06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á hjer tvær litlar brtt., og vildi jeg segja nokkur orð til skýringar þeim, enda þótt jeg tæki flest fram við 2. umr., er með þurfti þeim til skýringar.

Jeg sje, að hv. fjvn. hefir ekki getað fallist á till. um að veita 2000 kr. til sundlaugarbyggingar á Reykjanesi, en vill hinsvegar veita 1000 kr. í einu lagi í þeim tilgangi, og greiðist af þeirri upphæð 1/5 kostnaðar við byggingu slíkra lauga.

Með þessu álít jeg, að hv. fjvn. hafi enga úrlausn gert minni umsókn. Eftir síðustu símskeytum frá bæjarfógetanum á Ísafirði er áætlaður kostnaður við laugarbygginguna 9–10 þús. kr. Þetta er eina laugarbyggingin, sem nokkuð hefir verið undirbúin, og var því fullkomin ástæða til að láta þessa fjárveitingu ganga fyrir öðrum. Mjer skildist á hv. frsm. síðari kaflans (TrÞ), að þessi styrkur væri ætlaður sundlaugum annarstaðar en á Reykjanesi. Hvað sem því líður, trúi jeg því varlega, að hægt sje að byggja steinsteyptar sundlaugar með sundskála fyrir 5000 kr., og er þessi fjárveiting því gersamlega ófullnægjandi og gerð aðeins til að sýnast.

Nú er einmitt borið fram frv. í Ed., sem fer í þá átt að heimila hjeraðsstjórnum að skylda unglinga til sundnáms. Jeg vona því, að háttv. deild taki betur í mál mitt heldur en hv. fjvn. hefir gert. Jeg sje lítið samræmi í því að veita 5000 kr. til sundlaugarbyggingar á einum stað, þar sem málið er með öllu óundirbúið, en neita hinsvegar um þessa upphæð á öðrum stað, þar sem nauðsynin er meiri og alt vel undirbúið. Nú hefi jeg fært till. mína niður í 1850 kr. og vona, að sú upphæð finni náð hjá hv. þdm.

Þá á jeg aðra brtt., er fer fram á styrk til gistingar á Arngerðareyri. Hv. frsm. (TrÞ) sagði, að minni ástæða væri til að veita styrk þennan þar heldur en undir heiði. Jeg býst við, að þeir, sem kunnugir eru á báðum stöðum, sjeu ekki á sama máli og hv. frsm. Maður, sem oft hefir ferðast kringum land og yfir land í verslunarerindum (endurskoðun), hefir látið svo um mælt, að hvergi væri meiri þörf á styrk til hýsingar en á Arngerðareyri. Jeg vona því, að háttv. deild sjái fram á nauðsyn þessarar fjárveitingar, sem jeg hefi nú fært niður um þriðjung.

Jeg get verið þakklátur hv. fjvn. fyrir að hafa orðið við óskum íbúa Hólshrepps um að leggja til, að þeim verði gefið eftir viðlagasjóðslán frá 1914, að upphæð 16 þús. kr. Að vísu voru þau gögn lögð fram í málinu, að vart var hægt að skorast undan eftirgjöfinni; get jeg því sparað tíma hv. þdm. og slept frekari umræðum um málið.

Þá vil jeg minnast lítið eitt á fáeinar brtt. Vík jeg þá að brtt. á þskj. 290, frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), um að hækka áætlun tekju- og eignarskatts upp í 850 þús. kr. Ef engin breyting er gerð á núgildandi tekjuskattslögum, er þessi upphæð of hátt áætlun eins og hún er, þótt ekki sje hún hækkuð. Eins og kunnugt er, eru það útgerðarmenn og þeir, sem taka föst laun, sem borga mestan hluta skatts þessa. Tekjuskattur stærri útgerðarinnar verður mjög hár fyrir árið 1924 og útsvörin eru líka há. Þessar upphæðir koma til frádráttar skattskyldum tekjum yfirstandandi árs, og er því full ástæða til að ætla, að lítill eða enginn skattur fáist hjá þessum gjaldendum á árinu 1926. Auk þess eru horfur sjávarútvegsins hvergi nærri glæsilegar nú sem stendur. Fiskverð fer lækkandi, en útgerðarkostnaður eykst. Kaupgjald hefir hækkað um 10–15% frá í fyrra, og ýmislegt, er til útgerðar þarf, svo sem stálvír og hampur o. fl., hefir hækkað um 30%. Jeg tel því alveg óverjandi að áætla þessar tekjur hærri en gert var eftir 2. umr.

Þá er það ein af nafnbreytingatillögum fjvn. að breyta nafni Ísafjarðar og nefna Skutilsfjarðareyri. Fram til 1860 hefir kaupstaðurinn ef til vill verið nefndur Eyri við Skutilsfjörð, en aldrei hinu nafninu. Jeg hygg ennfremur, að það tíðkist hvergi að breyta nöfnum bygðarlaga án þess að leita samþykkis íbúanna. (TrÞ: Hvað var gert í Kristjaníu? — Fjrh. JÞ: Nafnbreytingin var þar samþykt af bæjarstjórn). Ef slíkar nafnbreytingar eiga fram að ganga, verður að ákveða þær með sjerstökum lögum. En sem íbúi Ísafjarðarkaupstaðar vil jeg mótmæla, að þetta sje gert með einfaldri breytingu í fjárlögum.

Þá vil jeg víkja að þeirri brtt. fjvn., þar sem farið er fram á, að ríkisstjórnin sjái um, að stjórn Landsbankans gefi eftir ákveðna veðdeildarlánsgreiðslu. Upphæðin er að vísu ekki há, en mjer finst óviðkunnanlegt og óviðeigandi að skipa Landsbankastjórninni á þennan hátt að gefa eftir veðdeildargreiðslur, án þess að eftirgjöf komi þá einnig annarsstaðar frá.

Það sjest ekki, hvort Landsbankinn eða veðdeildin eigi að verða af með þetta fje.

Jeg tel vafasamt, að hægt sje að skipa fyrir um eftirgjöf á kröfum veðdeildarinnar; held því óhikað fram sem minni skoðun, að það sje gagnstætt lögum. Því að þeir, sem hafa keypt veðdeildarbrjef, hafa að sjálfsögðu bygt á því, að veðdeildin hjeldi öllum þeim rjettindum, sem áskilin eru í lögum fyrir hina ýmsu flokka.