að litlu leyti fyrir þau fjelög, sem standa nokkuð betur, án þess þó að hafa bjargað öllu sínu hlutafje. Svona verður það venjulega, að getan til þess að borga tekju- og eignarskatt byggist ekki á tekjum undanfarandi árs; getan byggist á tekjum þess árs, sem skattgreiðslan fellur á. Horfurnar eru, eins og jeg sagði, talsvert bættar, og þegar nú einn af bankastjórum Íslandsbanka, þess banka, sem jeg geri ráð fyrir, að hafi meðal sinna skiftavina flest þau fyrirtæki, sem eru tæpast stödd, þegar hann kemur og lætur það álit í ljós, að það sje vegna fyrirtækjanna ekki nauðsynlegt að taka upp meðaltalsregluna, og eins og stendur get jeg ekki rengt hann um það, að hann byggi þetta álit sitt á nægilegri þekkingu í þessu efni, þá get jeg ekki af minni hálfu lagt neina sjerstaka áherslu á það, að reglan skuli upp tekin að þessu sinni, en verð þó að segja það, að jeg er honum alveg ósammála um það, sem hann hjelt fram, að meðaltalsreglan myndi verða í reyndinni óhagstæðari fyrir fjelögin heldur en núgildandi reglur. Það er sem sje svo um núgildandi reglur, að skatturinn fellur aldrei á það ár, sem teknanna er aflað á, og komi vont ár á eftir góðu ári, þá eru öll vandkvæði á því að greiða skattinn, og því meiri sem skatturinn er í því tilfelli, því meiri hætta er á því, að núgildandi regla verði óhagstæð, ef vont ár kemur á eftir verulega góðu ári. Í fylgiskjali með nál. hv. nefndar er tekinn upp útreikningur, sem nefndin bað skattstofuna um og hún hefir látið nefndinni í tje, um niðurslöðu fyrir ríkissjóð. ef meðaltalsreglan væri upp tekin. Eftir þeim útreikningi kemur það í ljós, að eftir núgildandi reglu ættu hhitafjelögin hjer í Reykjavík að greiða í skatt kr. 919770, en eftir meðaltalsreglunni færi þetta niður í kr. 306130, eða nálægt 1/3, og þar sem tekjuupphæðir undanfarandi ára hafa verið mjög lágar, leggja þau ár þess vegna lítið til meðaltalsins. En þeir, sem eru ekkert inni í þessum málum, kynnu út af þessum tölum að draga þá ályktun, að þessi regla hefði í för með sjer það tekjutap fyrir ríkissjóð, sem gerði mismuninn: en jeg veit þó, að þetta villir engan hv. þdm., heldur þýðir þetta aðeins það, að 2/3 hlutum af skattinum, sem það á eftir gildandi reglu að greiða þetta ár, er frestað til næstu tveggja ára. Þannig leiðir ekki af meðaltalsreglunni neina teljandi breytingu á tekjum ríkissjóðs í heild, nema að því leyti sem svo kynni að fara, að fjelag legðist niður eða liði undir lok áður en skatturinn eftir meðaltalsreglunni er að fullu goldinn, þ. e. a. s. innan þriggja ára frá því tekjuári, sem um er að ræða. Útreikningurinn sýnir það einmitt átakanlega, hve lítil breyting verður á heildarupphæðinni; menn þurfa ekki annað en hugsa sjer árin 1925 og 1926 samskonar ár að tekjum til og árin 1922 og 1923 í yfirlitinu, þá helst skatturinn til ríkissjóðs óbreyttur, verður 306130 kr., en mundi eftir núgildandi reglu falla niður í þá örlitlu upphæð, sem var árin 1922 og 1923.

Viðvíkjandi varasjóðsreglunni þykir mjer rjett að gera hjer ofurlitla athugasemd, og þá gefst tilefni til þess að líta á, hvernig hagur þessara fyrirtækja, sem brjef bankastjóra Íslandsbanka fjallar um, hefir verið síðustu árin. Reglan er ótvíræð gagnvart fyrirtæki, sem stendur svo, að það á einhvern varasjóð, á eignir fyrir hlutafje sínu og einhverja upphæð þar framyfir, sem þá er reikningslega talin í varasjóði. Þetta fjelag fær ívilnun í skattgjaldi á þeirri upphæð, sem það bætir við varasjóð sinn; en svo getur það verið, að í stað þess að eiga varasjóð umfram hlutafje sitt, hafi fjelagið haft tap, þannig að mismunurinn á eignum og skuldum falli á hinn veginn, þannig að nokkuð af hlutafjenu sje tapað, eða varasjóður sje orðinn neikvæður; þá hefi jeg viljað skilja þessa reglu svo, að það fjelag, sem þannig er illa stætt, ætti að njóta sömu ívilnunar um þá upphæð, sem það leggur til fjelagsins þarfa, eins og það fjelag, sem betur er stætt og leggur upphæðina í varasjóð, því að byrjunin til að safna varasjóði er vitanlega sú, að greiða það tap, sem greiða þarf, áður en nokkur eign getur byrjað að safnast við hliðina á hlutafjenu. En mjer þykir samt rjettara, af því að fjhn. þessarar hv. deildar hefir farið svo ítarlega út í þessa varasjóðsreglu, að geta um það hjer, til þess að nefndin geti íhugað það og, ef svo sýnist, látið í ljós, hvort henni þykir ekki þessi skilningur rjettur vera. Mjer sýnist það auðsætt, að ef reglunni er ekki þannig framfylgt, þá er vel stæðum fjelögum gerð meiri ívilnun heldur en ver stæðum. En ef gera ætti mismun á þeim, þá finst mjer, að það ætti heldur að vera á hinn veginn.

