07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

1. mál, fjárlög 1926

Magnús Jónsson:

Það bregður svo undarlega við, að jeg á hjer eina brtt. á þskj. 303. Jeg hefi annars setið algerlega hjá öllum þeim sæg brtt. — eitthvað á 3. hundrað —, sem hafa komið fram við fjárlagafrv., og ekkert lagt til í þær mörghundruð blaðsíður í væntanlegum þingtíðindum þessa þings, setið algerlega hjá því mikla og dýrmæta fræðslustarfi í fjármálaspeki, sem hv. þm. hafa unnið fyrir þjóðina.

till., sem jeg ber fram, fer ekki heldur fram á aukin útgjöld ríkissjóðs að neinu leyti. Jeg hefi vanalega ekki verið talinn með þeim, sem taldir eru mestir sparnaðarmenn hjer á þingi, — heldur í hina áttina, — en jeg held, að jeg hafi við meðferð fjárlaganna í þetta skifti verið mesti sparnaðarmaðurinn. Það er nokkuð mikill misskilningur að miða sparnað eða ekki sparnað við það, hvað menn eru með mörgum till. um útgjöld. Það yrði áreiðanlega besti sparnaðurinn að því, að hv. þm. gengju í dálítið bindindi hvað snertir að bera fram till. Þegar hv. þm. bera fram legíó af brtt., er það auðvitað, og ekki nema eðlilegt, að svo og svo mikið af þeim kemst fram, hversu miklir sparnaðarmenn, sem eiga í hlut. Jeg hefi ekki að þessu leyti átt þátt í þeim hækkunum, sem á þennan hátt komast inn á fjárlögin nú í ár. Jeg ætlaði sem sagt alveg að leiða hjá mjer að leggja nokkuð til þessara umr., en nokkrar brtt. hv. fjvn. hafa komið mjer af stað. sjerstaklega þær, sem lúta að hinu mikla málhreinsunarstarfi, sem hv. nefnd hefir tekið sjer fyrir hendur. Á jeg hjer við allar nafnabreytingarnar og svigana, eða öllu heldur svigurmælin, sem hv. nefnd vill koma inn í fjárlögin. Jeg hafði jafnvel hugsað mjer að halda dómadagsræðu yfir hv. nefnd út af þessu tiltæki hennar, en skal hætta við það að sinni og hafa það heldur eins og Njáll, að láta segja mjer það þrem sinnum áður en jeg trúi því, að hv. nefnd standi öll og óskift að þessum ófögnuði. Að vísu er engin ástæða til að rengja hv. frsm. síðari kaflans (TrÞ) í þessu efni, en fordæmið er gott: að láta segja sjer þrisvar, áður en maður leggur trúnað á svo ólíklega hluti.

Frá fyrstu tíð hefir þessi nefnd verið álitin virðulegasta nefnd þingsins. Hefir altaf þótt vegsauki mikill að því að eiga sæti í þessari nefnd, sem áður hjet fjárlaganefnd, og sjerstök meðmæli með hverjum þm., sem það hnoss hefir hlotið. Þessu er enn svo varið og í nefndina valdir alvörugefnir menn, sem finna til hinnar þungu ábyrgðar að halda fjárreiðum landsins í horfinu. Enda er ekki annað sjáanlegt en að hv. nefnd treysti sjálfri sjer fullvel í þessum sökum, þar sem hún er stöðugt að færa út kvíarnar og draga fleiri og fleiri mál undir starfsvið sitt. Hún hefir náð tekjubálki fjárlaganna í sínar hendur frá annari nefnd, sem áður hafði hann til meðferðar, og er í sjálfu sjer ekkert við því að segja. Ennfremur hjó jeg eftir því í ræðu hv. frsm. fyrri kaflans (ÞórJ), að hann mæltist til þess, að fjvn. fengi til meðferðar málefni, sem hingað til hafa heyrt undir samgmn., og er jeg fyrir mitt leyti samþykkur þeirri breytingu. En þar sem hv. nefnd hefir svo vandasömum störfum að sinna, sem stöðugt fara vaxandi, þá er það þeim mun furðanlegra, ef satt væri, að hún skuli einhuga geta fengið sig til að uppnefna ýmsa merkismenn þjóðarinnar. Því venjulega eru þeir menn ekki með öllu ómerkir, sem þingið sýnir þann sóma að veita styrk í fjárlögum. Það er því leiðinlegt í meira lagi, að hv. nefnd skuli hafa flanað út í þetta nafnabreytingafargan að þessu sinni. Jafnþjóðkunnur maður og vígslubiskupinn á Stóra-Núpi má ekki heita Valdimar Briem lengur, ef hv. nefnd fengi að ráða, og jeg er viss um, að margir munu reka upp stór augu, þegar þeir heyra sagnfræðinginn Boga Jónsson nefndan, ekki óþektari maður en Bogi Th. Melsteð þó er.

