07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vildi leyfa mjer að segja nokkur orð um brtt. við 13. og 16. gr. frv., en skal þó ekki tala um þær allar. heldur aðeins þær, sem mestu máli skifta.

Hv. fjvn. leggur nú til að hækka styrkinn til bátaferða um 4000 kr., sbr. XV brtt. á þskj. 290. Mjer skildist á háttv. frsm. fyrri kafla (Þór.J), að hv. nefnd legði þetta til með sjerstöku tilliti til ákveðins báts, en mjer er ekki kunnugt um, að hv. nefnd hafi rannsakað þessi mál betur en hv. samgmn., sem hefir geri ákveðnar till. um styrk til bátaferða yfirleitt.

Jeg mun því ekki telja mig bundinn við orð hv. frsm. (Þór.J), en mun þó að sjálfsögðu taka eins mikið tillit til þeirra og sanngirni segir til.

Jeg leyfi mjer að þakka hv. fjvn. fyrir að hafa bætt við liðinn um kaup á húsum og lóð við Garðskagavita. Jeg tel víst, að þessar eignir muni fást keyptar fyrir 2250 kr., en þær hefðu ekki fengist fyrir 1500 kr., eins og lagt var til að veita í þessu skyni við 2. umr.

Um símana í Dalasýslu skal jeg vísa til þess, sem jeg sagði við 2. umr.

Að því er snertir XXVII. brtt., frá hv. þm. Dala. (B.J), um aukinn styrk til búnaðarfjelaga, skal jeg geta þess, að jeg sje naumast ástæðu til að hækka hann svo mjög, vegna þess fyrst og fremst, að nú er veittur styrkur til jarðabóta á öðrum stað í fjárlögunum, og þó sá styrkur gangi ekki beint til búnaðarfjelaganna, þá fá hann nær eingöngu menn, sem eru í einhverju slíku fjelagi, og kemur það því í sama stað niður.

Þá er að minnast á Skeiðaáveituna. Eins og að hefir verið vikið, fór jeg með þrjár till. um þetta mál til hv. fjvn., en hún vildi ekki taka eina þeirra upp, sem sje þá, sem hv. 2. þm. Árn. (JörB) flytur nú á þskj. 299, um að ríkissjóður greiði 6 þús. kr. árlega næstu 5 árin upp í vexti og afborganir af veðdeildarlánum áveitunnar. Þessi till. er flutt með sjerstöku tilliti til klapparinnar, sem varð í vegi aðalskurðsins og enginn vissi áður um, og er fjárhæðin miðuð við helming þess sjerstaka kostnaðar, sem varð við að sprengja klöppina.

Fyrir mjer vakir, að fjárreiðum áveitunnar verði skipað til fullnustu á viðunandi hátt, og vil jeg því mælast til, að brtt. hv. 2. þm. Árn. (JörB) verði samþykt, svo að þingið hafi hjer eftir frið fyrir þessu máli og þurfi ekki að verja miklum tíma árlega til þess að ræða það.

Full sanngirni mælir með því, að ríkissjóður taki einhvern þátt í þessum kostnaði, og jeg held, að nauðsyn beri til að styrkja hlutaðeigandi bændur, til þess að þeir geti stækkað bú sín. Fái þeir frest til þess, munu þeir geta annað skuldbindingum sínum, svo sem samningar segja til.

Einnig verður aðstaða stjórnarinnar gagnvart Landsbankanum, til þess að fá hann til að gefa eftir eitthvað af veðdeildarláni áveitunnar, ljettari, ef svo er tilskilið, að ríkissjóður leggi eitthvað af mörkum á móti. Það má ganga að því vísu, úr því að Landsbankinn hefir ekki viljað fara eftir yfirlýstum vilja Alþingis í fyrra, að hann verði ekki fúsari til þess nú, nema ríkissjóður veiti áveitufjelaginu einnig einhvern styrk. Þá verður erfiðara fyrir bankann að neita alveg.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) var á móti brtt. hv. fjvn. á þskj. 290, XXX,l.b, vegna þess að ekki kæmi skýrt fram, hvort veðdeildin eða Landsbankinn ætti að gefa greiðslurnar eftir. Í till. stendur „stjórn Landsbankans“, og þá er það auðvitað bankinn sjálfur, sem á að inna eftirgjöfina af hendi, enda væri ekki hægt að leggja veðdeildinni slíka skyldu á herðar. Áveitulánin voru upphaflega útborguð í veðdeildarbrjefum, sem bankinn keypti síðan með afföllum. Nú þarf bankinn hvort eð er altaf að hafa fyrirliggjandi talsvert mikið af veðdeildarbrjefum, og þó að vextir þeirra sjeu ekki háir, þá er aðgætandi, að þau verða að lokum innleyst með nafnverði, svo að ekki er hægt að segja, að bankinn tapi á þessum kaupum.

Ef jeg væri bankastjóri, mundi jeg vera feginn því að fá slíka yfirlýsingu Alþingis, sem í till. felst, því ekki getur komið til mála, að gengið verði að bændunum, sem hjer eiga hlut að máli, enda yrði áreiðanlega tekið í taumana, ef til þess kæmi.