í hinu tilfellinu, um að fella burt 2. gr. frv., hefi jeg það að segja, að jeg skoða þá grein einungis sem beina afleiðingu af a.-liðnum, eða að hún er sett í frv. til þess að koma á ofurlitlu samræmi gagnvart öðrum gjaldendum, ef meðaltalsreglan er tekin upp fyrir hlutafjelög, en ef meðaltalsreglan er feld úr frv., þá óska jeg ekki eftir, að 2. gr. frv. verði samþykt.

Jeg átti því miður ekki kost á að heyra ræðu hv. frsm. nefndarinnar (SE) nema að litlu leyti. af því að jeg var bundinn í hv. Nd., en jeg heyrði, að hann gerði það að umtalsefni, hvar tekjuskatturinn hefði komið niður á undanförnum árum. Það er satt best að segja, að tekjuskatturinn í heild hefir undanfarið orðið minni en menn höfðu gert sjer vonir um, sem stafar bæði af erfiðari afkomu á þessum árum og breytingu á skattalögunum, sem gerð var á þingi 1923, sem gerði að fremur litlu skattinn hjá mjög mörgum lægri gjaldendum, en þó er það svo, að Reykjavíkurbær ber, að því er jeg hygg, um 2/3 alls skattsins síðustu árin. Þessi skattur hefir ekki hvilt nema að mjög litlu leyti á útveginum. Nokkuð hefir hvílt á launamönnum; þó er það ekki svo há upphæð, sem kemur frá þeim, en þó að útgerðarfjelögin hafi ekki borið skatt nema að litlu leyti, vegna afkomu sinnar, þá hafa þeir, sem starfa við þau, haft mjög viðunanleg laun, bæði verkamenn og aðrir starfsmenn, og þetta starfsfólk hjer í bæ hefir borið æðimikið af tekjuskattinum. Fyrir kunnuga menn er auðvelt að sannfæra sig um þetta, með því að líta yfir tekjuskattskrána hjer í Reykjavík.

Hv. fjhn. hefir fundið til þess, að tekjuskattslögin þyrftu endurskoðunar við. Þetta er eitt af því, sem jeg hefi fundið átakanlegast til í starfi mínu í fjármálaráðuneytinu, síðan jeg kom þangað, og jeg mundi vera fús til þess að taka þau til endurskoðunar. Það er rjett, sem hv. 1. frsm (SE) tók fram, að sú endurskoðun, sem ákveðin var í lögunum sjálfum um leið og þau voru sett, hefir ekki farið fram enn; það hefir verið bjargast við smábreytingar einar, en sjálfri endurskoðuninni skotið á frest. En það verður ekki komist hjá henni til lengdar, en er hinsvegar mjög erfitt verk fyrir stjórnina án sjerstakrar aðstoðar, og það er af því, að það veltur svo mikið á því að taka sem mest tillit til þeirrar reynslu, sem fengist hefir um lögin hjá skattanefndum og yfirskattanefndum, og það er ekki hægt nema að njóta við það aðstoðar sjerstaklega glöggra manna, sem starfað hafa að framkvæmdum laganna hingað til. Það er þess vegna frekar við það mál heldur en við nokkur önnur, sem ætlast er til að undirbúin verði á næstunni, sem stjórninni hlýtur að verða þörf aðstoðar, og jeg vildi mjög gjarnan heyra einhver ummæli, t. d. við 3. umr., frá hv. nefnd um það, hvort hún fyrir sitt leyti vill heimila stjórninni að greiða nauðsynlegan kostnað við aðstoð í þessu skyni, þannig að endurskoðunin virkilega geti orðið bygð á þeirri reynslu, sem fengin er við framkvæmd laganna.