12.05.1925
Efri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2283 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af ummælum hv. 5. landsk. (JJ) vil jeg taka það fram, að hæstv. atvrh. (MG) bjóst við, að hægt yrði að gera forsvaranlegan undirbúning á endurskoðun sveitarstjórnarlaganna án milliþinganefndar. En endurskoðun tekjuskattslaganna mun tæplega geta orðið framkvæmd nema með mikilli aðstoð þeirra manna, sem sjálfir hafa staðið í framkvæmd laganna.

Jeg skal ekki deila við hv. frsm. (SE) um kosti og galla meðaltalsreglunnar. Það er aldrei nema rjett, að hún getur orðið óhagstæð fyrir ný fjelög, sem fá gott ár fyrst, en síðan vond ár. Þetta kom til tals í neðri deild, en var ekki tekið til greina þar, sem ekki var vonlegt, þar sem mikil áhersla er lögð á að fá þessa reglu, bæði af bönkunum og hlutafjelögunum, því að þau telja hana miklu hagstæðari fyrir sig. Þá er ekki nema eðlilegt, að þau taki þennan ágalla á sig, til þess að fá hina hagstæðari reglu.

Að hlutafjelögin fari að leggja skuldir til hliðar, ef meðaltalsreglan kemst á, tek jeg varla alvarlega. Því ef þau gera það, þá leggja þau jafnframt eign til hliðar sem því svarar. Vitanlega getur komið fyrir, að svo illa gangi, að fjelögin tapi bæði þessu fje og meiru, svo ríkissjóður bíði halla við það. En sjaldan mun það koma fyrir.

Það er alveg rjett, að þeirri litlu lækkun á skatti, sem leiðir af meðaltalsreglunni, er auðgert að ná með lækkun á skattstiganum. En hvað ríkissjóð snertir, þá lít jeg svo á, að honum muni meiri þörf á 300 þús. kr. tekjuauka hvort árið 1926 og ’27 en þó hann fái 600 þús. kr. nú á þessu ári.