24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

1. mál, fjárlög 1926

Tryggvi Þórhallsson:

Því hefir verið haldið fram, að það væri vandlifað fyrir þá menn, sem við stjórnmál fást. Og jeg verð að segja það, án þess að jeg sje að kvarta undan því, að mjer þykir vera vandlifað fyrir þingmann Strandamanna upp á síðkastið. Fyrir skemstu var hann í blöðum Íhaldsins útbásúnaður sem blóðrauður bolseviki, og það meira að segja verri en hv. 2. þm. Reykv. (JBald) og helst á við Ólaf Friðriksson. (Atvrh. MG: Það var bóndi úr Strandasýslu, sem skrifaði greinina). Veit hæstv. ráðherra það? (Atvrh. MG: Það stóð undir). Jeg veit, að það var ekki bóndi úr Strandasýslu, sem skrifaði greinina.

Á föstudaginn var bar jeg svo fram tillögu um, að rannsóknarnefnd væri skipuð í Krossanesmálinu. Þá sagði hæstv. atvrh., að refur væri bak við eyrað á þingmanni Strandamanna. Þetta hvorttveggja læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja. En þegar jeg hóf eldhúsverkin í gær, tók hæstv. stjórn það svo, og þá einkum hæstv. fjrh. (JÞ), að við værum alveg sammála og jeg væri víst nærri því orðinn íhaldsmaður. Þetta var nokkuð seint í ræðu hæstv. fjrh., eða að minsta kosti hefi jeg verið farinn að dotta, því að jeg hrökk upp. Hvaðan gat sú reginákæra komið? Jeg fór að leita að ráðningu á þessu, og þóttist jeg finna hana í ummælum hæstv. forsrh. (JM) út af yfirheyrslunum í Marianmálinu. Hann kendi mjer þá nýja siðfræði, sem var mjer algerlega ókunn áður. Hann sagði nefnilega, að það væri ekkert sjerstakt, að menn mættu segja ósatt í yfirheyrslum fyrir rjetti, heldur væri það nærri ófrávíkjanleg regla, að þeir segðu það eitt, sem þeim gott þætti og best kæmi heim við þeirra málstað.

Jeg fór að hugsa um þennan „moral“. Mjer fanst jeg finna þar ef til vill lausnina á þessari gátu. Því mjer finst það ekki fjarstæð samlíking, að á eldhúsdeginum sjeu það þingmenn, sem hafi rjett til að setja sig í dómarasess, og sitja þá ráðherrar sem hinir ákærðu. Þá fari fram yfirheyrsla af hálfu þingsins. Við fyrstu yfirheyrslu, sem fram fór af minni hálfu, sýndu allir hæstv. ráðherrar mjer þann sóma að standa upp. Hæstv. forsrh. (JM) kom þá með þennan „moral“, sem á að gilda við fyrstu yfirheyrslu. Jeg ætla ekki að varpa fram neinni spurningu um það, en mjer skilst, að af orðum hans leiði það beinlínis, að það sje fullkomlega leyfilegt að haga sjer eins og þeim gott þykir við fyrstu yfirheyrslu. Frá þessu sjónarmiði sjeð skal jeg játa, að mjer varð hughægra, er jeg hafði velt þessu fyrir mjer, einkanlega út af þeim ummælum hæstv. fjrh. (JÞ) í minn garð, að ráðherrarnir væru svo ákaflega sammála mjer og jeg vœri að verða íhaldsmaður. Annars kom mjer þessi aðferð hæstv. ráðherra, sem sjerstaklega hæstv. fjrh. vildi beita, um samrými skoðana okkar, alls ekki ókunnuglega fyrir, því að jeg veit vel um það, að í mörgum kjördæmum var við síðustu kosningar sá leikur leikinn, að frambjóðendur „Borgaraflokksins“ sem þá var kallaður, — hann var ekki búinn þá að fá hið göfuga nafn „Íhaldsflokkur“, — þeir þóttust vera svo innilega sammála okkur Framsóknarmönnum. Það þótti eitthvað líklegra til sigurs að vilja vera á yfirborðinu okkur sem mest sammála í orði. Jeg get svo vel botnað þennan inngang minn með því að segja, að jeg varð rólegur út af ummælum hæstv. fjrh. (JÞ) sjerstaklega, og get haldið áfram á sama grundvelli, með því að menn þekkjast og dæmast ekki eftir orðum, heldur ávöxtum. Get jeg meira mark tekið á verkum hæstv. stjórnar, og þó orð mín hafi haft svo mikil áhrif á hæstv. fjrh., að hann hafi orðið mjer sammála, vil jeg ekki telja það víst, að það komi fram í verkum af hans hálfu.

