07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, fjárlög 1926

Magnús Torfason:

Jeg á hjer á þskj. 299 brtt. við brtt. hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) á þskj. 290,XLIIII, sem fer fram á styrk til lendingarbóta í Grindavík. Brtt. mín fer fram á að auka nokkuð útgjöld þessa liðs, til þess að verja til varnargarða og lendingarbóta í Árnessýslu. Eins og við vitum allir, urðu miklir skaðar nýlega þarna fyrir austan af sjávarflóðum. Hefir tjónið í Stokkseyrarhreppi, Eyrarbakkahreppi og Selvogshreppi verið metið á 55 þús. kr. En margt er enn ómetið, sem sjálfsagt skiftir tugum þúsunda. Þetta er vitanlega óviðráðanlegur skaði fyrir hjeraðið og alveg óvenjulegur. Það er víst, að annar eins sjógangur hefir ekki komið þar í síðustu 130 ár.

Nú hefir það verið venja hjer á landi, þegar hjeruð verða fyrir miklum skakkaföllum af völdum náttúrunnar, að hið opinbera hefir sýnt einhvern lit á að taka þátt í skaðanum. Fram á þetta er farið hjer, og jeg skal þegar taka það fram, að jeg kom með þessa brtt. sökum þess, að jeg leit svo á, að Árnessýsla ætti eins mikinn rjett til að fá þátttöku ríkisins eins og Grindavík. Og því fremur er ástæða til þess að bæta eitthvað sjávarskaða í Árnessýslu, þar sem fyrir skaðanum hafa orðið opinber fyrirtæki. Það hefur fyrir löngu verið stofnað til sandgræðslu á svæðinu frá Eyrarbaaka til Óseyrarness, sem hreppurinn á að nokkru og kaupfjelagið Hekla að nokkru. Sandgrœðslan hefir gengið mjög vel; var svæði þetta vel gróið orðið, og sumstaðar eru menn jafnvel farnir að taka bletti til ræktunar við kauptúnið. Hefir kaupfjelagið látið landið með mjög góðum kjörum, fyrir ekki neitt fyrstu 10 árin, en síðan með 10 kr. árgjaldi fyrir hverja dagsláttu eða svo. Eins og menn sjá, ætlar kaupfjelagið ekki að gera þetta að fjárspursmáli fyrir sig, heldur vill það hjálpa mönnum til að græða landið og leigja það fyrir sama og ekkert.

Verði ekki reynt að bæta úr skemdum þessum, er það vitanlegt, að sandgræðslan hlýtur að leggjast niður, því hún hefir einmitt verið gerð í skjóli sjógarðann í, er þarna voru.

Þá þarf ekki nema frá því að segja, að hið opinbera á nokkra sök á, hvernig þarna er komið. Sjógarður, sem þorpsbúar gerðu sjálfir, hefir staðist vel þessi sjóflóð og mjög lítið skemst. En þegar garðurinn var gerður fyrir sandgræðsluna, var ákveðið að hafa hann veigaminni og grjótið miklu smærra. Og það hefir komið fram, sem Guðmundur Ísleifsson á Háeyri hafði bent á, að garðurinn væri of veigalítill. Þess vegna á hið opinbera sök á þessu og því er skylt að skerast í leikinn. Ennfremur er þess að geta, að leiðin frá Eyrarbakka austur á Stokkseyri er sýsluvegur, sem hefir orðið fyrir þeim áföllum, að sýslubúar urðu að borga þegar í vetur 500 kr. til þess aðeins að gera hann færan. En það sýnist þýðingarlítið að reyna að halda þeim vegi færum, nema því aðeins, að garðurinn á því svæði sje settur í samt lag aftur. Þarna liggur mjög sterk ástæða fyrir því, að þingið eigi að taka þátt í þessum sköðum.

