16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

79. mál, selaskot á Breiðafirði og uppidráp

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Jeg þarf ekki að vera langorður um þetta mál. Í nál. á þskj. 177 er tekið fram það, sem nefndin hefir um það að segja. Viðvíkjandi brtt. á þskj. 188, sem nú hefir verið útbýtt í hv. deild, skal jeg geta þess, að þegar nefndin hafði betur athugað orðalag frv., og einkum vegna samræmis þess við næsta mál á dagskránni í dag, þá leyfir hún sjer að leggja til, að brtt. þessi verði samþykt.

Eins og hv. deild er kunnugt, hefir hv. þm. Dala. (BJ) borið fram frv. í svipaða átt sem þetta, og hefir landbn. einnig haft það til meðferðar. Jeg hefi fyrir nefndarinnar hönd átt tal við háttv. þm. (BJ) um það frv., og fellst hann góðfúslega á, að því sje ekki sýnd nein óvin semd, þó að nefndin hafi borið fram brtt. á þskj. 177, sem er frv. hans orð rjett, og kemur það því ekki á dagskrá aftur.

Brtt. á þskj. 177 fer í dálítið aðra átt en sjálf frvgr., eins og hún nú er, sem sje að færa út takmarkalínuna, sem sela skotum eru sett á Breiðafirði.

Nefndin telur þessa breytingu sjálfsagða. Jeg hefi nýlega átt símtal við einn merkasta bónda í Dalasýslu, og segir hann, að andróður sá, sem nokkrir íbúar Stykkishólms og þar í grend hafi hafið gegn þessari útvíkkun línunnar, eigi svo lítinn rjett á sjer, að hann megi engan veginn varna því, að breytingin nái fram að ganga. Má í þessu sambandi einnig vísa til hinnar skýru og rökföstu greinargerðar hæstv. forseta Ed. (HSteins), er fylgdi frv. hans um þetta efni hjer í fyrra. Þar er svo skýrt kveðið á um nauðsyn þessa máls, að jeg hefi engu við að bæta. Enda mun hv. þm. Dala. (BJ), sem er hinn eiginlegi flm. brtt., tala betur fyrir henni en mjer er unt, þar sem mig brestur kunnugleika á þessum slóðum sem skyldi.

Vænti jeg þess, að hv. deild samþykki till. landbn. í máli þessu.