Þá skal lokið þessum inngangi og vikið að einstökum atriðum, sem hæstv ráðherrar beindu til mín út af minni fyrstu ræðu, og hafa þann gang að fara nú öfuga leið frá því sem í gær, og byrja á hœstv. forsrh. (JM). Jeg þarf ekki mikið við hann að tala, enda var ekkert í hans ummælum, sem kom mjer til að hrökkva við. Við hann var jeg að tala um löggæslu yfirleitt og gæslu bannlaganna sjerstaklega, og þar ber okkur mikið á milli. Jeg er ákaflega óánœgður bæði með Maríanmálið og framkvæmdir á eftirliti með bannlögunum. En hæstv. ráðh. (JM) þvert á móti segist álíta meðferð þess máls alveg aðdáanlega. Þau sannfærðu mig ekki hans orð um það. Jeg er jafnóánægður eftir sem áður. Og jeg get sagt það og fullyrt, að það er ekki rjett, sem hæstv. forsrh. sagði, að bannmenn væru yfirleitt ánægðir með rekstur málsins. Jeg hygg, að jeg hafi ekki talað við færri bannmenn en hæstv. forsrh., og undantekningarlaust hafa þeir allir verið mjög óánægðir. Það skilur okkur hæstv. forsrh., að jeg, þó miklu yngri maður sje, er miklu tortryggari í þessu máli heldur en hann, á yfirborðinu að minsta kosti.

Jeg hefi vikið að þessum „moral“, að sakborningur megi segja hvað sem honum þóknast við fyrstu yfirheyrslu, og jeg verð að játa, að jeg geng ekki inn á þær „moral“ -kenningar. Jeg tortryggi áfram þá menn, sem segja ósatt og halda áfram að segja ósatt. Þegar skipstjórinn er tvívegis staðinn að ósannindum og allir skipverjar, þá liggur ekki nœrri að hugsa svo, að það þriðja, sem þeir koma með, sje heilagur sannleikur. Jeg trúi því ekki, þegar ekki nema 66 dunkar af þessum 1100 hafa komið fram, að öllu hinu hafi verið kastað í sjóinn. Hœstv. forsrh. gaf þá skýringu, að það hefði verið samkomulag milli skipstjóra og skipverja að neita öllu í upphafi. Hafi þeir komið sjer saman um það, hví gátu þeir ekki gert samkomulag um fleira? Þeir gátu eins komið sjer saman um næstu ósannindi. Hæstv. forsrh. vildi segja, að framburður skipverja um mótorbátinn væri afarsennilegur; en jeg segi, að þar gat líka verið samkomulag um ósannindi. Úr því það er sannað, að það var samkomulag áður um að segja ósatt, þá er líklegt, að þeir geri það og á næsta stigi.

Jeg skal ekki deila við hæstv. forsrh. um það lagaatriði, hvort íslensk yfirvöld hefðu getað náð í Kattrup, þegar hann var á leið hjeðan með skipi. Jeg skal játa, að jeg er ekki nógu lögfróður til að rökræða það. Hann var farinn frá Íslandi og ekki kominn til Færeyja, og ef ekki var hægt að ná í hann, þá segi jeg, að lögum okkar þarf að breyta, fá samkomulag við sambandsþjóð okkar. Nýlega las jeg það í útlendum blöðum, að eitt frægasta skáld Spánverja hefði verið yfirheyrt í Frakklandi fyrir orð, sem fallið hafa úr hans penna um háttstandandi menn á Spáni. Danir hafa líka fengið seka menn senda heim frá útlöndum. Hvort þetta vald nær aðeins til þegnanna, skal jeg ekki fullyrða, en hitt álít jeg, að ef ekki var hægt að ná til þessa manns, þá er þarna um atriði að ræða, sem þarf að bæta úr. Þykir mjer mjög ósennilegt, að samkomulag fáist ekki við sambandsþjóð okkar um þetta. Þetta er svo háðulegt, að hálfum öðrum sólarhring áður en skipið kemur hingað inn, sleppur maðurinn úr greipum íslenskra yfirvalda, maðurinn, sem útlit var fyrir, að ætti alt vínið. Sá getur gefið íslenskum yfirvöldum langt nef.

Jeg kem aftur að því merkilega atriði, að hæstv. forsrh. með sinni löngu lífsreynslu er svo fús til að trúa, en jeg er tortryggari, og þó yngri maður. Honum þykir það beinlínis sennilegt, að áfengið hafi verið afhent þessum mótorbát alveg skilríkjalaust. Það er undarlegt, hverju menn geta fengið sig til þess að trúa, ef þeir vilja endilega trúa. Mjer er ekki kunnugt um vínverð, en jeg skil ekki annað en heill bátsfarmur af „sprútti“ sje mikils virði, og mun hann varla hafa verið afhentur alveg skilríkjalaust. Hæstv. forsrh. taldi líklegt, að skipverjar hefðu verið í vandræðum og ekki vitað, hvað gera skyldi. Fyrir mitt leyti hugsa jeg, að til slíkra ferða, að fara smyglunarferð frá Þýskalandi til Íslands, sjeu ekki valdir kjarklausir menn og úrræðalausir. Þó þeir væru búnir að brjóta sóttvarnarlögin, þá munu þeir varla hafa gugnað og gefist upp við að koma víninu á land, og fylt bát, sem bar að, alveg skilríkjalaust. Mjer þykir það ákaflega merkilegt, að hæstv. forsrh. með sína löngu lífsreynslu að baki sem lögfræðingur og bæjarfógeti í Reykjavík um mörg ár, að hann geti trúað þessu. Það er grátbroslegt.