En ekki er nóg með það, að nöfnum lifandi manna á að umvenda eftir geðþótta hv. þm., heldur er jafnvel lagst á náinn líka. Jón heitinn Aðils fær ekki lengur frið í gröf sinni; hann á að fæðast aftur í endurnýjungu lífdaganna og heita nú Jón Jónsson.

Þetta minnir mig á sögu af manni, sem fyrir nokkru síðan ferðaðist um og sýndi skuggamyndir, m. a. af merkum útlendingum, eins og t. d. Goethe, Schiller, Bismarck og fleirum. Þegar hann skýrði myndirnar fyrir áhorfendum, þá kallaði hann þessa menn Jóhann, Ottó, Friðrik o. s. frv., en forðaðist að nefna nöfn þeirra eins og þau eru í raun og veru.

Um þetta var gerður bragur, sem jeg man því miður ekki nema tvær vísur úr, en þær hljóða svo:

Mynd af Göethe meðal annars maðurinn sýndi,

þarfa skýring þar til bjó hann:

Þessi maður heitir Jóhann.

Friðrik, þýskur (það eru fleiri þundar stála),

þessi Ottó, þýskur líka.

Þjóðin undrast visku slíka.

Já, þjóðin mun áreiðanlega undrast visku slíka, þegar hún frjettir um ættfræðiþekkingu háttv. fjvn. og þá ræktarsemi, sem hv. nefnd hefir sýnt íslensku máli, með því að verja tíma og fyrirhöfn til svo hjegómlegra hluta, vægast sagt.

En á þessu máli er einnig önnur hlið, og hún er lakari, ljettúð hv. fjvn. Það, sem hv. nefnd leggur hjer til, eru ekkert annað en hrein lögbrot.

Árið 1913 voru sett lög um mannanöfn, þar sem mönnum m. a. var gert að skyldu að skrifa nöfn sín altaf eins, og menn væru þá um leið væntanlega verndaðir gegn því, að hinir og þessir gætu komið og párað nöfn þeirra og rangfært eftir eigin geðþótta. Jafnframt var mönnum með lögum þessum heimilað að taka sjer upp ættarnöfn, ekki í sviga aftan við föðurnafnið, heldur skyldu menn þá einungis rita skírnarnöfn sín og ættarnöfn þar á eftir athugasemdarlaust.

Jeg skal ekkert fara út í það, hvort lög þessi sjeu í sjálfu sjer rjett. Um það geta verið skiftar skoðanir, enda hefir hv. deild nú til meðferðar frv. um mannanöfn, þar sem m. a. bannað er að taka ættarnöfn. Jeg segi nú ekkert um, hvort jeg muni fylgja því frv., þegar til kemur, en þó að jeg væri því eindregið fylgjandi, þá mundi jeg vera jafneindregið á móti þessum nafnabreytingum hv. fjvn., sem að mínu viti fara í bága við gildandi lög.

