07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. síðari kafla (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg ætla að reyna að fylgja dæmi hv. frsm. fyrri kaflans (ÞórJ) og vera stuttorður. Hinsvegar geri jeg ráð fyrir, að mjer takist ekki að ljúka máli mínu á jafnskömmum tíma og hann, enda brtt. fleiri í þessum síðari kafla.

Um brtt. nefndarinnar hefir mjög lítið verið rætt af einstökum þm. Má því skoðast sem svo, að þögn sú, er um þær hefir verið, sje sama og samþykki, svo að jeg þarf ekki að eyða löngu máli um þær.

Það eru aðallega málhreinsunartillögur nefndarinnar, er sætt hafa nokkrum andmælum. Hv. 2 þm. Rang. (KIJ) mælti á móti þessum nafnabreytingum, en kvaðst þó að ýmsu leyti vera nefndinni sammála. Hann vildi ekki leyfa að láta taka upp fáránleg nöfn, eins og t. d. að kalla Einar skáld Hjörleifsson Einar Kvaran. Hv. 2. þm. Rang. er líka mikill ættfræðingur og skilur, hvað hjer er í húfi, ef mönnum á að haldast uppi að villa á sjer heimildir ættfræðilega. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) var einna þungorðastur um þessar brtt. nefndarinnar, og var það ekki nema það, sem búast mátti við, eftir framkomu hans áður, er mannanafnafrv. var hjer á ferðinni; en honum sleppi jeg samt í bili og kem að honum síðar.

Þá var það hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), sem gerði Skutilsfjarðareyri að umtalsefni. Það mun líklega rjett hjá honum, að tíðara sje að nefna Eyri við Skutilsfjörð en Skutilsfjarðareyri, og líklega eldra og rjettara. En það var annað, sem jeg hjó eftir hjá honum í sambandi við þetta mál. Hann sagði, að aldrei væri skift um nöfn nema með samþykki þeirra manna, er hlut ættu að máli, og vildi því láta Ísfirðinga skera úr um þetta mál. En það er einmitt það, sem ekki hefir verið gert í upphafi. Það eru Danir, sem hafa tekið það upp hjá sjálfum sjer að kalla Eyri við Skutilsfjörð Ísafjörð eða Isafjord, og án þess að leita samþykkis þeirra manna, er hlut áttu að máli. Hjer er því ekki um annað að ræða en að færa til íslensks máls fornt og rjett nafn, sem Danir hafa afbakað. Annars skildist mjer, að hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) væri þessu ekki mótfallinn, og svo munu fleiri verða vestur þar.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) ætlaði að halda dómadagsræðu, að mjer skildist, bæði smellna og fyndna, en enginn varð var við púðrið og ræðan öll sauðmeinlaus. Hv. þm. Dala. (BJ) hefir tekið af mjer ómakið og svarað því, sem svara þurfti, Annars var hv. 4. þm. Reykv. að miklast yfir því, að þetta hefði verið eina ræðan, sem hann hefði flutt í fjárlögunum. Átti það víst að sanna sparnað hans á landsfje, þótt undarlega væri þar að orði komist. En brosleg var sú staðhæfing hans, að Alþingi hefði ekki leyfi til að veita þeim andans mönnum styrk, sem kendir væru í brtt. til feðra sinna, eða jafnvel, að styrkurinn yrði ekki sóttur af þeim, vegna þess að nafni þeirra Væri breytt. Ef Alþingi hefir ekki leyfi til þess að veita Theódóru Guðmundsdóttur eða Einari Hjörleifssyni styrk, eða hverjum öðrum þeim manni, sem er rjett feðraður, og afleiðingin yrði sú, að styrkurinn yrði ekki hafinn, þá væri aðeins um sparnað fyrir ríkissjóð að ræða, og hann ekki svo lítinn. Ekki hræðist jeg þær afleiðingar.