Jeg vík í þessu sambandi að öðru atriði, sem kemur hjer ekki við beinlínis, en er mjög eftirtektarvert. Hæstv. forsrh. afneitaði mjög greinilega þessum strandvarnabát þarna suðurfrá. Fanst mjer hann vilja láta líta svo út, að ekki megi kalla hann lögreglu í neinni mynd. Jeg man ekki, hvað hann taldi upp margar stofnanir, sýslunefnd, hreppsnefnd og stjórn a. m. k., sem hefðu ekkert með hann að gera. Úr landsins kassa var honum þó borgaður styrkur til þess að hafa strandvarnir á hendi. Ef allar þessar opinberu stofnanir hafa ekkert haft með bátinn að gera, virðist mjer ábyrgðin færast yfir á hæstv. fjrh. (JÞ), þar sem hann hefir látið greiða styrk til bátsins. Því jeg geri ekki ráð fyrir, að ríkisfjehirðir afhendi svona mikið verðmæti skilríkjalaust. Þá færi að verða eitthvað athugavert við meðferðina á ríkissjóði, ef enginn ber ábyrgð á því, hvers vegna báturinn hefir fengið styrk.

Jeg fer ekki frekar út í málið. En jeg er jafnóánægður og áður. Skýringar hæstv. forsrh. hafa ekki fært mjer heim sanninn um neitt. Jeg verð að segja, að jeg skil alls ekki þá trúgirni og þá nærri því að segja barnalegu einfeldni, sem mjer finst skína frá ummælum hæstv. forsrh. um þetta mál. Jeg held, að þess verði nálega um aldir minst, hvernig þessum þýska manni hefir tekist að gefa þeirri íslensku lögreglustjórn langt nef.

Jeg talaði minna um Veiðibjöllumálið í minni ræðu, vegna þess að jeg þekti það minna. En hitt veit jeg, að fjöldi bannmanna er ennþá meira óánægður út af því máli. Sem sagt, jeg hefi ekki aðstöðu til að tala um það mál, enda er það nú í hæstarjetti og rannsókn líklega ekki lokið ennþá. Hæstv. forsrh. slepti að minnast eins atriðis, sem jeg nefndi, sem sje manndauðans í Keflavík. (Forsrh. JM: Jeg gleymdi því atriði). Vonast jeg til, að hæstv. forsrh. komi að því seinna.

Hin smámálin, sem jeg vjek að hæstv. forsrh., krossana og manntalið, þarf jeg ekki að fara inn á frekar. Þóttist vita fyrirfram, hvernig svarið yrði. En jeg tók þetta með af því að jeg vildi ljetta á minni samvisku, eins og þar stendur. Um manntalið kom ekkert nýtt fram. Jeg vildi aðeins reka á eftir, og leyfi jeg mjer að vonast eftir meiri framkvæmdum í því efni á næstunni en hingað til. Líka vildi jeg láta það koma fram í þessari hv. deild, að það er vöknuð óánægja yfir því, að samhliða því sem við Íslendingar komum fram með rjettmætar kröfur um það að fá skjöl frá Danmörku, þá eru þeir að heimta skilað þeim skjölum, sem við höfum fengið lánuð, en eigum vitanlega.

Um krossamálið þóttist jeg vita fyrir, að hæstv. forsrh. mundi svara þessu um krossaskattinn. Jeg játa fullkomlega, að jeg taldi það víst, þegar við í fjvn. í fyrra bárum fram áskorun um þetta mál til stjórnarinnar, að jeg mundi hafa þá ánægju á næsta þingi að spyrja hæstv. stjórn, hvers vegna ekkert hefði verið gert í málinu. En það er langt frá, að jeg hafi sannfærst af ræðu ráðherrans.

Þá kem jeg að hæstv. atvrh. (MG) og get verið mjög stuttorður í hans garð. Jeg vjek ekki nema tveim atriðum að honum, og þarf litlu við að bæta um þau, enda hefir hv. 1. þm. N.-M. (HStef) tekið þau til athugunar. Hæstv. atvrh. kvað mig hafa á liðnu ári áfelt sig fyrir ýmislegt, en ekki komið með nema ein tvö atriði nú í þá átt. Vildi hann af því draga þá ályktun, að jeg væri nú fallinn frá öllu hinu. Hæstv. atvrh. má hugga sig við það, að mjer datt ekki í hug að tína alt til, enda höfum við skrifast á undanfarið. Við getum vel skifst orðum á annarsstaðar en hjer í hv. deild.

