06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

1. mál, fjárlög 1926

Jakob Möller:

Jeg á nokkrar brtt. á þskj. 290 við tekjuhlið frv. Það kann að þykja slettirekuskapur af einstökum þm. að koma með slíkar tillögur, þar sem það vitanlega er hlutverk hv. fjhn., en jeg hefi gert það vegna þeirra umræðna, sem fóru hjer fram við 2. umr. fjárlagafrv., til þess að sýna, að hægt er að hækka marga liðina. Jeg skal víkja að einstökum till. og sýna fram á, að óhætt er að hækka liðina um það, sem þessu nemur, og sjálfsagt eru fleiri tekjuliðir, sem óhætt er að hækka. Fyrsta tillagan gengur í þá átt að hækka áætlun tekjuskattsins um 50 þús. kr. Tekjuskatturinn nam 1922 1359 þús. kr., 1923 782 þús. kr., 1924 800 þús. kr. Að meðaltali verður þetta 980 þús. kr. Jeg veit ekki betur en að það sje föst venja, þegar tekjur eru áætlaðar, að taka meðaltal af útkomu umliðinna ára, og því er forsvaranlegt að gera það nú. Nú hefi jeg ekki farið hærra en 850 þús. Sú er ástæða til þess, að á þessum tíma hefir orðið breyting á tekjuskattslögunum, þannig að skatturinn er lægri af lágum tekjum seinni árin en það fyrsta. En jeg veit fyrir víst, að tekjuskatturinn 1925 af tekjum 1924 verður meiri en hæsta upphæðin þarna. Jeg þori að fullyrða, að hann verður ekki undir 11/2 miljón, og jeg hygg, að tekjuskatturinn 1926 af tekjum 1925 verði ekki langt þar fyrir neðan. Þarna er því vafalaust mikið svigrúm eftir, þótt hækkað sje um 50 þús. kr. Hinsvegar lít jeg svo á, að þennan lið beri altaf að áætla varlega, og getur komið sjer vel, að þessi liður fari fram úr áætlun og verði þannig sem einskonar varasjóður frá góðu ári til lakara árs.

Þá eru aukatekjurnar, sem jeg legg til, að verði hækkaðar um 25 þús. kr. 1922 voru þær 336 þús. kr., 1923 300 þús. kr. og 1924 400 þús. kr. Þetta verður að meðaltali 345 þús. kr. En nú ber þess að gæta, að í þessum tekjum kemur gengisviðaukinn til greina, sem sagt á gjöld samkv. 54. gr. aukatekjulaganna, og af þessu stafar það að nokkru leyti, hversu aukatekjurnar voru háar árið 1924. Þó að ekki muni miklu þarna á 345 þús. og 325 þús., er svigrúmið meira, þegar tekið er tillit til gengisviðaukans, því að hann náði ekki heldur til alls ársins 1924.

Þá legg jeg það til, að áfengistollurinn verði hækkaður um 50 þús. kr., úr 500 þús. kr. upp í 550 þús. kr. Hvað hann snertir er ekki hægt að miða við nema 2 ár, 1923 og 1924, en 1923 var tollurinn 499500 kr., og með gengisviðaukanum hefði hann numið 622 þús. kr., en síðara árið var hann 605 þús., en þá ber þess að gæta, að gengisviðauki er aðeins þrjá fjórðu hluta ársins. Þarna er því um 70 þús. kr. svigrúm að ræða frá því, sem jeg legg til. Ekki þarf að gera ráð fyrir, að innflutningur á þessari vörutegund minki, enda var hann svipaður þessi tvö ár.

Þá kemur tóbakstollurinn. Hann hefi jeg lagt til, að yrði hækkaður úr 450 þús. kr. upp í 475 þús. kr. Enda þótt jeg efist ekki um, að sú áætlun stæðist 1926, með tilliti til þess, að 1924 var tollurinn 525 þús. kr., þá ætla jeg að taka þessa tillögu aftur.

