07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1926

Þorleifur Jónsson:

Mjer þykir leitt, að hæstv. atvrh. (MG) er nú svo langt í burtu, að hann getur ekki heyrt mál mitt út af athugasemdum hans við brtt. XV á þskj. 290, um aukinn styrk til bátaferða. Háttv. frsm. fyrri kaflans (ÞórJ) talaði að vísu svo vel fyrir þessari brtt., að óþarfi er að bæta þar miklu við, en mig langaði til þess að víkja nokkrum orðum að hæstv. atvrh.

Við 2. umr. fjárlagafrv. bar jeg fram brtt. um 10 þús. kr. styrk til Hornafjarðarbáts. Hv. frsm. samgmn. (SvÓ) óskaði, að jeg tæki hana aftur þangað til sjeð væri, hvernig færi um hækkun þá til bátaferða, er hv. samgmn. fór fram á. Háttv. samgmn. gerði ráð fyrir, að Hornafjarðarbáturinn fengi 4000 kr. styrk, en háttv. frsm. og ýmsir aðrir litu samt svo á, að þetta væri hið minsta, er um gæti verið að ræða, og þyrfti því að hækka styrkinn.

Þessi brtt., sem hjer er um að ræða, er miðuð við það, að styrkur til þessa báts verði hækkaður upp í 7–8 þús. kr. Og eins og jeg tók fram við 2. umr. þessa máls, þá er ekki hægt að bæta úr samgönguvandræðunum þar eystra með 4000 kr. Þetta, sem hjer er farið fram á, er hið allra minsta, sem komist verður af með, og þykir mjer vænt um, að tveir hv. þm. úr samgmn. hafa talað vel fyrir brtt.

Í sambandi við þetta — og til þess að sýna hv. þdm., að hjer er ekki ofmælt um það, hve háan styrk þarf, — skal jeg geta þess, að hjer í bænum er nú staddur maður frá Austfjörðum, og á hann mótorbát, sem er vel hæfur til flutninga. Jeg hefi átt tal við þennan mann og spurt hann að því, hvort hann mundi vilja taka að sjer ferðirnar milli Hornaf jarðar og Austfjarða frá því fyrst í maí og fram í júlí, og svo frá miðjum september til októberloka. Kvaðst hann viljugur til þess að gera það fyrir 7–8 þús. kr. styrk. Af þessu sjer maður, að það er ekki hægt að komast af með litla fjárupphæð, ef nokkur bót á að verða á samgöngunum. Helst þyrfti styrk til þess að halda þarna uppi stöðugum ferðum frá því í mars og til októberloka, ef vel ætti að vera. En þó tel jeg enga frágangssök að semja um bátaferðir þannig, að þær sjeu strjálli um hásumarið, enda mun erfitt að fá bát um síldveiðitímann. En á vorin og seinni hluta sumars er bráðnauðsynlegt að hafa stöðugar samgöngur milli hafnanna þarna eystra.

Undanfarin ár hefir sýslunefnd Austur- Skaftafellssýslu ráðstafað styrk þeim, sem veittur hefir verið til bátaferða þarna, en það gæti líka vel komið til mála, að sýslunefndir Múlasýslna hefðu þar hönd í bagga með, ef um verulegan styrk er að ræða. En jeg vil láta þess getið, að verði þessi brtt. um hækkun á styrk til bátaferða samþykt, þá lít jeg svo á, að hæstv. stjórn sjeu gefnar frjálsar hendur og að vilyrði sje gefið fyrir því, að varið skuli líkum styrk til Hornafjarðarbátsins í ár eins og þeirri upphæð nemur, sem veitt er til ferðanna 1926.

Jeg hefi viljað fara hóglega í þetta mál, til þess að fá samkomulag um það. Vona jeg, að allir sjái, að hjer er ekki fram á mikið farið, þegar tillit er tekið til þarfa og nauðsynja þeirra hjeraða, sem eiga að njóta góðs af bátaferðum þessum. Á þingmálafundum í A.-Skaftafellssýslu var farið fram á miklu hærri upphæð en hjer er gert, en hjeruðin mundu þó þykjast góðu bætt, ef þau fengju þennan styrk, heldur en ekkert.