Um Krossanesmálið ætla jeg ekki að tala mikið nú. Háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) hefir vikið að því, og mjer þykir ekki ólíklegt, að það geri fleiri við þessar umr. En hæstv. atvrh. sagði það, að hann vildi álíta mínar aðfinslur fyr um Krossanesmálið marklausar, úr því jeg kom ekki fram með þær þegar jeg flutti þáltill. Þetta er mjög merkileg staðhæfing hjá honum, því að það kom mjög skýrt í ljós hjá mjer þá, hvers vegna jeg var ekki að átelja framkomu stjórnarinnar í því máli þá, sem sje vegna þess, að jeg rökstuddi, að málið væri orðið utanríkismál. Þess vegna vildi jeg ekki á því stigi ýfa upp gömul sár. Hæstv. atvrh. sagði, að það væri alviðurkent, að hann hefði gert alt rjett í Krossanesmálinu. Einmitt það! Hvers vegna var þá helmingur af þingmönnum þessarar hv. deildar, sem krafðist þess eindregið að fá rannsókn á málinu. Hvers vegna var það þá, að hæstv. atvrh. með sínu atkv. drap till. um það, að rannsókn yrði gerð? Er það venjan, að sá, sem er alsaklaus, hefir gert alt, sem hann átti að gera, neiti því með sínu atkv., að aðrir megi fá fullkominn tíma og fullkomna aðstöðu til þess að athuga hans gerðir?

Um innflutningshöftin skal jeg aðeins örfá orð segja. Hœstv. atvrh. viðurkendi um það mál, að minni hefðu orðið framkvæmdir en átti að vera og búist hefði verið við. Með öðrum orðum: hæstv. ráðherra viðurkennir, að hann hafi ekki fullkomlega staðið við þau loforð, sem hann gaf síðasta þingi um framkvæmd innflutningshaftanna. Hann sagði í þessu sambandi, að við hefðum ekki ráð á því að láta 10 milj. kr. standa í bönkum ytra á lágum eða engum vöxtum. Mjer dettur þetta atriði í hug í sambandi við það, sem við hæstv. atvrh. höfum talað mikið um á prenti. Ef þetta enska lán margumtalaða hefði ekki verið bundið þessum óskaplegu skilyrðum, að ekki má borga það upp, hefði verið hægt að nota þetta fje til þess. (Atvrh. MG: Það má ekki nota það; við þurfum að hafa það til taks). Til hvers? (Atvrh. MG: Til að kaupa fyrir). Hvar er þá hættan að láta 10 milj. kr. liggja vaxtalausar? Annars kemst hæstv. atvrh. að til að svara þessu og mörgu öðru, þegar hann talar nœst.

Hæstv. atvrh. vitnaði í ummæli í nál. fjvn. viðvíkjandi innflutningshaftamálinu. Jeg ætlaði ekki að ganga framhjá þeim ummælum. En hinsvegar er orðalagið ekki eftir mig.

Hœstv. ráðherra gleymdi því líka í þessu sambandi, að verðtollurinn stóð ekki alt árið í fyrra. Þá sagðist hann hafa búist við harðari árásum frá mjer. Jeg hefi nú verið á hœlunum á honum undanfarið, og við getum altaf náð saman, enda munum við áreiðanlega ekki vera skildir að öllu leyti. Það koma tímar og það koma ráð fyrir okkur báða.

Loks vil jeg víkja nokkrum orðum til hæstv. fjrh. (JÞ). Jeg beindi til hans þrem stórum málum og einu smámáli, sem var um hagstofuna. Skal jeg ljúka því af fyrst, enda hefi jeg litlu við það að bæta, sem jeg áður sagði. Jeg viðurkendi skilyrðislaust í minni ræðu formlegan rjett hæstv. fjrh. til þess að gera það, sem hann gerði. Það, sem hæstv. ráðherra bar til afsökunar fyrir því að brjóta það „princip“, sem mikill hluti þingsins vildi taka upp í fyrra, nefnilega að fjölga ekki starfsmönnum við opinberar skrifstofur, það var, að reikningsskil og margar aðrar skýrslur frá hagstofunni kæmu langt á eftir áætlun. Það má fleira um hagstofuna segja en þetta. Hún gefur út ekki svo fáar skýrslur, sem alls engin nauðsyn er að gefa út. Þarf jeg ekki að telja þær upp. Hæstv. fjrh. man sjálfsagt eftir löngum bálki um landskjörskosningarnar síðast. Slíkt hafði ákaflega litla þýðingu. Meðan ríkisins hagur er svo þröngur, álít jeg, að nokkuð af þessum skýrslum mætti missa sig. Í fyrra hefði því hæstv. fjrh. ekki átt að bæta manni við, heldur segja við hagstofuna: Hættið að gefa út skýrslurnar, sem okkur varðar ekkert um, og þá hafið þið nægan mannafla til að gefa út þær, sem okkur eru bráðnauðsynlegar.