Næst kem jeg að kaffi- og sykurtollinum. Hann var 1922 886 þús. kr., en 1923 825 þús. kr. Meðaltal 856 þús. kr. Að viðbættum gengisviðauka verður þetta 1070 þús. kr. Hjer er því 100 þús. kr. svigrúm. 1924 var tollurinn 1050 þús. kr., en þá var gengisviðauki aðeins 3 ársfjórðunga. Jeg tel því óhætt að áætla 975 þús. kr. nú.

Loks kemur vörutollurinn. Hann var 1922 1316 þús. kr., en þar var innifalinn sjerstakur kola- og salttollur, sem nær til þess árs að nokkru leyti. Mætti því segja, að sú upphæð geti ekki talist sambærileg við núverandi ástand. 1923 var tollurinn 1051 þús. kr. Meðaltalið verður 1183 þús. kr., sem að viðbættum gengisviðauka verður 1480 þús. kr. Vegna þess hvað botnvörpuskipastóllinn hefir aukist, hefir vaxið afskaplega innflutningur á kolum og salti, en það vegur fullkomlega upp á móti því, sem kola- og salttollur inn var 1922, enda varð vörutollurinn 1924 1560 þús. kr., svo að áætlunin nú, 1400 þús. kr., virðist fullkomlega varleg, og það er augljóst, að forsvaranlegt væri að hækka þennan lið enn meira. Þessar tillögur. samtals, að frádregnum tóbakstollinum, hækka tekjuhliðina um 200 þús. kr. Mjer er ekkert kappsmál, að þessar tillögur verði samþyktar, því að jeg er í engum vafa um, að þó að þær verði ekki samþyktar nú, munu líkar tillögur verða bornar fram síðar og þá samþyktar. Og enginn vafi er á því, að þær standast.

Þá á jeg nokkrar brtt. við gjaldahliðina. Sú fyrsta er undir tölulið VIII á þskj. 290. Það er samskonar tillaga og jeg bar fram við 2. umr. fjárlagafrv., um að veita fje til byggingar landsspítala í Reykjavík, en aðeins 100 þús. kr., í stað 150 þús. kr., sem þá var felt. Þá lýsti jeg ástæðum fyrir þessari tillögu, og er óþarft að hafa það upp aftur nú, enda veit jeg, að hv. þdm. er ljós nauðsyn þessa máls. En það var samþykt ýmislegt það við 2. umr. fjárlagafrv., sem ekki er forsvaranlegt að láta ganga fyrir þessu, og því hika jeg ekki við að koma með tillöguna aftur, en hefi lækkað upphæðina. Þeirri lækkun er þannig varið, að með þessu fje má í raun og veru gera hið sama, sem til var ætlast með hinu. Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir, að fje verði látið úr landsspítalasjóði til byggingarinnar, og að sjóðurinn allur gangi smám saman til hennar. Nú er það orðið þannig í aths., að sjóðurinn skuli leggja svo mikið fje fram, að hægt sje nú þegar á þessu ári að byrja á byggingunni og halda henni áfram með fullum krafti. Það má einu gilda, ef fjeð á annað borð á að ganga til byggingarinnar, hvort það er tekið strax eða smám saman. Þegar búið er að byggja fyrir sjóðsfjeð og 100 þús. kr. úr ríkissjóði, er sjálfsagt að halda áfram, þar til byggingin er fullger.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta að þessu sinni, ekki fyr en jeg heyri undirtektir hv. nefndar og hæstv. stjórnar um málið og hvaða mótbárur kunna að koma fram gegn því.

