06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

1. mál, fjárlög 1926

Árni Jónsson:

Jeg á litla brtt. á þskj. 299 við brtt. á þskj. 29O,XLVIII, um styrk til Lúðvíks Jónssonar, að hann verði hækkaður úr 3000 kr. upp í 5000 kr. Það er um þennan mann að segja, að hann mun vera betur mentaður í búnaðarfræðum en nokkur annar búfræðingur á landinu. Hann tók fyrst búfræðipróf frá Eiðaskóla, en hefir síðan framast erlendis, og hefir hann tekið próf bæði við búnaðarháskólann í Kaupmannahöfn og í Edinborg. Eftir að hann kom heim, að afloknu námi erlendis, var hann fyrst í þjónustu Búnaðarfjelags Íslands um nokkur ár, en nú síðustu árin hefir hann starfað fyrir Búnaðarfjelag Austurlands. Það, sem hann sjerstaklega hefir lagt stund á hin síðari árin, hafa verið endurbætur á íslenskum jarðyrkjuverkfærum. Hefir hann ritað um þessi efni í blöðin og látið uppi skoðun sína á þeim verkfærum, sem við höfum notað. Hann hefir síðan fengist við að finna upp ný og betri verkfæri við okkar hæfi og hefir tekist það og hlotið fyrir lof margra manna, sem skyn bera á þá hluti. Hann hefir eytt miklu af starfskröftum sínum til þessa og telur hann sig hafa tapað talsverðu fje við það að geta ekki lagt stund á annað á meðan. Í blaðinu Verði hafa birst greinar eftir hann um þessi efni, og vísa jeg til þeirra. Eitt af þeim nýju verkfærum, sem hann hefir fundið upp, er einskonar herfi, sem bæði herfar jörðina og plægir í senn. Verkfæri þetta hefir reynst vel; aðeins hefir honum ekki tekist að gera það nógu sterkt. Hann sækir um styrkinn í því skyni að fara til útlanda og fá verkfæri þetta svo endurbætt, að að fullum notum komi.

Mjer finst því ekki nema sanngjarnt að veita manni þessum 5000 kr. styrk. Má búast við, að hann þurfi að dvelja lengi erlendis, og auk þess hefir hann þegar kostað miklu til uppgötvana sinna. Mjer finst, að við höfum ekki ráð á að slá höndinni á móti slíkum verklegum endurbótum. Staðhættir hjer eru svo ólíkir því, sem erlendis er, að sömu tæki verða vart notuð óbreytt. Jeg veit, að austanlands er þegar mikill áhugi vaknaður fyrir þeim endurbótum, er þessi maður hefir gert, og að öllu athuguðu treysti jeg því, að hv. deild taki vel í styrkveitingu þessa.