Í sambandi við skattamálið, sem jeg mun hafa komið fyrst að í ádeilu minni í garð hæstv. fjrh., sagði hann það, að á „eldhúsdaginn“ ætti ekki að „kritisera“ stefnu stjórnarinnar, heldur athafnir hennar. Jeg spyr: Er það ekki athöfn, þegar stjórnin vill leggja svo og svo háan nefskatt á borgarana? Ef hæstv. fjrh. neitar, að það sje athöfn, þá er það að minsta kosti athöfn, þegar yfirvöld Reykjavíkur senda lögregluna heim til fátæklinganna til þess að taka þennan tvöfalda eða þrefalda nefskatt lögtaki. Þessi lögtök á smælingjana verða þó afleiðingin af stefnu stjórnarinnar. Hæstv. fjrh. vildi í þessu máli skjóta sjer bak við sparnaðarnefndina og vildi segja, að hún hefði komið með þetta nýmæli, en stefnumál stjórnarinnar væri það ekki. Hvers vegna ber hún málið fram, ef hún álítur það ekki rjett? Ætli hún álíti sig sem einskonar mylnu, sem tekur á móti því, sem í hana er látið, og skilar því aftur. Jeg lít á hlutverk ríkisstjórnarinnar alt öðrum augum. Annars er það ekki eingöngu á þessu sviði, sem hæstv. fjrh. var að skjóta sjer bak við aðra. Jeg kjem seinna að því, að stjórnin var í gengismálinu að skjóta sjer með enn ákveðnari hætti á bak við gengisnefndina.

En jeg þarf ögn að víkja að tilgangi sjúkratryggingarfrv. til viðbótar því, sem jeg áður hefi sagt. Það voru ekki almennu ákvæðin í því frv., sem jeg var sjerstaklega að finna að, heldur það sjerstaka ákvæði, að velta þeim mikla kostnaði af berklaveikinni yfir á einstaklingana. Það er aðalbreytingin frá því, sem nú er. Þetta hefir ekki einungis verið „kritiserað“ af mjer; mjer er kunnugt um, að einn aðalstjórnarmaður Berklavarnafjelags Íslands er mjög á móti slíkri breytingu.

Um tekjuskattsfrv. átti jeg aðallega við það atriði, að lækka skattinn á fjelögum, sem hafa miklar tekjur. Um það atriði eru mínir flokksmenn í fjhn. algerlega sammála.

Í sambandi við starfsemi þessara hlutafjelaga fanst hæstv. ráðherra við vera svo sammála. Átti jeg vitanlega við það atriði, að lækkaði tekjuskatturinn á stóreignamönnum og stórgróðafjelögum, yrði afleiðingin sú, að hlutfallslega mundi hækka á öllum smærri gjaldendum, og getur þá hæstv. fjrh. (JÞ) betur athugað, hvort við sjeum þar á sama máli.

Hann vildi jafnvel halda því fram, hæstv. fjrh. (JÞ), að við værum sammála um starfsemi hlutafjelaganna. Þó hagaði hann orðum sínum eitthvað á þá leið, að hlutafjelagsfyrirkomulagið skapaði bjargálnamenn og væri eina leiðin til þess, að sem flestir geti tekið þátt í fyrirtækjum og ýmiskonar framleiðslu.

Já, jeg verð nú að segja það, að jeg varð hissa að heyra hæstv. fjrh. syngja hlutafjelagsfyrirkomulaginu slíka lofgerð og dýrð. Honum ætti þó ekki að vera ókunnugt um það, að erlendis telja bestu mennirnir og þeir vitrustu og víðsýnustu, að hlutafjelögin sjeu langskaðlegust fyrir velmegun þjóðanna og afkomu. Þarna skilur leiðir okkar enn, enda erum við ákaflega ósammála um þetta efni, jeg og hæstv. fjrh. Jeg er sammála þessum bestu mönnum erlendis, er telja hlutafjelögin versta átumein þjóðanna, og sem hverfa eigi hið bráðasta.

Og nú vil jeg spyrja hæstv. fjrh., sem virtist telja það hagræði, að sem flestir tækju þátt í framkvæmdunum og rjeðu yfir framleiðslutækjunum: Veit hann ekki, að víða er rekinn samvinnufjelagsskapur til framleiðslu með fullkominni þátttöku allra þeirra, sem að honum standa? Og þekkir hann ekki heldur neitt til annars fjelagsskapar, með þátttöku verkamanna og annara starfsmanna í arði framleiðslunnar? Þekki hann þetta, þá furðar mig á ummælum hans. En mig fær hann aldrei til að dást að hlutafjelagshugsjónum hans; þar skilur leiðir okkar, eins og víðar, því að hlutafjelögin tel jeg hættulegustu leiðina fyrir þessa þjóð að ganga inn á.

