06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

1. mál, fjárlög 1926

Klemens Jónsson:

Einhver verður að tala við tómu stólana, og er þá best að jeg verði til þess í þetta sinn, enda þótt því fari fjarri, að jeg hafi veigaminni eða ómerkilegri brtt. að tala um en aðrir hv. þm.

Það eru einkum tvær brtt., sem jeg ætla að gera að umtalsefni að þessu sinni.

Hin fyrri er frá meiri hl. fjárhagsnefndar um 8 þús. kr. fjárveitingu til mjólkurniðursuðufjelagsins Mjallar. Nefndinni barst erindi frá fjelagi þessu um, að því yrði veittur einhver styrkur af hálfu hins opinbera, annaðhvort beinn fjárstyrkur úr ríkissjóði eða einhverskonar tollvernd.

Þetta fyrirtæki er alveg nýtekið til starfa. Það hóf göngu sína í nóvember síðastl., og þá þegar brá svo undarlega við, að útlend mjólk lækkaði stórum í verði og hefir farið sílækkandi síðan. Í byrjun desembermánaðar síðastl. var mjólkurverð Mjallar hjer í Reykjavík 36 kr. kassinn (48 dósir), en um sama leyti kostaði útlend mjólk kr. 37,50–38,00 kassinn. En í janúar var verð útlendu mjólkurinnar komið niður í kr. 34,00–34,50 og í febrúar jafnvel niður í 32 kr. kassinn.

Þótt svo kunni að vera, að þessi lækkun stafi að einhverju leyti af hækkun íslenskrar krónu, þá er svo tæpast að öllu leyti, því hún er ekki vön að gera svo fljótt vart við sig, heldur mun söluverð þessa fjelags hafa haft aðaláhrif í þessa átt, og er sýnilegt, að þessi innlenda mjólkurgerð á framtíð fyrir höndum. Nú greiðir fjelagið þeim bændum, sem afhenda því mjólk sína, 30 aura fyrir líterinn, og segir fjelagsstjórnin, að ómögulegt sje fyrir þá að láta mjólkina fyrir minna verð. Og þar sem nú kostnaðurinn við fyrirtækið getur í engu verulegu lækkað fyrst um sinn, fór fjelagið fram á það við fjhn., að Alþingi vildi styrkja það á þann hátt að leggja toll á innflutta niðursoðna mjólk. Gat fjelagið þess, að minni tollhækkun í þessu efni frá því, sem nú er, en 10 aur. á kg. mjólkur myndi naumast koma að tilætluðum notum. Formaður fjelagsins kom sjálfur suður og átti tal um þetta við fjhn. Sýndi hann henni fram á, að full nauðsyn er á að sinna þessu máli. Raunar varð nefndin sammála um það, að hún gæti ekki aðhylst að leggja hærri toll á innflutta mjólk, og skal jeg ekki fara langt út í það atriði, en get þess eingöngu, að nefndin er yfirhöfuð mótfallin verndartollum. Þess vegna kaus fjhn. að fara hina leiðina, þá, að leggja til, að fjelaginu væri nú veittur nokkur styrkur, meðan þetta er í byrjun og alt sem erfiðast. En nefndin gat ekki orðið sammála um það, hvernig þeim styrk skyldi hagað, eins og sjá má af till. meiri hl. og till. hv. minni hl., þótt raunar báðum komi saman um að veita fjelaginu einhvern styrk. Viljum við, að fjelaginu sje í verðlaunaskyni veittar 2 kr. fyrir hvern mjólkurkassa, en í honum eru 48 dósir af sömu stærð og útlendar mjólkurdósir. Má þessi styrkur nema alt að 8 þús. kr. Fjhn. álítur, að hjer sje um mikilsverða framkvæmd að því er snertir landbúnaðinn að ræða. Þess vegna vil jeg f. h. fjárhagsnefndar mæla sem best með því, að þessi till. meiri hl. verði samþykt. Og jeg vænti þess sjerstaklega fastlega, að hv. fjvn., sem er skipuð mætum mönnum, er vilja styrkja landbúnaðinn sem mest, verði fús til að samþykkja þessa tillögu.