Það getur verið, að ýmsir háttv. þdm. sjeu þeirrar skoðunar, að þörfin sje ekki eins brýn og jeg hefi haldið fram. En það stafar þá af því, að þeir eru ókunnugir öllum staðháttum á Austurlandi. Jeg skal hjer geta um eitt dæmi um samgöngurnar þar eystra. Í ágústmánuði í fyrra voru sendir frá Hornafirði til Akureyrar 10–20 „ballar“ af ull, sem tóvinnuverksmiðjan Gefjun átti að kemba í lopa. Verksmiðjan sendi ullina aftur suður til Fáskrúðsfjarðar með seinustu ferð Esju í október í haust, og þar situr hún enn, því að þá var lokið öllum ferðum milli Hornafjarðar og Austfjarða. Í vetur hefir því kvenfólk í þessum sveitum ekkert haft að tæta og orðið að sitja auðum höndum, og sjá allir, hve heppilegt þetta er.

Til þessa tíma hafa engar ferðir fallið milli Austfjarða og Hornafjarðar, nema hvað Þórhallur Daníelsson kaupmaður hefir haft bát í förum fyrir sjálfan sig. En það er ekki að búast við því, að einstakur maður geti haldið uppi þeim ferðum styrklaust ár eftir ár. Vona jeg því, að hv. þdm. fylgi þessari brtt. og sjái, að það er bráðnauðsynlegt fyrir hjeraðið að fá þessa samgöngubót.

Þá voru það nokkur orð, sem jeg vildi segja við hæstv. atvrh. Mjer heyrðist hann segja, að óvíst væri, hvað Hornafjarðarbáturinn fengi, þótt brtt. mín yrði samþykt. Ljet hann þess getið, að samgmn. hefði ekki ætlað þessum bát meira en 4000 kr., og hún myndi þó hafa haft betri tök á að rannsaka alt slíkt heldur en fjvn. En það er nú svo, að betur sjá þó augu en auga, og svo er hitt, að jeg er kunnugastur þeim samgönguvandræðum, sem Hornfirðingar hafa við að búa, og var því ekki svo mikil furða, þótt hv. fjvn. tæki nokkurt tillit til tillagna minna um þetta mál. Og er jeg auðvitað þakklátur hv. nefnd fyrir það.

Hæstv. atvrh. sagðist ekki vera bundinn við ákveðnar upphæðir, þótt þessi brtt. yrði samþykt. Jeg skal játa það, að það er ekki auðvelt fyrir þingmenn að binda hendur hæstv. stjórnar í þessu máli, því að ef hún leti sig engu skifta hag þeirra hjeraða, sem verst eru stödd í þessu tilliti, þá væri ekki hægt að gera neitt við því. En jeg er svo bjartsýnn, að jeg vona, að hún sýni okkur rjettlæti eins og öðrum. Þessi hækkun til bátaferða hefir verið svo skýrð af frsm. fjvn., að hún eigi að ganga til Hornafjarðarbátsins, og vænti jeg þess því, að hæstv. stjórn taki það til greina og láti okkur njóta þess.

Í fjárlögum þessa yfirstandandi árs kom jeg fram fjárhækkun til bátaferða þar eystra, og væri ekki ósanngjarnt að ætlast til þess, að hæstv. stjórn ljeti bátinn nú njóta þess styrks, sem þá var ákveðinn. Að öðru leyti tel jeg ekki nauðsynlegt að fara fleiri orðum um þetta mál, því að jeg treysti hv. deild til að samþykkja þetta, og verð að treysta hæstv. stjórn til þess að skifta styrknum þannig, að miðað verði við tillögur þær, sem jeg hefi komið með.