Í þessu sambandi fór hæstv. fjrh. þeim lofsamlegu orðum um mig, að mín stefna væri að gera sem flesta efnalega sjálfstæða, en bætti svo við, að þar mundi jeg hafa lýst sjálfum mjer rjett, en stjórn og Íhaldsflokknum ranglega. Um lýsing mína á Íhaldsflokknum er það að segja, að það voru ekki mín orð, er jeg fór þar með, heldur orð annars manns, og það mjög merks íhaldsmanns, er lýsa allra best stefnu flokksins. Hann segir þessi merki íhaldsmaður, að augu íhaldsmanna sjeu mjög föst á buddunni, þeir tími ekki að borga neina skatta og reyni að hliðra sjer hjá því á meðan fært er — þeir vilji heldur engar framfarir, því að gróðavænlegast sje fyrir þá, að alt standi í sama horfinu.

Þetta var það, sem jeg nefndi um stefnu íhaldsmanna, og jeg gerði ráð fyrir, að þessi orð yrðu fremur viðurkend af flokknum heldur en þó að jeg kæmi með lýsingu frá eigin brjósti, vegna þess að þetta er dómur formanns Íhaldsflokksins, hæstv. fjrh. sjálfs, um íhaldsmenn, eins og hann birtist í „Lögrjettu“ fyrir 15 árum. Hæstv. ráðherra verður að gæta þess og muna, að þetta eru ekki mín orð, heldur eru þessi orð eftir hæstv. fjrh. og skoðun hans á íhaldsstefnunni fyrir 15 árum. Og jeg held áfram að láta hann tala, formann Íhaldsflokksins. Hæstv. fjrh. sagði fyrir stundu síðan, að hann fyrirverði sig ekki fyrir að breyta um skoðun. Með öðrum orðum, hann vildi falla frá þeim orðum, er hann hefði sagt og ritað fyrir 15 árum. Hann um það, enda er það ekki nýtt, þó að ýmsir menn í Íhaldsflokknum jeti ofan í sig. Það gerist svo að segja daglega, og sumir gera það allhressimannlega.

Hæstv. fjrh. varð mjög tíðrætt um, að við værum sammála. Hann hefði heldur átt að segja, að við hefðum verið sammála, því að það var rjett. Fyrir 15 árum vorum við sammála; þá vorum við saman í flokki og þá skrifaði jeg með ánægju undir hvert einasta orð, sem þáverandi landsverkfræðingur, Jón Þorláksson, skrifaði í Lögrjettu um stefnu íhaldsmanna. Jeg var tvítugur þá og las með aðdáun alt, sem hann sagði og reit um íhaldsstefnuna. Við vorum flokksbræður, jeg leit upp til hans og við vorum innilega sammála þá.

Og enn stend jeg á þessum sama grundvelli og fyrir 15 árum. Jeg lít sömu augum á íhaldsstefnuna, eða afturhaldsstefnuna, eins og jeg gerði þá. En leiðir okkar hafa skilið, hæstv. fjrh. og mín. Hann hefir nú hlaupið frá fyrri skoðunum sínum, yfirgefið grundvöll þann, er hann stóð á fyrir 15 árum, og öðlast „æðri og betri þekking“, að hann segir. Og öllu forna frjálslyndinu er fórnað fyrir þá tign, að mega kallast formaður Íhaldsflokksins íslenska.

Um gengis- og vaxtamálin get jeg verið stuttorður, enda er þar um svo stórt mál að ræða og yfirgripsmikið, að ekki er rjett að draga það til nokkurra muna inn í þessar umr. Að vísu erum við sammála um einstaka atriði, en þó er fleira, er skilur, og ósammála erum við um meginatriðið: nauðsynina og rjettlætið um vaxtalækkunina. Fyrir mjer er það aðalatriðið, að vextirnir lækki, og jeg hefi margsinnis bent á, að landbúnaðurinn þoli ekki þessa háu vexti, og þess vegna var það, að jeg dró þetta mál inn í þessar umr., að mjer finst stjórnin hafa illa gætt skyldu sinnar í þessu efni. En að sinni verður of langt að rekja mál þetta til þrautar.

