23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

103. mál, veiting ríkisborgararéttar til séra Friðriks Hallgrímsssonar

Frsm. (Árni Jónsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður. Hjer eru ekki nein mótmæli gegn frv. á ferðinni, heldur aðeins fundið að aðferð allshn. í þessu máli. Oss nefndarmönnum fanst málið horfa alveg sjerstaklega við að því er snertir þennan mann, sem hjer er um að ræða. Hann er fyrst og fremst Íslendingur í húð og hár, og auk þess stendur svo á, að ekki má veita honum embætti það, sem hann hefir verið kosinn til, nema hann verði íslenskur ríkisborgari. Hitt er að sjálfsögðu miklu athugaverðara, hvort veita eigi ríkisborgararjett öllum þeim útlendingum, sem stjórnin hefir borið upp í frv. sínu, einkum þar sem vjer sumir ef til vill höfum önnur og meiri persónuleg kynni af þessum mönnum heldur en er að græða á meðmælum þeim, er umsóknum þeirra fylgja. Má vera, að vjer berum og fleiri menn upp af þeim, sem til eru teknir í stjfrv., og þá í samráði við hæstv. forsrh. (JM). Verður þá eflaust borið fram eitt frv. um þá alla. Þó er mjer kunnugt um, að á þingi 1921 var tveim mönnum veittur ríkisborgararjettur eftir tveim frv. Annars er það um þessa menn að segja, er nú æskja ríkisborgararjettar hjer, að sumir þeirra a. m. k. uppfylla ekki þau skilyrði, sem gerð eru. Um einn þeirra veit jeg, að hann getur alls ekki mælt íslenska tungu, og um annan veit jeg, að hann mun að vísu tala íslensku, en hefir ekki dvalið hjer nógu lengi. Því held jeg, að sú aðferð, sem nefndin hefir fylgt og hv. 2. þm. Rang. (KIJ) talaði um, að athuga hvern einstakan fyrir sig, sje einmitt heppileg.