Þá hefi jeg verið meðflutningsmaður að annari brtt., um að hækka styrk til bryggjugerðar úr 15 þús. kr. upp í 20 þús. kr. Þingið hefir ætíð tekið vel í það að bæta hafnir og lendingar, og jeg verð að segja, að mjer finst það ekki mega minna vera en 2 tugir þúsunda, sem varið er alls og alls til slíks á ári. Geta má þess, að þessi 5 þús. kr. hækkun er aðeins hluti úr eldri fjárveitingu. 1923 voru 10 þús. kr. veittar til bryggju á Eyrarbakka og 8 þús. kr. til lendingarbóta á Stokkseyri. Hvað bryggjuna snertir, þá er þegar búið að draga að alt grjót, sem þarf til hennar, svo menn eru viðbúnir að byrja á því verki þegar á næsta sumri. Það er vert að taka það með í reikninginn, að bryggja þessi er ekki eingöngu nauðsynleg lendingarbót, en hefir einnig þá þýðing að bæta vörugæði saltfisksins, sem vill annars verða sandborinn. En eins og við vitum, þá eru lög sett um það að vanda þessa vöru; svo að með því að veita styrk til þessa er ekki annað gert en að fullnægja þeim lagafyrirmælum, sem til eru um það efni. Það er því nær sjálfsögð skylda fyrir þingið að gera þetta.

Hvað snertir lendingarbót á Stokkseyri, þá hefir til hennar verið varið alls 55 þús. kr. frá því um aldamótin. Upp í þetta hafa þeir fengið aðeins 13 þús. kr. úr ríkissjóði; ekki 1/4 hvað þá 1/3, eins og venjulegt er að veita. Síðast 1923 gerðu þeir við þessa lendingarbót fyrir 7 þús. kr. og fengu rúmlega 2 þús. kr. styrk. Nú vilja þeir halda áfram þessu verki og hafa þegar 1924 gert talsverða lendingarbót og engan styrk fengið til. Það er því sýnt, að þeir vilja hjálpa sjer sjálfir í þessu efni og að þeir eru fullkomlega styrks verðir. Annars álít jeg rjett að taka það fram, að þessi lendingarbót er gerð meðfram til þess að bjarga mannslífum. Eins og stendur er ekki hægt að komast inn á leguna á Stokkseyri nema þegar er hálffallinn sjór. Kom eitt sinn fyrir, að bátur með 6 mönnum fórst af þessum ástæðum; og eftir það tóku menn það ráð að reyna að dýpka álinn með því að sprengja sker við lendinguna.

Hv. samþm. minn (JörB) hefir flutt till. um það, að ríkið kaupi nokkuð af húsum á prestssetrinu Torfastöðum í Biskupstungum. Jeg skal aðeins leyfa mjer að undirstrika þessa hans till. Það er þá frá því að segja, að húsakynni þarna hafa verið afarvond og óholl í alla staði. Það er enginn vafi á, að presturinn hefir fyrir þessa sök mist fósturson sinn; sonur hans er nú dauðvona og kona hans og dóttir eru skemdar á heilsu vegna húsakynna. Það var því óumflýjanlegt fyrir prestinn að ráðast í að byggja í dýrtíðinni, þótt hann hefði alls engin efni á því. Svo mætti kannske virðast eftir till., að kaupa skyldi öll hús af presti, en það er ekki meining okkar flm., heldur það, sem hæfilegt þætti fyrir jörðina. Og jeg vænti þess, að það verði litið svo á, að það minna felist þarna í því meira.

Hvað snertir húsakynni á prestssetrum að öðru leyti, verð jeg að líta svo á, að það sje miklu rjettara að láta fjárfúlgu fylgja prestssetrunum, en ekki láta ríkið eiga einstök hús. Húsakynni eru sem óðast að breytast, og jeg hygg það ekki holt, að ríkið eigi hús í vissu formi, heldur vissa fjárfúlgu.

Jeg vil ekki láta það liggja í láginni, að þessi prestur hefir bætt staðinn feikimikið, bygt allmikið af öðrum húsum en íbúðarhúsum, stórkostlega bætt túnið og girt það; einnig girt nokkuð af engjum. Hefi jeg ekki sjeð öllu meiri stakkaskifti á prestssetri á 20 árum en þarna urðu milli þess er jeg kom þangað. Áður var túnið nær alt þýft, þar sem nú er alt aðaltúnið sljett. Presturinn hefir því lagt. mikið fje í að endurbæta jörðina, sem svo aðrir njóta síðar.

Annars vil jeg að síðustu benda á það, að hjer er ekki um bein fjárútlát eða neina fjáreyðslu að ræða, þar sem húsin auðvitað verða eign ríkisins.