En nú geri jeg ekki ráð fyrir, að svo verði. En sje það sama og að vera settur á svarta listann, að taka upp ættarnöfn, þá skal jeg að minsta kosti ekki lasta það.

Jeg mun þá ekki lengur dvelja við till. nefndarinnar, en snúa mjer að brtt. einstakra þm. Mun jeg taka þær í þeirri röð, sem þær eru í á þskj. 290.

Verður þá fyrst fyrir mjer brtt. frá hæstv. fjrh. (JÞ), um hluta ríkissjóðs af lífeyrisgjaldi presta. Nefndin hafði ekki athugað málið, en nú hefir hæstv. fjrh. gefið upplýsingar um það, sem jeg tel víst, að verði taldar fullnægjandi.

Þá kemur till. frá hv. þm. Dala. (BJ), um Vá styrks til stúdentagarðs í Reykjavík. Mun sú till. eiga litlu gengi að fagna, enda er allur meiri hl. fjvn. henni andvígur, eins og sakir standa. Jeg mun síðar víkja að till. um ríkisábyrgð fyrir stúdentagarðinn. Skal jeg geta þess, að meiri hl. nefndarinnar er líka andvígur þeirri till., enda þótt um hana sjeu óbundin atkvæði.

Kemur þá till. frá hv. þm. Múlasýslna um styrk til Eiðaskólans. Hefi jeg ekkert um hana að segja, nema að nefndarmenn hafa óbundin atkvæði um hana.

Þá er till. frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um að hækka styrk til iðnskólans. Meiri hl. nefndarinnar er andvígur till. þessari, en gögn öll lágu þó fyrir nefndinni.

Næsta brtt. er frá hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), og fer hún fram á að hækka styrk til samvinnu- og verslunarskólanna. Nefndin er klofin um till. þessa og atkv. óbundin.

Þá er brtt. frá hv. 2. þm. Eyf. (BSt) og hv. þm. Barð. (HK) um fjárveitingu til að reisa barnaskóla utan kaupstaða. Höfðu þessir þm. áður flutt brtt. hvor í sínu lagi, en hafa nú sameinast. Nefndin leggur öll á móti brtt. þessari.

Þá er næsta brtt. einnig afturganga, um styrk til kvöldskóla verkamanna, frá hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Meiri hl. nefndarinnar er á móti, en annars eru óbundin atkvæði.

Næst er till. frá hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um að hækka styrk til húsmæðraskóla um 500 kr. Fjvn. lagði til að veita í þessu skyni 2000 kr., en er andstæð hækkun, eins og við 2. umr.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) flytur brtt. um 2000 kr. styrk til sundlaugarbyggingar og varatill. um 1850 kr. Fjvn. vill veita fastan styrk í þessu skyni í fjárlögunum, og getur því ekki fylgt brtt. þessum. Hv. flm. brtt. (JAJ) hefir mælt röksamlega fyrir henni, og persónulega er jeg henni hlyntur, en nefndin hefir þó lagt á móti henni.

Kemur þá till. frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) jeg fleirum um styrk til Fornleifafjelagsins. Jeg man ekki eftir, að umsókn lægi fyrir nefndinni um styrk þennan, en í nefndinni eru óbundin atkvæði um hann.

Sama er að segja um brtt. frá hv. þm. Dala. (BJ), sem fer fram á styrk til Guðbrands Jónssonar, að um hana eru óbundin atkv., en meiri hl. leggur á móti.

Hv. sami þm. (BJ) flytur og brtt. um 4500 kr. styrk til að gefa út vísindarit á tveggja alda afmæli Eggerts Ólafssonar Enda þótt æskilegt hefði verið að verða við þessu, leggur þó allur meiri hl. nefndarinnar á móti.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) flytur þá till um að hækka styrk til Frímanns Arngrímssonar um 400 kr. Nefndin leggur á móti þessu, af því að hún telur víst, að fleiri slíkar hækkanir muni á eftir fara. Nefndin lætur afskiftalausar till. þriggja þm. Austfjarða og Vestfjarða um skiftingu styrksins til alþýðufræðslunnar.