Hæstv. fjrh. sagði í þessu sambandi, að jeg skildi ekki hinar djúpvitru ráðstafanir í gengismálinu. Þetta er að sumu leyti rjett. Jeg játa t. d., að jeg skil ekki íhaldsbrjefið fræga, sem stjórn og bankar sendu í haust til allra sveitar- og bæjarstjórna um að brýna fyrir bændum að gera ekki neitt, leggja ekki í neinn kostnað, hvorki til húsabóta eða ræktunar jarða sinna. Jeg skil heldur ekki neitun stjórnarinnar um að stofna búnaðarlánadeild við Landsbankann með einum 250 þús. kr. Það er þó ekki um stóra upphæð að ræða til styrktar landbúnaðinum, þegar litið er á, að samtímis eru keyptir 10 togarar inn í landið fyrir 3–4 miljónir króna. Og svo bætist við, að allir þessir togarar þurfa margar miljónir í rekstrarfje. Já, jeg játa, að jeg skil ekki þessa ráðstöfun stjórnarinnar. Eða ætlast hæstv. fjrh. til, að nokkur trúi því, að allar þessar miljónir — kaupverð þessara nýju togara og rekstrarfje þeirra — sjeu vasapeningar útgerðarmanna og að þeir þurfi ekki að leita til bankanna um lán? Hvernig stendur þá á þessu mikla tapi, sem útgerðarmenn hafa þóst verða fyrir undanfarin ár, ef þeir geta nú dregið upp úr vasanum 4 miljónir króna til þess að kaupa fyrir nýja togara, og ekki minna í viðbót til þess að reka þá? Nei, ráðstöfun stjórnarinnar skil jeg ekki; það skal jeg játa. En hitt er mjer ljóst, að skilningsleysi og stefnuleysi er það, sem einkennir hæstv. stjórn. Og þess vegna er það, að jeg get ekki sætt mig við miskunnarlaust íhald við bændur, en taumlaust eftirlæti við útgerðina um fje til framkvæmda.

Finst nú hæstv. fjrh., að við sjeum sammála? Jeg endurtek þetta: Jeg get ekki sætt mig við, að bændum sje neitað um einar 250 þús. kr. á sama tíma og útgerðarmönnum er veitt 20 sinnum hærri upphæð til togarakaupa. Annars eigum við eftir að deila um þetta síðar, og hverf jeg því frá því í bili. Vaxtalækkunin kemur til umræðu áður en þingi lýkur. vona jeg.

Um búnaðarlánadeildina þarf jeg ekki að tala, enda hefir liv. 1. þm. N -M. (HStef) vikið að því máli í sinni ræðu. Auk þess hefir staðið sá styr um það mál undanfarið, að stjórnin veit orðið hug minn allan. Jeg hefi skrifað látlaust um málið í marga mánuði og staðið í opinberu brjefasambandi við hæstv. atvrh. (MG) um málið. Og jeg hefi felt þann dóm yfir sinnuleysi stjórnarinnar og dæmafáu skilningsleysi hennar á kröfum bænda, að jeg tel óþarft að hlaða þar meiru ofan á að sinni. Við höfum horft á, að tíu nýir togarar voru keyptir fyrir lánsfje bankanna; en bændum er sagt, að þeir geti ekki fengið upphæð, sem er 20 sinnum minni en kaupverð togaranna og rekstrarfje þeirra. Og það er sagt meira við bændur. Þeim er bannað að ráðast í nokkuð það, sem hefir einhvern kostnað í för með sjer. Landbúnaðurinn verður að standa í stað; hann má á engan hátt færa út kvíarnar, vegna þess, að alt lánsfje bankanna er fest í sjávarútveginum.

Hæstv. fjrh. hlýtur víst að finnast, að um þetta mál sjeum við sjerstaklega sammála !

En um eitt mætti ef til vill segja, að við sjeum sammála. Við höfum báðir nú á þessu þingi borið fram frv. — ekki þó saman, heldur hvor í sínu lagi — sem bæði miða að því sama, að veita bændum lán, er segja megi um, að þeir geti notað.

Í fyrra bar jeg fram frv. um búnaðarlánadeildina, sem jeg viðurkendi strax, að væri ekkert framtíðarskipulag, enda ætti hún að hverfa inn í fasteignabankann, er hann tæki til starfa, en frv. það var borið fram til þess að tryggja bændum í bili betri lán og með lægri vöxtum en bankarnir vildu þá veita. Og nú ber jeg aftur fram frv., er miðar að því sama, það er að gera bændum fært að ráða við vaxtakjörin, að bændur geti fengið lán með aðeins 1% hærri vöxtum en sparisjóðsvextir eru nú.

Hæstv. fjrh. vill líka veita bændum lán, en hann segir bara, að það sjeu engir peningar til og fáist ekki nema með sölu vaxtabrjefa. Yrði að því ráði horfið, yrðu vextirnir einhverstaðar á milli 7–8% og afleiðingin sú, að ekkert gagn yrði að þeirri ráðstöfun. Með frv. stjórnarinnar er því bændum sýnd gæsin, en ekki gefin, því að eftir því er ekkert viðlit fyrir þá að geta notað lánin: peningarnir verða þeim of dýrir.

Hæstv. fjrh. vill vera mjer sammála í orði, en svo nær það ekki lengra; þegar á á að herða, er svo margt, sem skilur, líka í þessu efni.

