07.03.1925
Efri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

61. mál, vörutollur

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Breyting sú á vörutollslögunum, sem hjer er farið fram á, er í því fólgin að færa nokkrar vörutegundir undir 2. lið 1. gr. þessara laga, sem áður hafa ranglega verið heimfærðar undir 7. fl. Nú er það svo, að allmikill munur er á tolli samkv. 2. lið 1. gr. og 7. fl., og virðist öll sanngirni mæla með því, að þessar vörutegundir sjeu færðar til og settar í sama flokk og aðrar samskonar nauðsynjavörur. Nefndin hefir athugað þetta mál og leggur einróma til, að frv. verði samþykt.