Þá kemur brtt. frá minni hl. fjvn. (BJ) um tvöföldun á styrk til búnaðarfjelaga Reynir hv. þm. Dala. (BJ) að slá sig þar til riddara með sínu eigin priki og þykist standa vel að vígi. Vildum við víst allir nefndarmenn gjarnan fylgja þessari tillögu, en það varð að samkomulagi að láta aðrar tillögur um fjárframlög til landbúnaðarins sitja fyrir.

Þá flytur hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) till. um fjárveitingu til áhaldakaupa og aukningar starfrækslu efnarannsóknarstofunnar. Nefndinni var ókunnugt um þetta mál, uns brtt. kom fram. Nefndin álítur, að slíka till. sem þessa um fjárveitingu til opinberra stofnana eigi stjórnin sjálf að bera fram, og æskir þess, að hún geri það, ef um þörf er að ræða.

Þá kemur brtt. frá sjútvn. um að hækka fjárveitingu til eftirlits með skipum. Býst jeg við, að nefndin fallist á þá till.

Hv. þm. Árn. (MT og JörB) flytja till. um hækkun á styrk til bryggjugerðar. Hafa þeir talað við fjvn., og hefi jeg leyfi til að lýsa yfir fyrir hönd nefndarinnar, að hún sje málinu hlynt.

Þá kemur brtt. frá hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) um fjárveitingu til lendingarbóta í Grindavík. Var önnur till., er gekk í sömu átt, flutt við 2. umr. af hv. þm. Dala. Hv. 1. þm. G.-K. hefir sýnt fram á, að menn þar syðra hafi beðið mjög tilfinnanlegt tjón. En fjvn. vill leggja áherslu á, að þegar um slíkar fjárveitingar sem þessa er að ræða, þá verður jafnan nokkur hluti fjárins að koma frá hlutaðeigandi hjeraði. Fjvn. lítur svo á, að ekki sje fremur ástæða til að veita styrk þennan í Grindavík en á Eyrarbakka, og auk þess vanti málið þann undirbúning, sem nauðsynlegur sje.

Þá eru till. frá meiri og minni hl. fjhn. um styrk til mjólkurverksmiðjunnar Mjallar í Borgarfirði. Báðar fara till. fram á 8000 kr. styrk, en minni hl. gerir að skilyrði, að verksmiðjan njóti ekki sjerstakrar tollverndar. Finst mjer, að þeir, sem vilja styrkja verksmiðjuna, geti sætt sig við að greiða till. meiri hl. atkv., með því að ákvæðið um tollinn verður útkljáð á öðrum vettvangi.

Þá flytur hv. þm. Mýra. (PÞ) brtt. um fjárveitingu til að gera tvo fossa í Norðurá laxgenga. Hafði hann áður farið fram á að fá helming kostnaðar, en nú þriðjung. Er það í samræmi við það, sem veitt var í fyrra til að gera annan foss í Borgarfirði laxgengan. Mun nefndin geta fallist á þessa till.

Þá flytur hv. 3. þm. Reykv. (JakM) till. um að veita Þorvaldi Egilson 1500 kr. til að nema hænsnarækt til fullnustu. Nefndin hafði skjöl um þetta til yfirlits og fanst allar fyrirætlanir þessa manns vera allmjög í lausu lofti, og getur því ekki mælt með styrkveitingunni.

Þá ber hv. 2. þm. Reykv. (JBald) fram á ný till. um styrkveitingu til styrktarsjóðs verkamannafjelaganna. Nefndin telur enn sem áður rjett að bíða með þetta, því að ef frv. það um slysatryggingar, sem nú liggur fyrir, verður samþykt, þá ljettir það mikið undir með styrktarsjóði þessum.