Hv. þm. Dala. (BJ) hefir talað mjög fyrir þessum brtt. hv. nefndar, enda munu þær undan hans rifjum runnar. Menn þekkja skoðun hans á þessu máli. Hann hefir altaf verið eldheitur andstæðingur ættarnafnanna og talið að þeim málspillingu, sem væri þjóðarskömm. Og í baráttu sinni við ættarnöfnin hefir hv. þm. sagt svo marga hluti skemtilega, að menn hafa tekið vægar á honum en hann í raun og veru ætti skilið, þegar hann hefir verið að flytja till. um, að ættarnöfn manna væru sett í sviga aftan við föðurnafnið.

En málið horfir nokkuð öðruvísi við, þegar öll hv. fjvn. plokkar út úr fjárlögunum alla þá, sem bera fullkomlega lögleg ættarnöfn, og ætlar sjer að breyta nöfnum þeirra með fjárlagaákvæði, algerlega að þeim fornspurðum.

Þó að þingið hafi áður samþykt svipaða till. frá hv. þm. Dala. (BJ), þá hefir í raun og veru aldrei verið samþykt neitt um þessar nafnbreytingar, heldur eingöngu fjárveitingar til hlutaðeigandi manna, eins og t. d. þegar samþyktar voru við 2. umr. fjárveitingar til Sigurðar Jóhannessonar (Nordals) og Halldórs Guðjónssonar (Kiljan Laxness).

En úr því að hv. fjvn. hóf þessa málhreinsunarstarfsemi sína á annað borð, þá furðar mig á, að hún skyldi ekki fara enn lengra. Hvers vegna brá hún sjer ekki út fyrir pollinn líka? Það er þó sannarlega óskemtilegt að sjá útlend mannanöfn í íslenskum fjárlögum. Hvaða vit er t. d. í því að veita Bjarna Jónssyni frá Vogi styrk til þess að þýða Göcthes Faust? Þetta er hrein óhæfa, í stað þess að veita Bjarna Jónssyni frá Vogi styrk til að þýða Hinrik Hansson eftir Jóhann Jóhannsson!

Get jeg ómögulega sjeð, að íslensku máli sje fullkomlega borgið, þó að till. hv. fjvn. verði samþyktar, meðan slíkt er látið standa óhaggað í íslenskum lögum.

En nú skulum við snúa blaðinu við og hugsa okkur, að í fjvn. sætu eingöngu tryltir ættarnafnamenn, sem tækju rögg á sig og gæfu hverjum manni, sem í fjárlögum er nefndur, ættarnafn. Þá kæmi Bjarni Vogan, ótal „sen“ o. s. frv. Og það er alveg jafnheimilt að taka föðurnafn af manni eins og ættarnafn, eða m. ö. o., hvorttveggja er jafnóheimilt.

Jeg skal ekki fara mörgum fleiri orðum um þessar brtt., en vil vona, að hv. deild felli þær miskunnarlaust, ef hv. fjvn. sjer ekki sóma sinn í að taka þær aftur. Enda mun höggva nærri, að ekki sje einu sinni leyfilegt að bera þær undir atkvæði, þar sem þær fara í bága við gildandi lagaákvæði, en þeim verður ekki breytt með fjárlagaákvæðum, eins og kunnugt er.

Þó að jeg hafi borið fram brtt. á þskj. 303, þá er það ekki beinlínis gert vegna þessara brtt. hv. fjvn., en mjer sýnist samt rjettast, úr því að mál þetta er orðið svo „actuelt“, að þeir liðir, sem jeg vil breyta, verði einnig lagfærðir, ef brtt. hv. fjvn. verða feldar. Mjer virðist engin ástæða til annars en þeir Sigurður Nordal og Halldór Kiljan Laxness fái að halda nöfnum sínum rjettum og óbreyttum, eins og aðrir menn, sem getið er í fjárlögunum. (BJ: Vill ekki hv. þm. taka upphæðina af þeim líka?). Ef hv. þm. Dala. vill ekki veita þessum mönnum styrk úr ríkissjóði, nema þeir leggi niður sín rjettu nöfn, þá ræður hann því auðvitað og greiðir atkv. þar eflir. En jeg þykist vita, að margir hv. þm. geti unnað þeim einhvers styrks án þess að skipa þeim að afbaka nöfn sín um leið og þeir kvitta fyrir móttöku fjárins.