13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jónas Jónsson:

Mjer virðist framkoma hæstv. fjrh. (JÞ), þegar hann er að tala um sínar útlendu fyrirmyndir, minna á börn, sem biðja um að lána sjer 25 aura „þangað til á morgun“. Hann segir, að þetta fyrirkomulag tíðkist í „ýmsum“ löndum. Þó mun hálf fordæmi í Englandi vera það eina, sem hægt er að benda á. í stað þess að láta opinberar skýrslur fylgja stjfrv., hafa verið settar aths. við það, þar sem sumt hefir reynst vera hrein ósannindi við athugun nefndarinnar. Og þegar hæstv. fjrh. er gefinn kostur á að koma með heimildir máli sínu til sönnunar, þá þegir hann eins og steinn, eða beiðist vægðar. Jeg held því, að óhætt sje að segja, að margt í þessum „athugasemdum“ hans sje uppspuni einn.

Í fyrra hjelt þessi sami hæstv. ráðherra fyrirlestur nm fjármál landsins og bauð þingmönnnm að hlusta á. Gekk hann þá í gegnum landsreikningana, einkum í tíð hæstv. forsrh. (JM) og hæstv. atvrh. (MG). Tilgangurinn með ræðu hans þá var að kasta skugga á þessa núverandi samverkamenn hans til að hreppa forsætið sjálfur, sem þó mistókst af leiðinlegum en skiljanlegum ástæðum. Það er alveg rjett hjá hæstv. fjrh., að ef athugaðar eru gerðir núverandi yfirboðara og jafningja hans, kemur margt misjafnt fram. En verri blekking en þetta er þó fáheyrð. Hæstv. fjrh. er formaður þess flokks, er fór með völdin 1921, er fjárlögin fyrir 1922 voru afgreidd. Getur það talist sparnaðarstjórn, sem situr eftir slíka afgreiðslu á fjárlögum? Hvað var eðlilegra en að stjórnin leysti upp þingið og efndi til nýrra kosninga? En hvað gerði stjórnin, sem núv. yfirboðari og jafningi hæstv. fjrh. skipuðu þá? Hún sat eins lengi og henni var unt, án þess jafnvel að gera nokkuð til að vara þjóöina við ástandinu. Hún gerði ekki hið sama og hv. 2. þm. Rang. (KIJ) gerði 1923, er hann stöðvaði allar framkvæmdir á ríkissjcðskostnað og hringdi stórubjöllu, svo þá skildu allir hvar komið var.

En meðan landið safnaði miljónaskuldum voru haldnar hjer dýrlegar veislur, svo að hundruðum þúsunda nam, þvert ofan í vilja þess gert, er fagna skyldi. Sá tigni gestur skildi ástandið betur en þeir, sem fyrir Veislugleðinni og sukkinu stóðu.

Þá voru innlend lán tekin, og þau sukku í botnlausa hít. Þá var tekið enska lánið með 15% afföllum og mátti ekki borgast fyr en eftir vissan árafjölda. Hundruð þúsunda gengu til braskara fyrir að vera milliliðir og kannske meira. A. m. k. skrifuðu slikir menn hingað síðar og sendu þunga bakreikninga.

Jeg held, að ef hæstv. fjrh. vildi bera saman, hvað tapaðist og eyddist í stjórnartíð núv. hæstv. forsrh. (JM) og hv. 1. landsk. (SE), að þá komi það meðal annars í ljós, að það voru hans samherjar, sem tóku enska lánið til að bjarga þessum brjóstbörnum, útgerðarfjelögunum, sem Claessen lýsti svo vesallega. Jeg hefi aldrei heyrt meiri ósvífni en þá, að sá flokkur, sem setti landið á hausinn, skidi nú byrja að tala um sig sem viðreisnarflokk. Vel má vera, að hann segi: „Jeg var þá ekki fjármálaráðherra“. En hann var stuðningsmaður þeirrar stjórnar, er tók við fjárlögunum 1922 með 21/2 milj. tekjuhalla. Það var hans stjórn, sem safnaði miljónaskuldum, og tók síðan enska lánið með hinum alkunnu ókjörum. Ekkert annað en viðurkenningin á þessum syndum getur mildað dóm þjóðarinnar.