Þá á jeg till. á sama þskj., undir tölulið XXIII og XXIV, um að hækka styrk til iðnskólans og verslunarskóla. Eins og kunnugt er, voru styrkir þessir lækkaðir í fyrra, meira vegna þess, hvað ástandið þótti ískyggilegt, en af því, að ekki væri þörf á hærri styrk. Að því er snertir iðnskólann, hefir forstöðumaður skólans gert grein fyrir því, að skólinn gæti ekki komist af með minna en 6600 kr. Þó að skólinn sje hjer í Reykjavík, er hann samt fyrir alt landið, þar sem hann eiga að sækja allir iðnnemar, sem stunda nám hjer, en mikill fjöldi þeirra er utan af landi, úr ýmsum hjeruðum. Þetta er því nauðsynjamál alls landsins, að hafa skólann sem fullkomnastan. Geti hann ekki haldið áfram að starfa, er ekki sjáanlegt, hvernig á að fullnægja þeim lögum, sem sett eru um þá fræðslu, sem hann veitir. Með þeirri lagasetningu hefir ríkið í raun og veru skyldað sig til að halda skólanum uppi. Um verslunarskólana er það sama að segja. Þeir eru ekki sjerstaklega fyrir Reykjavíkurbæ, heldur fyrir alt landið. Jeg þekki það sjerstaklega um verslunarskólann, að ekki er hægt að segja, að þetta sje mikill styrkur, þegar tekið er tillit til þess starfs, sem hann hefir unnið.

Þá er loks brtt. á sama þskj., undir tölulið XLVII, um að veita Þorvaldi Egilson 1500 kr. styrk til þess að kynna sjer hænsnarækt til fullnustu. Hann hefir í 2 ár kynt sjer hænsnarækt í Danmörku á eigin spýtur og hefir unnið þar kauplaust sem lærlingur. En nú vill hann ferðast um og kynna sjer hænsnarækt víðar en í Danmörku, til þess að fá sem fullkomnasta þekkingu á starfinu. Hann hefir bestu meðmæli þeirra manna, sem hann hefir unnið hjá, og mikinn áhuga fyrir þessu starfi. Það er enginn vafi á því, að ef hænsnarækt er rekin skynsamlega og eins og vera ber, er það allmikill tekjuliður fyrir þjóðina. Danir flytja t. d. út egg fyrir miljónir króna. Eins og kunnugt er, hafa verið gerðar tilraunir til að byrja hjer hænsnarækt í stórum stíl, en þær hafa farið út um þúfur, af því að menn hafa ekki haft næga þekkingu á þessu sviði. Hinsvegar sýnir reynsla einstakra manna, sem rekið hafa hænsnarækt í smáum stíl, að hjer má vel, með góðum hagnaði, reka hana í stórum stíl.

Þá á jeg ekki fleiri brtt. sjálfur, en vil minnast á örfáar aðrar.

Fyrst er þá tillaga hv. fjvn. á þskj. 290, VI,4.a–b, um að veita læknunum Skúla Guðjónssyni og Valtý Albertssyni styrk til að halda áfram námi. Jeg þekki þessa menn báða nokkuð og hefi kynst starfi þess fyrnefnda og lít svo á, að það sje mjög þýðingarmikið fyrir landið, og ekki síst háskólann, að hann geti haldið áfram þessu námi.

Það er beinlínis þýðingarmikið atriði fyrir læknisvísindin og læknamentun í landinu, að þessar greinir læknisfræðinnar verði kendar hjer við háskólann af sjerfræðingum, en til þess að það geti orðið., er nauðsynlegt að styrkja þessa menn til framhaldsnáms, er hjer ræðir um. Jeg veit um þann fyrnefnda (Skúla Guðjónsson), að hann að afloknu námi í Kaupmannahöfn á þar kost á sæmilegri stöðu við þessi störf. Það má að vísu segja, að vegna þess styrks, sem hann hefir notið hingað til til þessa náms, sje hann skuldbundinn landinu og eigi þess vegna að hverfa hingað heim aftur, en þá verður á það að líta, að námið komi honum að fullu gagni, en það verður ekki, ef hann fær ekki þann styrk, sem hann þarf með til að geta lært þetta til hlítar; en mjer er kunnugt, að hann gengur að þessu námi með alúð og er fjarri skapi að láta úr því verða kák eitt, og hefir mikinn áhuga á því að geta orðið nýtur maður þjóð sinni á þessu sviði. Um Valtý Albertsson er það að segja, að hann fór utan á sjálfs sín kostnað til að fullkomna sig í læknisfræðinni, og gerði hann það af áhuga þeim, sem hann hefir á þeim fræðum. Það er yfir höfuð gleðilegt, er ungir menn sýna þann áhuga að leggja út í efnalega tvísýnu til að framkvæma áhugamál sín, en styrkur sá, sem hjer er farið fram á, að honum verði veittur, er svo lítill, að honum nægir hann alls ekki, og verður hann því að greiða sjálfur mestan hluta kostnaðarins við nám sitt. Háskóli okkar þarfnast við og við nýrra manna, er hinir eldri falla frá, en það er allseint að fara þá fyrst að hugsa um að útvega nýja menn, er þeir gömlu eru allir dauðir; en ef það verður efst á teningunum að hugsa ekkert um þetta fyr en allir eldri mennirnir eru fallnir frá, þá hlýtur það að fara svo, að háskólann vanti hreint og beint hæfa starfskrafta, sem yrði til stórhnekkis þessari einu mentastofnun okkar, sem talist getur vísindastofnun, og það vænti jeg þó, að ekki sje tilgangurinn.

