02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2384 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

61. mál, vörutollur

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg stend upp eingöngu vegna þess, hversu fast hæstv. fjrh. (JÞ) lagðist á móti brtt. á þskj. 239. Jeg fyrir mitt leyti er ráðinn í að greiða þeirri brtt. atkv., þó að hún fari fram á verndartoll. Jeg hefði meira að segja viljað ganga enn lengra og beinlínis banna innflutning á heyi til landsins. Ekki vegna þess fyrst og fremst, að jeg álíti, að bændur okkar eigi að sitja fyrir með heysölu, heldur miklu fremur vegna þess, að landbúnaðinum stafar mikil hætta af útlendu heyi.

Það getur að vísu verið, að fjarlægðin hjálpi okkur eitthvað í þessu efni, eins og svo mörgum öðrum, en þó er það nú svo, að merkustu vísindamenn hafa sannað, að gin- og klaufsýki í búpeningi berist með heyi.

Nú hefir sú stefna verið upp tekin, m. a. fyrir forgöngu dýralæknisins í Reykjavík, að leyfa alls ekki innflutning á húsdýrum, nema að undangenginni nákvæmri læknisrannsókn. Er þetta gert til þess að forðast sýkingarhættu, sem stafar af þessum sjúkdómum og öðrum. En þegar vitanlegt er, að veikin getur einnig borist með heyi, þá er fullkomlega ástæða til að vera strangur og banna innflutning þess, engu síður en skepnanna sjálfra.

Jeg álít því sjálfsagt að athuga fyrir næsta þing, hvort ekki sje rjett að banna innflutning á heyi með öllu.