Þá er hjer önnur brtt., eða brtt. III á þskj. 299. Hún er frá sjálfum mjer, um 10 þús. kr. til þess að byggja nokkurs konar gróðrarstöð á Stóruvöllum á Landi. Þegar stjórnin var að undirbúa fjárlagafrumvarpið fyrir 1926, fylgdi hún þeirri venju, sem áður hefir tíðkast, að skrifa embættismönnum og stofnunum og biðja þær um kostnaðaráætlanir fyrir það ár. Samkv. þessu fjekk Búnaðarfjelagið líka áskorun um að koma fram með till. sínar. Meðal þeirra till., sem það kom fram með, var ein sú, að veittar yrðu 25000 kr. í fjárlögum 1926 til að byggja hús á Stóruvöllum vegna sandgræðslunnar. Búnaðarfjelagið rökstuddi þetta með ítarlegu erindi, sem síðar var prentað í Búnaðarritinu. Get jeg látið mjer nægja að vísa til þess að mestu. Þó vil jeg sakir þeirra, sem ekki hafa lesið ritgerðina, taka fram nokkur atriði, sem þar eru nefnd. Búnaðarfjelagið segir, að þeirri reglu hafi verið fylgt, þegar um sandgræðslu er að ræða, að láta þau svæði sitja í fyrirrúmi, þar sem mest hætta stafar af, að sandfokið breiðist út og valdi skemdum á grónu landi. Þá sje og tekið tillit til þess, hvað mikið viðkomandi sveitir geti lagt fram á móti landssjóðstillaginu. Af þeim svæðum, sem mest nauðsyn beri til, að tekin sjeu til sandgræðslu, eru 6 svæði í Rangárvallasýslu, og er gert ráð fyrir, að sú græðsla kosti 50 þús. kr. Fjelagið segir, að þessi svæði hafi sjerstaklega verið athuguð, en að auk þeirra sjeu fjöldamörg svæði víðsvegar um land, sem full nauðsyn væri einnig að græða upp. En á Rangárvöllum einum er talið, að 70 býli sjeu lögð í auðn af sandfoki. En þar var áður mjög frjósamt. Nú segir Búnaðarfjelagið, að regluleg sandgræðsla hafi aðeins átt sjer stað á einum stað, þ. e. á Reykjum á Skeiðum, en telur bráðnauðsynlegt að byggja nú sandgræðslustöð á Rangárvöllum, þar sem sandfokið er mest. Og væri ákjósanlegast, að sandgræðslustjórinn byggi í miðri sveit, svo að hann gæti gert sem bestar tilraunir og leiðbeint mönnum sem mest. Búnaðarmálastjórinn segir, að Stóruvellir á Landi sjeu ágætlega vel fallnir til slíkrar sandgræðslustöðvar. Þar var áður höfuðból, eins og kunnugt er, en er nú í auðn, nema hvað búið er að inngirða þar dálítið svæði, eða um 120 ha. Reyndist það svo vel, að 2 árum eftir að það var girt gaf það af sjer 600 hesta.

Fyrir ofan Stóruvallaland liggja afarstórar flatir, eða hinar svonefndu Klofaflatir. Nú eru þær sandauðn ein, en voru áður grösugt og fagurt land. Segir búnaðarmálastjórinn, að þetta megi alt græða og að yfir höfuð að tala sje þarna á Rangárvöllunum eins og skapað svæði til þess að byrja sandgræðsluna með miklum krafti. Segir hann, að í Landmannahreppi eigi að vera miðstöð sandgræðslunnar hjer á landi. Þess vegna fór hann líka fram á 25 þús. kr. til byggingar í þessu skyni. Jeg sá mjer nú ekki fært, með tilliti til fjárhags landsins, að fara fram á svo mikið nú, enda álít jeg, að hægt væri að byggja húsið fyrir talsvert minni upphæð. Átti jeg tal um þetta við búnaðarmálastjórann, og kom okkur saman um, að notast mætti fyrst í stað við 10 þús. kr. Vænti jeg nú þess, að hv. þdm., og þó einkum háttv. landbn., sjái, hvílíkt stórmál og nauðsynjamál þetta er, og að hv. þd. verði einhuga um að samþykkja þessa till. mína. Menn mega og vel gæta þess, að hjer er um upphæð að ræða, sem búast má við, að fljótt beri mikinn og margvíslegan ávöxt.