Þá var það brtt. XX á þskj. 290, frá minni hl. fjvn. Jeg greiði þeirri brtt. atkvæði með mikilli ánægju, því þar er um að ræða fyrirtæki, sem öllum landsmönnum er í hag að hlynna að. Því fje, sem fer til þess að hlynna að hinum ungu mönnum, sem stunda nám við háskólann okkar, er vel varið. Og ef við komum hjer upp stúdentagarði, sparast aðstandendum stúdentanna, sem kosta þá til náms, mikið fje, og er því þessari fjárveitingu vel varið, verði hún samþykt. Hjer er ekki verið að ræða um að styrkja neina einstaka menn, heldur kemur þetta allri þjóðinni að jöfnum notum. Það er í þágu alls almennings að hlúa sem best að þessum ungu mentamönnum.

Þá eru það ekki fleiri einstakar brtt., sem jeg ætla að gera að umtalsefni að þessu sinni; aðeins vil jeg sjerstaklega minnast nokkrum orðum á þær brtt. hv. fjvn., sem miða að nafnabreytingum á mönnum og sem jeg felli mig afarilla við. Jeg furða mig hreint og beint á því, að háttv. fjvn. skuli hafa komið fram með slíkar till., því hjer er blátt áfram ekki farið fram á annað en að brjóta gildandi lög í landinu. Ef fjárveitingar eru veittar á nöfn manna og ef þessi óvenja yrði samþykt, sje jeg ekki, hvernig menn eigi að geta gefið löglegar kvittanir fyrir þessum greiðslum. Jeg veit nefnilega ekki betur en að það sje skylda að lögum að rita ávalt nafn sitt eins í öllum viðskiftum manna á meðal, og þá einnig þegar um er að ræða greiðslur í eða úr ríkissjóði. Menn verða tvímælalaust ávalt að rita nöfn sín á sama hátt í öllum viðskiftum, og þá verður vafasamt, hvort þeir menn, sem nú er veitt fje í fjárlögunum, geta fengið það greitt. Áður en þetta yrði sett í fjárlög, hefði þurft að láta mennina skifta um nöfn, og er hjer því byrjað á alveg öfugum enda, er menn eru uppnefndir í fjárlögunum.

Um aðrar hliðar þessa máls sje jeg ekki, að ástæða sje til að ræða í þetta sinn, enda verður það ef til vill gert síðar; en mjer finst, að háttv. fjvn. hefði átt að fresta því að bera fram þessar nafnabrtt. sínar til síðari umr. um fjárlagafrv., ef þá væri sjeð fyrir um afdrif nafnafrv. þess, er nú liggur fyrir þessu þingi. Hefði það frumvarp verið orðið að lögum, þá hefði verið hægt að rjettlæta þessar brtt. fjvn. að einhverju leyti. (MG: Þetta fer talsvert miklu lengra en nafnafrumvarpið). Það er satt, nafnafrv. mundi ekki hrökkva til til þess að heimila þetta, en þó mætti segja, að þessar breytingar væru þá samkvæmt anda gildandi laga, þó að enginn beinn lagabókstafur sje að heldur fyrir þessum breytingum.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þessi atriði, og jeg held, að rjettast væri að gera skjótan endi og á einn veg á öllum þessum nafnabrtt. fjvn., — það er að sálga þeim.