09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2337 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

84. mál, aflaskýrslur

Ágúst Flygenring:

Þar sem frsm. þessa máls er ekki viðstaddur, vil jeg leyfa mjer að láta fylgja því nokkur orð.

Frv. þetta er komið frá Fiskifjelagi Íslands. Það hefir undanfarin ár safnað aflaskýrslum, en kvartað undan, að oft hafi verið mjög erfitt að ná skýrslunum, því að svo er ástatt hjer, að margir af útgerðarmönnum eru kaupmenn líka, og verka því afla sinn og selja sjálfir. Um hann er því mjög vont að fá skýrslur. Er því hjer um alt aðra aðstöðu að ræöa en t. d. í Noregi og fleiri löndum, þar sem fiskurinn er seldur nýr eftir tölu eða vigt strax og honum er lent.

Þessi skýrsluvöntun getur oft valdið miklum óþægindum, þó ekki sje nema t. d. hviksögur um svo og svo mikinn afla, sem oft myndast í veiðistöðum. En hvik sögur þessar eiga oft sinn þátt í verðfalli eða snöggum óeðlilegum hreyfingum í verðinu. En óvissan veldur altaf óeðlilegri varfærni stærri kaupenda í útlöndum. Sökum hinnar sjerstöku aðstöðu okkar geta þessar skýrslur ekki orðið nákvæmar, en þó bætt úr því, sem nú er. Nákvæmar geta þær ekki orðið fyr en farið er að telja eða vega allan afla, en því er ekki hægt að koma við að öllu leyti ennþá, og verður máske aldrei. Skýrslurnar verða því að byggjast á, sem nákvæmustum athugunum á hverjum stað, þar sem ekki er hægt að telja, eins og t. d. á botnvörpuskipunum, því að það er miklu hægara að áætla aflann, þegar hann er kominn í land af þeim og hefir staðið dálítið, heldur en gera það alveg jafnóðum og honum er lent. En af öllum bátum, sem lenda daglega með aflann, er auðvelt að áætla þyngdina, því þar er aflinn talinn. Annars verður reynt að haga þessu eftir því, sem reynslan sýnir, að hentast muni verða.

Jeg býst nú við, að allir hv. þm. sjeu sammála Fiskifjelaginu um, að skýrslur þessar sjeu til mikilla bóta, og lofi því frv. þessu að ganga fram. En til nefndar sje jeg ekki ástæðu til að láta það fara nú, þar sem það er flutt af nefnd. En vel má vera, að nefndin taki upp einhverjar breytingar við það fyrir næstu umræðu, þegar hún hefir borið sig betur saman við Fiskifjelagið og athugað frumvarpið nákvæmar.