Hæstv. fjrh. getur verið glaður yfir þorskinum. Hann lagaði talsvert fjármál Íslands árið sem leið, og hvernig sem hæstv. fjrh. vill láta meta það við þorskinn, þá er það víst, að þessi skepna, sem aldrei hefir látið kalla sig heila heilanna, hefir haft betri áhrif á fjármálalíf landsins heldur en hæstv. stjórn, sem sjálf var að gefa sjer meðmæli áðan hjer í deildinni.

Hæstv. fjrh. vildi þakka sjer, að ástandið væri betra, og talaði um sparsemi núverandi stjórnar. Jeg vil benda honum á, að þegar fjárlögin voru samin í fyrra, voru Framsóknarmenn jafnsterkir íhaldsmönnum í fjvn. Nd., og það voru engu síður andófsmenn stjórnarinnar, sem reyndu að spara þar sem það átti við hæstv. landsstjórn hefir ekki meiri viðbjóð á eyðslunni en svo, að hún hefir undir sinni vernd þann manninn, sem allra þingmanna hefir verið ógætnastur um fjármál landsins. Það verður ekki betur sjeð en að hæstv. fjrh. hafi verið mjög óspar á fríðindi til þess að tryggja sjer þennan mikla sparnaðarmann. Hæstv. fjrh. vildi afsaka verðtollinn með því, að krónan hefði rjest við. En hefði þá ekki verið gott að fá hvorttveggja, hækkun krónunnar og engan verðtoll. Ef hæstv. stjórn hefði gengið inn á till. okkar Framsóknarmanna í fyrra um að banna innflutning á óþörfum varningi, þá hefði stjórnin ekki þurft að gefa þorskinum æruna fyrir batnandi fjárhag ríkisins. Jeg skal benda á, hvernig stóð á lækkun krónunnar. Það voru ekki kaupfjelögin, sem feldu hana. Þau hafa haft nægan útlendan gjaldeyri, og jafnvel hjálpað bönkunum. Nei, það voru brjóstbörn Íhaldsins, sem feldu hana, það voru togararnir. Þeirra vegna söfnuöust skuldir 1920 og þeirra vegna varð að taka enska lánið. Þeir menn feldu krónuna, sem nú vilja opna fyrir steinolíuhringnum. Það var mótsögn hjá hæstv. fjrh., þar sem hann sagði, að sjer hefði ekki komið á óvart útreikningur skattstjórans. Það hefir verið hlegið mikið að þeim snúningi íhaldssinna, sem orðinn er í þessu máli hjer í deildinni, en auðvitað dettur mjer ekki í hug að áfella neinn fyrir að snúast til betra máls. Það sjest, að hæstv. fjrh. hefir ekki verið búinn að leita álits skattstjórans, þegar hann bar fram frv., enda játar hann að hafa hlaupið strax í símann þegar útreikningurinn kom. Hann leit fyrst og fremst á hagsmuni fjelaganna. Nú segir hann, að góður afli togaranna í vetur hafi komið sjer til að snúast, af því hann sjái að fjelögin geti borgað. En sú skýring er ekki trúleg. Sá, sem vildi þetta í byrjun þingsins, gat ekki snúist af þessum ástæðum. Það er sannað, að hæstv. fjrh. hefir ekki farið í frumheimildina, skattstjórann. Þá hefði hann ekki þurft að stökkva hjer út úr deildinni meðan jeg var að halda ræðu, til þess að spyrjast fyrir. Honum þykir undarlegt, að jeg skyldi vita um erindi sitt. En jeg get sagt honum, að hún varð strax heyrinkunn í þinginu þessi setning Íhaldsmanna, er þeir voru ráðþrota: „Við skulum bara þegja og láta þá skamma okkur eins og hunda“. Þar sem hæstv. fjrh. segir, að jeg muni hafa einhverja heyrara í þinginu, þá eru það hrein og bein ósannindi. Sjálfur var jeg að halda ræöu og gat ekki hlustað á hann, en um þjóna þingsins er það að segja, að þeir eru ráðnir af forsetunum, flokksbræðrum hæstv. fjrh., svo að það væru þá fremur þeir, sem gætu ráðið menn til að hlusta. Jeg lýsi ráðherrann ósannindamann að því, að jeg hafi slíka menn í þjónustu minni. Aftur get jeg mint hann á, að það hefir sannast um einn flokksbróður hans, sem er starfsmaður landsins við símann, að hann hefir misnotað aðstöðu sína með því að hafa eftir mjer ummæli, sem jeg átti að hafa talað í símann. Ef hæstv. fjrh. óskar að fara út í, hvernig aflað er til starfsfólks, sem best stendur að vígi með að hlusta á símtöl manna hjer, þá mun hann ekkert græða á því, nje heldur vinir hans, sem að þeim ráðningum standa.

