02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2377 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

61. mál, vörutollur

Jón Sigurðsson:

Jeg á, ásamt fleiri hv. þm., brtt. á þskj. 239, og enda þótt hv. fjhn. leggist allþungt á móti henni, þá vildi jeg þó fara um hana nokkrum orðum.

Innflutningur á útlendu heyi, einkum norsku, fer stöðugt vaxandi hingað til lands, og veldur þar talsvert miklu, að útlent hey mun nú vera öllu ódýrara en innlend taða, en það mun aftur að miklu leyti stafa af því, hversu gengi norsku krónunnar er lágt. Njóta Norðmenn þar lággengisins og eiga þess vegna ljettara um vik í samkepninni við innlenda framleiðslu að þessu leyti.

Við flm. brtt. á þskj. 239 teljum innflutning á útlendu heyi með öllu óeðlilegan og jafnvel skaðlegan. Hann er óeðlilegur vegna þess fyrst og fremst, að venjulega er nóg hey til í landinu, þó að stundum kunni að virðast vera hörgull á því. Enn það stafar oftast ekki af því, að heyið sje í raun og veru ekki til í landinu, heldur af hinu, að kaupendur og seljendur finna ekki hvorir aðra. Öll heysala fer hjer enn fram í fullu skipulagsleysi. Hver, sem hey á og vill selja, hokrar í sínu horni, ef svo mætti að orði komast. Hann gerir lítið sem ekkert til þess að bjóða heyið til sölu, svo að fáir vita, að hann hefir hey á boðstólum, nema nágrannar hans og nánustu kunningjar. Er því ekki nema eðlilegt, að honum gangi illa að hitta kaupendur. En ef greitt er fyrir heysölu innanlands, þá verður afleiðingin sú, að bændur, sem hafa hey aflögu, mynda með sjer framleiðslufjelög til þess að annast sölu þess. Þetta er eðlilegasta leiðin, því þá vita kaupendur, hvert þeir eiga að snúa sjer, þegar þá vantar þessa vöru.

Jeg sagði, að innflutningur á heyi væri óeðlilegur, vegna þess, að oftast væri nóg hey til í landinu sjálfu. Nú sem stendur er mjer t. d. kunnugt um, að talsverðar heybirgðir munu vera til sölu, bæði uppi í Borgarfirði, sumstaðar norðanlands og víðar; en menn geta samt sem áður ekki selt, vegna skipulagsleysis á sölunni og svo af því, að menn taka jafnvel útlent hey fram yfir. Ef þessu heldur áfram og innflutningur á útlendu heyi vex hröðum fetum, þá dregur það mjög úr heyframleiðslu innanlands. Þegar menn geta fengið útlenda heyið ódýrara, er ekki von, að menn vilji leggja í mikinn kostnað til þess sjálfir að framleiða hey úr skauti jarðarinnar.

En mjer sýnist hjer vera farið eftir undarlegri tollmálastefnu. Við leggjum tolla á rúgmjöl og hveiti. Við tollum sementið, sem við flytjum inn til þess að geta reist skýli yfir höfuð okkar. Við tollum kol, sem okkur er nauðsynlegt að flytja inn, m. a. til þess að við ekki króknum úr kulda. Allar þessar vörur og langtum fleiri, sem háir tollar hvíla á, getum við ekki framleitt hjer í landinu, hversu fegnir sem við vildum.

En útlent hey má ekki tolla, og þó er hey svo að segja eina vörutegundin, sem við getum framleitt úr skauti jarðarinnar í stórum stíl. En hjer eiga útlendingar að hafa frjálsar hendur í samkepni við innlenda framleiðslu. Þetta sýnist mjer fremur hjákátleg stefna í tollmálum.

Jeg skal ekki neita því, að fyrst í stað gæti tollur þessi komið lítið eitt óþægilega niður, einkum á einstöku kauptúnum. En það yrði ekki nema rjett snöggvast. Jeg er viss um, að fljótt mundi koma skipulag á heysöluna innanlands, eins og sölu annara innlendra vörutegunda. Og mjer sýnist útilokað, að menn þurfi að óttast, að verð á innlendu heyi mundi keyra úr hófi fram, því seljendur eru margir, og því yrði framboðið mikið og verðið þar af leiðandi lægra, samkvæmt almennum viðurkendum reglum. Og enda þótt framleiðendur mynduðu fjelagsskap um sölu á heyinu, sem mjög er líklegt, eins og jeg drap á áðan, þá er altaf fjöldi manna, sem stendur utan við allan slíkan fjelagsskap, og þeir myndu bjóða fram vöru sína í samkepni við framleiðendafjelögin, eins og ávalt á sjer stað, og á þann hátt halda verðinu niðri.

Þá hefir verið haft á móti því að setja toll á hey af þeirri ástæðu, að venjulega væri meiri og minni heyskortur í landinu. Þetta er ekki rjett, sem betur fer. Heyskortur er ekki algengur, og þó hann komi stundum fyrir í einstöku sveitum, þá eru það venjulega ekki þær sveitirnar, sem best skilyrði hafa til heyframleiðslu. En víða er stærð engja svo mikil, að eini möguleikinn til að nota þær til fulls er, að heysala geti þrifist innanlands. Mjer virðist því hjer vera um svo mikið sanngirnismál að ræða, að ekki geti komið til mála, að þetta fyrirkomulag verði látið haldast framvegis. Reyndar hefir verið bent á það, að landsstjórninni myndi reynast örðugt að ákveða, hvenær væri yfirvofandi hætta á fóðurskorti. En slíkt segir venjulega sjálft til sín, og enda er jeg þess fullviss, að stjórninni myndi ekki reynast erfitt að fá í tíma nægilegar skýrslur um þetta efni. Ber jeg því engan kvíðboga fyrir, að vandræði hljótist af, þó að brtt. verði samþykt.

Jeg vil leggja aðaláhersluna á, að það er í alla staði óeðlilegt og ósanngjarnt að tolla allar nauðsynjar, sem ekki er hægt að framleiða í landinu sjálfu, en neita landbúnaðinum um að tolla hey, sem nóg er til af í landinu og hægt er að framleiða í langtum stærri stíl en gert hefir verið.