28.03.1925
Efri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

84. mál, aflaskýrslur

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er komið frá hv. Nd. Þar var það flutt af sjútvn. eftir ósk Fiskifjelags íslands og samið af því. Hv. Nd. gerði á því tvær breytingar, en annars var það samþykt fyrirstöðulaust. Eins og kunnugt er, hefir verið allmikið sleifarlag á um aflaskýrslur. Þær hafa ekki til skamms tíma verið til nema þær, sem lögreglustjórar söfnuðu um áramót, og vanalega var nokkuð liðið á árið, þegar þær komu til hagstofunnar, og komu því að litlum notum. Nú er nokkuð síðan Fiskifjelag Íslands tók málið í sínar hendur og beitti sjer fyrir því, að betra skipulag kæmist á. Síðasta ár hefir það gengist fyrir skýrslusöfnun með góðum árangri. En Fiskifjelaginu hefir verið ljóst, að ef aflaskýrslur ættu að vera fullkomnar og koma að til ætluðum notum, væri óhjákvæmilegt að lögbjóða skýrslusamningu, það er að segja, að skýlda alla, sem útveg stunda, til þess að gefa aflaskýrslur. Það má kannske segja um ýms ákvæði frv., að þannig sje nokkuð mikið lagt á vald Fiskifjelags Íslands, hvernig aflaskýrslusöfnuninni skuli hagað. En fjelagið lítur svo á, að þetta sje óhjákvæmilegt. Staðhættir eru breytilegir og veiðistöðvar dreifðar og maigar afskektar, og því hætt við, að ekki verði gott að setja strangar reglur viðvíkjandi aflaskýrslum, nema gefa Fiskifjelaginu sem mest vald í því.

Jeg tel ekki hægt að þrengja meir fyrirmæli um þetta. Að vísu eru í 8. gr. viðurlög, ef vanrækt er að gefa skýrslu. Þetta ákvæði getur í fljótu bragði virst dálítið varhugavert, en jeg treysti því fyllilega, að Fiskifjelagið beiti því ekki nema í ítrustu nauðsyn. Víða hagar svo til, að ef þessu væri stranglega beitt, gæti það valdið fjártjóni. Jeg veit til þess víða á Austurlandi, að veiðistöðvar eru slitnar úr öllu sambandi við nágrannastöðvar, nema að því leyti, að sambönd eru milli þeirra á sjó, og þá aðeins á smábátum Svo er t. d. um Vaðlavík og Sandvík sitt hvoru megin við Gerpi, sem hvortveggja eru allgóðar veiðistöðvar. Það kæmi ekki til nokkurra mála að beita dagsektum, þó að drægist að koma skýrslum úr þessum veiðistöðvum vikulega til erindreka Fiskifjelagsins, sem nú er á Seyðisfirði. Enda er jeg viss um, að fjelagið mun athuga alla. staðhætti og hvernig stendur á drætti á skilum. Því sje jeg ekki ástæðu til að draga úr þessu ákvæði, þar sem jeg treysti því, að því verði aðeins beitt, þegar um beina vanrækslu er að ræða. En jeg taldi rjett að láta það koma fram í umr. hjer á Alþingi, til þess að Fiskifjelagið vissi, hvað fyrir okkur vakir.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Nefndin leggur eindregið til, að frv. fái að ganga fram óbreytt, og komi í ljós einhverjir ágallar á frv. í framtíðinni, sem vel getur orðið, verður sennilega auðvelt að bæta lár þeim eftir tillögum Fiskifjelagsins, sem er dómhæfasti aðilinn í þessu máli.