Þá segir hæstv. fjrh., að það geri víst ekki mikið til, þó að lögin gangi ekki jafnt yfir alla; að minsta kosti sje ekki kvartað yfir því, þó að þau komi þungt niður á hlutafjelögunum. Hæstv. fjrh. gefst fyrst upp á því að afsaka það, sem hjer er aðalatriðið. Hann ætlaði að búa til sjerstaka undantekningu fyrir vini sína í hlutafjelögunum. Hann ætlaði að raska því jafnvægi, sem á að vera í skattaálagningu, með því að gera hlutafjelögunum óeðlilega ljett fyrir. Hæstv. fjrh. viil hvorki nú nje endranær koma inn á það, hvort heppilegra sje að reka viðskifti í hlutafjelögum eða fyrir einstaklings reikning. Ef til vill er sementsverslunin hans hlutafjelag. (Fjrh. JÞ: Alls ekki hlutafjelag). Það gleður mig, að hæstv. fjrh. er enn á hinu fullkomnara siðferðisstigi um verslunarreksturinn. Hlutafjelögin eru að vísu samsafn manna, en sálin í þeim eru þó peningarnir, og það er það, sem gerir þau ósiðleg. Peningarnir eru voldugir. Þeir stjórna blöðum, þeir ráða atkvæðum, þeir mynda steinolíuhring, þeir ráða á ótal sviðum. Hæstv. fjármálaráðherra (JÞ) hefir alveg gefist upp við að afsaka þá siðferðilegu hættu, sem af hlutafjelögum getur stafað, þar sein peningarnir standa bak við, en ekki menn.

Út af dylgjum hæstv. fjrh. um, að jeg heföi hagnað af steinolíueinkasölunni, gaf jeg honum tækifæri til að sanna þau ummæli. Hann gerði það ekki. Jeg verð því að lýsa hann ósannindamann að þessum dylgjum. Hafi hann rök, þá skora jeg á hann að koma með þau. Jeg hefi engar tekjur af þessu fyrirtæki og á þar engra persónulegra hagsmuna að gæta. Jeg tek enga borgun fyrir blaðagreinar mínar um þetta efni fremur en önnur. Jeg skrifa aldrei neitt fyrir peninga. Jeg geri aldrei neitt fyrir peninga. Hæstv. fjármálaráðherra skilur þetta kannske ekki, en það er ekki mín sök.

í sinni löngu ræðu útskýrði hæstv. fjrh. á engan hátt þann flótta, sem hann lagði á hjer í gær í þessu máli. Hann gerði enga grein fyrir því, hvers vegna allar áskoranirnar út af togarafjelögunum eru nú hættar að gilda. Hann segist ekki vera hræddur við vantraustið, — en gæti nú ekki verið, að einhver þessara 13 sálna, sem fylgja honum í Nd., hefði orðið hissa við að sjá skýrsluna frá skattstjóranum og hikað við að rjetta upp hendina til trausts? Að minsta kosti er mjög undarlegur þessi flótti hæstv. fjrh. hjer í deildinni, eftir því sem hann talaði nin þetta mál í Xd. Hvort hann vill skrifta fyrir þjóðinni eða láta hana giska á sannleikann, því ræður hann auðvitað sjálfur. Mjer hefir dottið í hug ein líking út af framkomu hæstv. fjrh. í þessu máli. Það kemur stundum fyrir um bjartar nætur, að stigi sjest reistur upp við hús og maður á leiðinni upp stigann, sem ætlar inn nm glugga, þar sem fjárvon er inni. En ef hrópað er til hans, þá hraðar hann sjer niðnr aftur sömu leið tómhentur. Það, sem komið hefir nú fyrir hæstv. fjrh., er hliðstætt þessu.