Að lokum vildi jeg benda hæstv. fjrl. á það, að í gær fór fram fyrsta yfirheyrslan um gerðir og ráðstafanir stjórnarinnar. Nú hefir hæstv. forsrh. (JM) upplýst um það, að við fyrstu yfirheyrslu komi sjaldnast alt fram í málinu. Þess vegna held jeg yfirheyrslunni áfram um stund, og leyfi mjer að spyrja hæstv. fjrh. um nokkur atriði, sem jeg vildi vita, hvort við erum sammála um.

Þá spyr jeg, og er fyrsta spurningin þessi:

Vill hæstv. fjrh. stefna að því í skattamálum að afnema alla nefskatta og tolla, sem á einhvern hátt geta talist nefskattar og koma illa niður á almenningi — en setja í staðinn háa tekjuskatta, t. d. 60–80% af tekjum, er nema um 100 þús. kr., og afla með því móti þeirra tekna, er ríkissjóður þarfnast !

Vilji hann þetta, þá erum við sammála. Í öðru lagi spyr jeg hæstv. fjrh.:

Vill hann í gengismálinu og vaxtamálunum veita bönkunum fullkominn stuðning, svo að gengi peninga verði stöðugt og fast, og vill hann bera fram þá kröfu, að bankarnir lækki útlánsvexti sína, fyrst niður í 7% og svo fljótt sem hægt er ofan í 6%.

Vilji hann þetta, þá erum við sammála.

Í þriðja lagi spyr jeg hæstv. fjármálaráðherra, hvað hann vilji gera fyrir landbúnaðinn. Vill hann t. d. bræða saman þessi tvö frv., sem við höfum borið fram, og stuðla að því ásamt mjer að koma á fót lánsstofnun handa bændum, þar sem lánskjörin verði jafngóð og í búnaðarlánadeildinni, eða að vextirnir verði aldrei hærri en 1% ofan við sparisjóðsvexti ? — Og vill hann styrkja bændur í því, að koma, upp íshúsum við stærstu útflutningshafnirnar í sambandi við kæliskipið, til þess að bæta markaðinn fyrir sauðakjöt o. fl. og margfalda tekjur bændanna í samanburði við það, sem nú er ?

Ef hæstvirtur fjármálaráðherra lýsir því yfir, að hann vilji gera þetta, þá skal jeg ekki bera á móti því, að við sjeum sammála, og það á stórum sviðum.

Og nú vænti jeg svars hæstv. fjrh.; ekki þó með því leyfi, sem hæstv. forsætisráðherra (JM) segir, að menn hafi til að segja ósatt við fyrstu yfirheyrslu. Heldur vænti jeg þess, að hann gefi full svör og skýr, enda hefi jeg sagt honum það til hróss, og segi enn, að jeg álít hann ljósan í orðum og þann af ráðherrunum, er helst þorir að segja meiningu sína.

Að lokum er svo eitt atriði eftir, sem mjer þykir hlýða að svara í þessu sambandi.

Hæstv. fjrh. sagði, að jeg og hæstv. forsrh. værum sammála. En hann nefndi ekki nema eitt dæmi; hann sagði, að hæstv. forsrh. og jeg værum sammála í bannmálinu; við værum báðir miklir bannvinir. Um þetta mætti segja hið sama eða nokkuð svipað og jeg sagði um fyrri flokksafstöðu okkar hæstv. fjrh. Við vorum einu sinni saman í flokki, hæstv. forsrh. og jeg, og við vorum lengur flokksbrœður en hæstv. fjrh. og jeg. Og það er ekki svo ýkjalangt síðan við unnum að bannmálinu í bróðerni. Og nú skal jeg gera þá persónulegu játningu, að það málið, sem fyrst og glegst opnaði augu mín fyrir því, að hæstv. forsrh. og jeg gætum ekki átt samleið, var skoðun mín og hans á bannmálinu. Framkoma hans í bannmálinu, fyrst sem bæjarfógeta og síðar sem ráðherra, sýndi það, að leiðir okkar gátu ekki legið saman. Milli skoðana okkar reyndist í framkvæmd það regindjúp staðfest, að við gátum ekkert haft saman að sælda. En út í það fer jeg ekki frekar.

Hœstv. fjrh. sagði, að hæstv. forsrh. hefði gert meira fyrir bannið en nokkur annar bannmaður. Um það erum við ekki fremur sammála en um svo margt annað, sem jeg hefi nú talið. Mín sannfæring er sú, að það hafi verið ógæfa bannmálsins, að þessi maður skyldi vera bæjarfógeti hjer á þeim árum, er bannið kom fyrst til framkvæmdar, og það var óhamingja þessa lands sem bannlands, að þessi maður skyldi síðar verða dómsmálaráðherra.

Hæstv. forsrh. hafði góða aðstöðu til þess að bjarga þessu máli til sigurs, hefði hann verið bannmaður. En hann var það ekki og vildi ekkert fyrir það gera, enda hefir enginn maður unnið því meiri skaða að mínu áliti.

Íslands óhamingju verður alt að vopni.