Hæstv. fjrh. flytur till. um að taka lífeyri fyrv. skrifstofustjóra Einars Þorkelssonar upp í fjárlög. Hjer er um lögmælt útgjöld að ræða, og er því sjálfsagt, að þessi liður komi inn í fjárlögin.

Þá flytur hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) till. um, að ríkið ábyrgist 120 þús. kr. lán fyrir Búðahrepp. Þetta hefir nefndinni ekki gefist tækifæri til að athuga, og get jeg ekki lýst afstöðu hennar.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) flytur till. um, að stjórninni sje heimilað að kaupa húsin á Torfastöðum í Biskupstungum, sem eru eign prestsins þar. Hefir hæstv. atvrh. (MG) stutt þessa till. Jeg hefi áður minst á, að biskup hefir lagt til, að þetta mál yrði ekki lagt fyrir þingið, þar sem vani væri að afgreiða slík mál administrativt. Væri til þess fje í kirkjujarðasjóði. Vildi jeg því leggja til, að till. væri tekin aftur.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) flytur till. um ríkissjóðsábyrgð á 30 þús. kr. láni fyrir tóvinnufjelag Vestur-Ísfirðinga. Um þessa till. eru óbundin atkv. í nefndinni.

Þá fer og hv. þm. Ak. (BL) fram á ríkisábyrgð á 150 þús. kr. láni fyrir Akureyri til hafnarbóta. Nefndin hefir ekki getað fengið nægilegar upplýsingar um þetta mál, og get jeg því ekki lýst afstöðu hennar.

Síðustu brtt. á þskj. 290 á hv. þm. Dala. (BJ). Hefir hann átt í orðakasti við hæstv. fjrh. út af henni, og held jeg, að mjer sje óhætt að segja, að meiri hl. fjvn. hallist að skoðun hæstv. fjrh.

Kem jeg þá að þskj. 299. Verður þar fyrst fyrir till. hv. 2. þm. Rang. (KIJ). Frá Búnaðarfjelaginu lágu fyrir mjög ákveðnar till. um þetta mál. Meiri hl. treystir sjer þó ekki til að vera því fylgjandi. Annars eru óbundin atkvæði um málið, og fyrir mitt leyti hefi jeg tilhneigingu til að vera því fylgjandi, enda á jeg sæti í stjórn Búnaðarfjelags Íslands, er bar þetta mál upp.

Hv. 2. þm. Árn. á næst till. um hækkaðan styrk til Skeiðaáveitunnar. Nefndin stóð á þeim grundvelli í máli þessu, að skipulagi yrði að koma á fjárreiður fyrirtækisins og að bændur sýndu fullan vilja á að standa við skuldbindingar sínar, áður en farið er að veita frekari hjálp.

Lengra vill fjvn. ekki ganga. Hún leggur á móti því, að veittar verði þegar á næsta ári 6 þús. kr. til þessa. En hinsvegar vill nefndin, ef staðið er við þau skilyrði, sem hún vill setja, að komið verði fullkomnu skipulagi á fjárreiður fyrirtækisins, þá verði byrjað árið 1927 að greiða þetta tillag, jafnhátt. Milli fjvn. annarsvegar og tillögumanns og hæstv. atvrh. hinsvegar ber ekki annað en það, að fjvn. vill ekki, að byrjað sje á þessari greiðslu fyr en árið 1927. Hún gerir þær kröfur til aðilja þessa fyrirtækis, að þeir komi því fjárhagslega á heilbrigðan grundvöll, og þá verði veittar til þess 6 þús. kr. á ári í 5 ár.

Næst er till. hæstv. forseta (BSv) um fjárveitingu til lendingarbóta á Skálum á Langanesi. Nefndin hefir engin skjöl sjeð þessu viðvíkjandi, og hæstv. forseti (BSv) er veikur, svo að hv. deild hefir ekki gefist, og gefst sennilega ekki nú við þessa umræðu, kostur á því að heyra röksemdir hans fyrir þessari fjárveitingu. Nefndin hefir því ekki tekið neina afstöðu til þessarar tillögu.