M. a. þess vegna þykir mjer miður, að hv. nefnd skyldi ekki geta fallist á till. hv. 2. þm. Árn. (JörB), sem í mínum augum er fult eins mikils virði eins og till. um, að bankinn gefi eftir hluta af láninu.

Það mun vera tilætlun hv. nefndar að gera ekkert við þá hlið þessa máls, sem að ríkissjóði snýr, fyr en á næsta þingi, nema að veita bændunum dálítinn styrk til flóðgarðahleðslu. En sá styrkur nemur ekki nema fjórðungi kostnaðar, og hefir það verk þegar verið unnið að mestu leyti, svo að ekki verður sú fjárveiting notuð til vaxtagreiðslu og afborgana á næsta ári.

Og jeg verð að segja, að ef till. um framlag úr ríkissjóði nær ekki samþykki, þá er til lítils að skipa mann til eftirlits með fjárreiðum áveitunnar, því að jeg efa stórlega, að hægt verði að safna saman því fje, sem nú þarf til greiðslu vaxta og afborgana.

Jeg vil því óska, að hv. deild gangi svo frá máli þessu nú, að ekki þurfi að taka það til meðferðar þegar á næsta þingi.

Þá hefir hv. sjútvn. samkv. tilmælum mínum flutt brtt. um að hækka fjárveitingu til eftirlits með bátum og skipum og öryggi þeirra um helming, og er jeg þakklátur hv. nefnd fyrir það. Jeg skal aðeins geta þess, að ekki verður komist af með minni fjárveitingu í þessu skyni en 6000 kr. Þetta er lögmælt greiðsla, sem ríkissjóður getur ekki skotið sjer undan, enda er hjer um mikið og nauðsynlegt starf að ræða, að hafa eftirlit með öllum skipum og bátum í landinu.

Háttv. þingmenn Árn. (MT og JörB) fara fram á, að 16. liður 16. gr. verði hækkaður um 5000 kr., og skilst mjer, að aukning þessi eigi að ganga til lendingabóta, en ekki hefi jeg heyrt, hvar þær lendingabætur eigi að gera, enda heyrði jeg ekki ræðu háttv. 1. þm. Árn. (MT). (MT: Við höfum hugsað okkur, að 2000 kr. gangi til að dýpka innsiglingarleiðina til Stokkseyrar). Þá verða ekki eftir nema 3000 kr. af þessari hækkun, sem koma til skifta til bryggjugerða, ef 2000 kr. eiga að ganga til þessarar ákveðnu lendingarbótar.

Þá eru fluttar brtt. um styrk til Lúðvíks Jónssonar, til að endurbæta jarðyrkjuverkfæri, sem hann hefir látið smíða. Jeg mun verða fylgjandi fjárveitingu í þessu skyni, a. m. k. till. hv. fjvn., en vel getur verið, að jeg greiði hærri fjárveitingunni atkvæði, því að maður þessi hefir sýnt stórmikinn áhuga á þessu starfi sínu, og er ekki annað hægt að sjá en að hann sje á rjettri leið, eftir því sem nákunnugir menn, sem hafa notað verkfæri hans, hafa tjáð mjer.

Enn er að minnast á þriðju brtt. á þskj. 299, um fjárveitingu til byggingar á Stóruvöllum vegna sandgræðslunnar. Það er að vísu rjett, að töluvert stórfeld sandgræðsla hefir verið gerð á þessum slóðum, en þó lít jeg svo á, að enn sje of snemt að byggja þarna. Jeg get því ekki fylgt þessari brtt. nú, þar sem jeg vil leggja enn meiri áherslu á græðsluna fyrst um sinn, enda má nota hið grædda land á annan hátt til að byrja með, t. d. til slægna, eins og nú er gert. Þarna er geysimikið landfhvmi, sem má og á að græða áður en hugsað er til bygginga.

Þá ætla jeg að nefna till. um að kaupa hús prestsins á Torfastöðum. Það vill svo til, að jeg er kunnugur þarna og get því undirskrifað, að það er rjett, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði um jarða- og húsabætur þessa prests. Og mjer finst, að það sje ekki nema eðlilegt, að þegar svo mikið er unnið að jörðinni, en staðurinn á ekki hús, að þá sjeu staðarhúsin gerð að sem mestu leyti eign jarðarinnar og fylgi henni. Það segir sig sjálft, að þegar fátækir prestar koma að jörðum, sem engin hús fylgja, þá geta þeir ekki keypt húsin. Það má nú vera, að svo megi líta á, að stjórnin hafi heimild til þess að gera þetta án þess að samþykki þingsins komi til, og þætti mjer æskilegt að heyra, hvaða álit hv. fjvn. hefir á því. Því að sje svo, að þingið líti svo á, að stjórnin hafi heimild til að gera þetta, þá er náttúrlega ekki bein ástæða til þess að samþykkja þessa till. Og um leið væri sagt, að þótt liðurinn yrði feldur, þá væri ekki bannað eða hindrað, að þetta megi ekki og eigi ekki að gera.

Og það er auðvitað alveg rjett, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að í því meira liggur hið minna. Ef stjórnin hefur heimild til að kaupa öll húsin, þá er henni að sjálfsögðu heimilt, ef henni sýnist svo, að kaupa aðeins eitthvað af þeim.