13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jónas Jónsson:

Það væri eiginlega æskilegt, að hæstv. forsrh. (JM) reyndi að nota sitt litla minni, þó hann gerist nú sjálfur nokkuð gamlaður.

Jeg get mint hæstv. forsrh. á það, að veislan var hjer í bænum og það var veitt vín í þeirri veislu; þar sat hæstvirtur forsætisráðherra og helstu broddborgarar bæjarins. Vínið flaut í straumum. Allir vissu, að það var óleyfilega innflutt og notað. En landsstjórnin lokaði augunum. Hæstv. ráðherra (JM) ætti líka að muna eftir þeirri útreið, sem hann fjekk við Ölfusárbrú, og hann ætti ekki að minnast of mikið á þessi veisluhöld og kostnaðinn, sem varð við þau, sem landsreikningarnir sýndu.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að fyrirlestrar sínir hefðu verið fluttir í fræðsluskyni. Hvaða heilbrigður maður getur lesið þessa fyrirlestra án þess að finna, að þeir eru beint stílaðir til þess að lækka þessa tvo samherja hæstv. ráðherra (JÞ), sem áttu sæti í stjórninni 1920–’22?

Hæstv. ráðherra (JÞ) vildi láta heita svo, að það hefði enga þýðingu, að fyrverandi fjrh. sagði þjóðinni það sumarið 1923, að sú stefna og það ástand, sem stofnað var til 1920–’22, gæti ekki lengur haldið áfram; það yrði að fara að snúa við. Á þessari viðvörun var bygður sparnaðurinn á þinginu 1924. Hvernig sem hæstv. ráðherra reynir að snúa þessu, þá er ómögulegt að komast utan um enska lánið eða innanlandslánið og alt sukkið og alla miklu eyðsluna, sem kölluð var „fjáraukalögin miklu.“ Viðvíkjandi fjárlögunum varð hæstv. fjrh. að játa, að samherjar hans tóku við þeim ómögulegu fjárlögum, sem giltu fyrir árið 1922. Einmitt núverandi yfirmaður hans var þá líka forsætisráðherra, og það var hans skylda og þeirra, sem með honum voru, að kippa í taumana. Greiðslur fyrv. stjórnar voru svo hverfandi litlar í samanburði við fjáraukalögin miklu. Náttúrlega var það áframhald á sömu braut, en í ofursmáum stíl; og síðast var það komið svo, að fyrverandi fjrh. borgaði ekki eftir fjárlögum til nýbygginga, til vega og brúa og síma. Hann braut þar af leiðandi formlega fjárlögin, enda viðurkendi hann það. En sukk íhaldsmanna olli, að svo harðlega varð að taka í taumana.

hæstv. fjrh. vill afneita samherjuin sínum, það á hann við sjálfan sig. Það verður ekki kringum það komist, að nær allir sömu menn núlifandi, sem voru leiðandi menn í Heimastjórnarflokknum, voru fylgismenn hæstv. forsrh. á stríðsárunum og síðan í sparnaðarbandalaginu. Þeir skírðu sig bara upp; — það er líkt og fínn flöskumiði, sem á að breyta innihaldinu, en það verður samt altaf það sama.

Hæstv. ráðherra (JÞ) byrjaði skrítna vísindamensku. Hann dæmdi um bækur, sem hann hefir ekki lesið, og býst við að þær sjeu óhæfar. Það, sem hann byggir á, er það, að maðurinn, sem skrifaði þær, hafi talað um veislur 1921, og að hann hafi nefnt sukk og svo enska lánið. Jeg hefði gaman af, að hæstv. ráðherra (JÞ) vildi athuga, hvað hann er að gera, því það, sem hann heimtar, er, að sagan sje fölsuð. Þó það sje máske hæstv. ráðherra (JÞ) til hrygðar, þá verð jeg að segja, að jeg hefi ekki lesið litlu bókina hans. Mjer finst hún eitthvað svo heimskuleg á svipinn, einhver vandræðalegur lánþiggjandablær á öllu útlitinu. En mínar bækur eru lesnar svo að segja á hverju heimili á landinu. Þær hafa aldrei verið í lággengi.