Þá ber jeg hjer fram till. um að veita ungum pilti styrk til þess að ljúka námi í vegagerð. Fjvn. leggur á móti þessar till., bæði af því að hún vill halda spart á fje, og líka vegna þess, að vegamálastjóri lýsti því yfir, að þessi piltur hefði ekki verið neitt í samvinnu við sig um námið, og taldi því ekki næga tryggingu fyrir því, að hann hefði gengið í þá skóla, sem vera ætti. Hinsvegar leyfi jeg mjer sem þm. að mæla með þessum pilti. Mjer er kunnugt um það, að hann er duglegur námsmaður og þori að segja, að hann muni nota þennan styrk vel. Jeg lít svo á, að ekki sje síður þörf á að fá mentaða menn í þessu efni en ýmsum öðrum.

Þá er till. frá hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) um að hækka styrkinn til Lúðvíks Jónssonar vegna umbóta á verkfærum úr 3 þús. í 5 þús. kr. Nefndin vill veita þessum manni 3 þús. kr., en jeg held, að hún sje öll á móti því að veita 5 þús. kr. Hinsvegar veit jeg, að alt, sem hv. þm. (ÁJ) sagði um þennan mann, er rjett. Hann hefir fengið prýðilega mentun á þessu sviði. En jeg skal segja það fyrir mitt leyti, að jeg er principielt á móti því að fara inn á þessa braut. Það er kunnugt, að til er prestur vestur á Barðaströnd, sem fundið hefir upp umbót á sláttuvjelum, og víðsvegar um land eru menn, sem fundið hafa ýmsar slíkar umbætur á verkfærum. En það er regla t. d. Búnaðarfjelagsins að verðlauna ekkert slíkt fyr en fullreynt er, að það komi að gagni. Við, sem viljum gera miklar kröfur um styrki til landbúnaðarins, verðum jafnframt að gera kröfur um tryggingu fyrir því, að þessu fje sje vel varið. Og það á að vera eitt af verkefnum Búnaðarfjelags Íslands að leggja úrskurð á um slíkt og styrkja slíkt, ef til kemur. Þetta segi jeg frá mínu eigin brjósti. En meiri hluti fjvn. vill veita þessum manni 3 þús. kr. styrk.

Þá hefi jeg ekki fleira að segja sem frsm. fjvn. En að lokum vildi jeg beina fyrirspurn til hæstv. fjrh. (JÞ) vegna till. hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um fjárveitingu til landsspítala, sem jeg hefi enn ekki tekið fulla afstöðu til. Það, sem jeg vil spyrja hæstv. fjrh. um, er þetta: Er það fullráðið að drepa landsverslunina, til þess meðal annars að til falli á árinu 1926 11/2 miljón kr. eða meira af varasjóði þessarar stofnunar? Og ætlar þá hæstv. stjórn, eins og mjer fanst mega ráða af ræðu hæstv. fjrh., að nota sjer þá heimild, sem hún hefir í lögum um ýmsar framkvæmdir, til þess að leggja fram meira eða minna fje til þess að reisa landsspítala ?

Jeg hefi þessa fyrirspurn ekki lengri. En jeg skal bæta því við, að ef sá grunur minn er rjettur, að þetta eigi að gera, þá vil jeg fyrir mitt leyti heldur fylgja þeirri reglu, sem hæstv. fjrh. hefir líka tjáð sig alment fylgjandi, að fá þessa fjárveitingu heldur inn í fjárlögin.

Hæstv. fjrh. ræður náttúrlega, hverju hann vill svara þessu. En jeg endurtek það: ef þessi grunur minn er rjettur, þá eigi fjárveitingin að koma inn í fjárlög.