Jeg á ekki fleiri brtt., en jeg vil minnast á fáeinar aðrar, sem bornar hafa verið fram, sjerstaklega brtt. XV. á þskj 290, frá hv. fjvn., um það að hækka styrkinn til bátaferða um 4 þús. kr. Samgöngumálanefnd, sem hafði þetta mál með höndum, hefir gefið ítarlega skýrslu um þessar bátaferðir, og kom henni saman um þá upphæð, sem minst væri hægt að fara fram á. Hún hefir ekki haft tækifæri til að ræða þessa hækkunartill., svo jeg get ekki talað fyrir hennar hönd, en jeg þykist þess fullviss, að meiri hl. muni að minsta kosti vera henni samþykkur. Jeg er henni fyrir mitt leyti eindregið fylgjandi, því jeg álít, að ekki verði hægt að komast af með minni upphæð. Jeg býst og við, að hæstv. atvrh. (MG) hagi úthlutuninni í samræmi við vilja samgöngumálanefndar Nd., sem honum er vel kunnugt um. Jeg leyfi mjer því að mæla fastlega með því, að þessi brtt. verði samþykt.

Þá vil jeg drepa á brtt. XVII á sama þskj., um að kaupa hús og lóð við Garðskagavita. Þegar jeg var ráðherra, var farið fram á, að þetta væri keypt, en þá var það metið nokkru hærra en nú. Það er vissulega þörf á því bæði fyrir vitann og vitavörðinn, að þetta sje keypt. Og þar sem hæstv. stjórn hefir farið fram á þetta og hv. fjvn. lagt því liðsinni sitt, þá vænti jeg þess, að það gangi greiðlega. Og Jeg get lýst því yfir, að eins og jeg leit á þetta áður sem nauðsynjamál, þá geri jeg það enn og greiði till. fúslega atkv. mitt.

Þá vil jeg enn minnast á brtt. XII, um Vaðlaheiðarveginn. Jeg held, að það hafi aðeins verið 2 till. hv. fjvn. við 2. umr., sem feldar voru, en hinar allar voru samþyktar. Önnur sú, sem feld var, var fjárveiting til þessa vegar. Jeg verð að segja, að mig stórfurðaði á þessu, því að jeg ætla, að hvergi hjer á landi sje jafnmikil þörf fyrir, að betri vegur sje lagður, en einmitt þarna á Vaðlaheiði. Þetta er sjálfsagt langfjölfarnasti vegur á landinu, að veginum austur yfir Hellisheiði undanskildum; en jeg veit ekki til, að neitt verulega hafi verið gert við Vaðlaheiðarveginn, síðan jeg þekti þar til fyrst, eða um 34 síðustu árin. Hann er líka algerlega ófær á köflum oft og tíðum, og jeg vil nú óska, að hv. fjvn. fái því meira fylgi með þessari till. nú en áður við 2. umr.

Það gæti verið freistandi að tala um fleiri till., en mjer finst hv. framsögumenn og hæstv. fjrh. (JÞ) hafa verið svo stuttorðir, að við hinir ættum að fylgja því loflega dæmi. Skyldi því hver og einn aðeins tala um sínar eigin brtt.

Að lokum verð jeg þó aðeins að drepa á þær brtt. hv. fjvn., sem snerta nöfn manna. Jeg get ómögulega felt mig við það að fara hjer að skíra menn upp og láta þá heita nöfnum, sem vitanlegt er, að þeir bera aldrei nema í fjárlögunum. Hvenær verður t. d. tannlæknirinn V. Bernhöft nefndur Vilh. Vilhelmsson í daglegu tali ? Slíkar nafnabreytingar og þessar tel jeg varla forsvaranlegar af hinu háa Alþingi. Þó er jeg ekkert á móti því að breyta nöfnum þeirra, sem tekið hafa sjer eitthvert nafnskrípi. Jeg álít, að t. d. Einar Hjörleifsson sje miklu þjóðkunnari undir því nafni en Kvaran, og mætti það því vel missa sig. En að fara að breyta nöfnum manna, sem bera nöfn, sem feður þeirra hafa borið í 100 ár eða meira, nær ekki nokkurri átt og er löggjafarþinginu varla sæmandi. Jeg vona því, að þessar brtt. hv. fjvn. verði ekki samþyktar.