14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Fjhn. hefir ekki haft tækifæri til þess að halda fund um málið og breytingar þær, sem á því hafa orðið. Að vísu finn jeg ekki ástæðu til þess að kvarta um þær breytingar, en jeg gæti trúað því, að einhverjir aðrir litu á þær með minni velþóknun. En þrátt fyrir þetta býst jeg við því, að meiri hl. nefndarinnar geti sætt sig við frv. og þá niðurstöðu, sem hv. Ed. hefir komist að. Breytingar hv. Ed. eru í rauninni fullkomin viðurkenning á því, að rjettur hafi verið skilningur meiri hl. nefndarinnar hjer í Nd. á því, hverjar hefðu orðið afleiðingar frv., ef það heföi verið samþykt í sinni upphaflegu mynd, og að till. hans hafa verið á góðum rökum bygðar. Breytingin gengur í sömu átt og meiri hl. nefndarinnar vildi vera láta, þegar frv. var til meðferðar hjer í þessari hv. deild, þ. e. að fella niður meðaltalsregluna úr 1. gr. og sleppa 2. gr., og jeg finn ástæðu til þess að fagna yfir því, að ekki hefir tekist að traðka rjettu máli um þessa breytingu, eins og gerð var tilraun til við 2. og 3. umr. málsins hjer í hv. deild af hæstv. fjrh. (JÞ).

Það hefir nú komið í ljós, að tjón það, sem landssjóður mundi hafa beðið af meðaltalsreglunni, munar geysilega miklu. Þessu mótmælti hæstv. fjrh. í gær, og kom að því í varnarræðu sinni gegn vantraustinu, að ekki hefðu verið sjáanlegar þessar afleiðingar af staðfestingu frv. eins og það var, og meðaltalsreglunni, fyr en á síðustu stundu, eða eftir að frv. fór hjeðan, skildist mjer. Þetta er hæpin fullyrðing og tæplega rjett; hæstv. fjrh. fer þarna ekki með rjett mál, því að frv. var hjer til meðferðar í aprílmánuði, þegar auðvitað var búið að afhenda skattstofunni framtalið; þess vegna skaut hæstv. ráðherra dálítið framhjá marki, þegar hann vildi afsaka sig með því, að hann hefði ekki vitað betur á þeirri stundu, sem hann þrætti við meiri hl. fjhn. um það. Jeg verð að líta svo á, að jafnskýr maður og reikningsglöggur og hæstv. fjrh. hefði átt mjög hægt með að átta sig á því, hvert stefndi með ríkistekjur þessa árs eftir frv. hans. Hinsvegar má, sem áður sagt, una við frv. eins og það nú er orðið. Í einu atriði hefir hv. Ed. þó breytt frv. frá till. meiri hl. fjhn. þessarar deildar, og getur sú breyting ekki til bóta talist. Hún hefir sem sje fært þann skattfrjálsa hluta tekna, sem í varasjóð falla, úr 1/4 í með öðrum orðum, hún hefir lagt til nokkrar frekari ívilnanir fyrir þessi fjelög heldur en ráðgert var, þegar frv. fór hjeðan og framar því, sem var í stjfrv. sjálfu. En af því að meiri hl. fjhn. hefir litið svo á þessa tilraun til þess að hvetja fjelögin til söfnunar í varasjóð eins og aðalefni og kost frv., þá liggur beint við að láta þetta óbreytt og hallast að frv. eins og það er, en í sjálfu sjer hlýtur afleiðingin af þessum frekari ívilnunum að verða sú, að þar sem gert er ráð fyrir, að með höfuðstól sje jafnan talinn varasjóður, þá verður hvötin ennþá ríkari til að draga úr skatti og færa hann niður á lægra skattaþrep, því að skatturinn fellur að sjálfsögðu niður, því stærri sem höfuðstóllinn er.

Sem sagt, jeg geri ráð fyrir því, að meiri hl. fjhn. hallist eindregið að frv eins og það liggur nú fyrir, þar sem það í öllum aðalatriðum er nú orðið eins og hann vildi hafa það.