23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

103. mál, veiting ríkisborgararéttar til séra Friðriks Hallgrímsssonar

Klemens Jónsson:

Jeg tek það fram, að jeg er ekki sammála hæstv. forsrh. (JM) um þessi formsatriði, er hann heldur fram. Mjer geðjast vel að aðferð hv. allshn. í þessu máli, og sýnir hún, að nefndin að athuguðu máli hefir einmitt tekið þann manninn út úr, sem sjálfsagðastur var. Með þessu móti finst mjer betri trygging fyrir því, að hjer sje ekki rasað um ráð fram. Það hafa mjög fáir menn fengið þennan rjett ennþá, enda sje jeg engan gróða í því fyrir okkur Íslendinga að veita hinum og þessum útlending ríkisborgararjett, sem ef til vill aðeins notar hann sem skálkaskjól til atvinnurekstrar í landinu og skýst hingað um 2 mánaða skeið að sumrinu, eins og kunnugt er um marga Norðmenn fyrir norðan.

Jeg er á því, að stjórnin eigi að hafa frumkvæði í þessu efni, en hún á líka sannarlega að rannsaka slík mál vel áður en hún leggur þau fyrir þingið. Þó vil jeg geta þess, að eitt sinn hefir erlendum manni verið veittur ríkisborgararjettur eftir frv., sem þm. bar fram, og er mjög hæpið, að sú beiðni hafi verið nægilega athuguð.

Það er sannarlega ástæðulaust að hrapa mjög að því að veita allra handa aðskotadýrum ríkisborgararjett, og því síður að gera það að lítt rannsökuöu máli. Mjer er kunnugt um, að margir sækjast eftir þessum fríðindum af miklu kappi, enda gat hæstv. forsrh. (JM) þess, að fleiri beiðnir lægju fyrir, en einhverjum þm. hafa borist brjef að norðan í þessu efni, að veita fleiri mönnum þessi rjettindi.

Þess vegna er jeg á því, að hv. allshn. hafi gert rjett í þessu efni, að taka einn og einn út úr frv. stjórnarinnar eftir að hún hefir sannfærst um, að næg rök sjeu fyrir hendi og viðkomandi eigi það skilið eða hafi til þess unnið, að Alþingi veiti honum þennan rjett.