02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

61. mál, vörutollur

Jón Sigurðsson:

Jeg skal ekki þreyta menn með lengri umr. um þetta mál. Það er ástæðulaust að pexa um þetta, því að þegar annar segir klipt, en hinn skorið, eru lítil líkindi til, að samkomulag náist. Jeg vil aðeins með örfáum orðum víkja að því, sem fært hefir verið fram á móti brtt. okkar.

Hæstv. fjrh. (JÞ) benti á, og það er vitanlega rjett, enda hefi jeg ekki borið á móti því, að hjer er í raun rjettri um verndartoll að ræða, sem ætti að fyrirbyggja innflutning á heyi. Það er sannfæring mín, og hún hefir ekkert haggast við umr., að engin þörf sje á að flytja inn nokkurt hey. Og sú er reyndin líka, að ef fóðurskortur verður, þá panta menn ekki hey, sem mjög er erfitt að flytja til sveitanna, heldur annað fóður, sem hægara er í flutningum sveita á milli. Þá sagði hæstv. fjrh., að með þessum hætti væri einstökum plássum gerður ómaklegur kostnaður og að þetta væri í rauninni til þess eins að taka úr einum vasanum til þess að láta í annan, gera einn ríkan, annan fátækan. En mjer þykir nú dálítið undarlegt, ef það að auka framleiðsluna í landinu hefir ekkert að segja; og þó að þetta kunni — því neita jeg ekki — að koma einhverjum óþægilega í bili, þá dylst mjer ekki, að þetta muni verða til þess að auka stórum framleiðsluna á þessu sviði, og það ekki síst kringum kaupstaðina. Því að með þessu móti mun áhugi manna vakna á því að rækta þá bletti, er þeir eiga, og þeir verða fúsari til að leggja peninga í jarðræktarfyrirtæki en nú, þegar þeir eiga vofandi yfir höfði sjer harðvítuga samkepni útlendinga, sem styðst meðal annars við lággengi lands þeirra. Það hefir verið bent á það hjer, að um lítinn innflutning sje að ræða á þessu sviði og að 1922 hafi aðeins verið fluttar inn 173 smál. af heyi. En mjer er nær að halda, að lítt sje hægt að reiða sig á þær tölur, því að eftir því, sem jeg veit best, hefir þessi innflutningur aukist stórum við gengisbreytinguna, og nægir líka í þessu efni að vísa til auglýsinganna um útlent hey, sem nú standa stöðugt í blöðunum. Þá var líka minst á það, að þetta væri mikið harðrjetti gagnvart kaupstöðunum, sem ekki gætu náð í hey, sem framleitt væri innanlands, og voru sjerstaklega tilnefndir tveir, Siglufjörður og Vestmannaeyjar. Jeg mótmæli þessu að því er Siglufjörð snertir. Þar er jeg kunnugur og veit, að sá kaupstaður á mjög hægt með að afla sjer heyja. Skamt frá honum liggja sjerstaklega góðar engjasveitir, þar sem slíkar uppgripaslægjur eru, að varla finnast aörar eins á landinu, t. d. í Stíflunni, og er mjög auðvelt að flytja heyin þaðan og til Siglufjarðar á mótorbát.

Þá sagði háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að enginn vandi væri að finna kaupendur að heyjunum. Þessu get jeg ekki samsint. Jeg veit, að þetta er gagnstætt, að hey liggja víðsvegar um land, sem engir kaupendur fást að, af því að menn kjósa heldur útlent hey. Að ástæður manna sjeu lakari þar, sem hey er selt, held jeg ekki, að sje rjett sagt alment. Það mun svo vera að vísu, að ástæður manna, sem búa rjett í kringum kaupstaðina, sjeu lakari en annara, en það kemur ekki af því, að þeir selja hey, heldur af alt öðrum ástæðum.

Jeg gat þess áðan, að sem betur fer er svo víða um land, að möguleikar eru fyrir meiri heyafla en sá peningur þarfnast, sem landrýmið þolir. Því er eðlilegt, að menn svipist um eftir markaði.

Jeg viðurkenni, að það er nokkrum örðugleikum bundið að segja til um, hve mikið hey menn muni þurfa handa peningi sínum, en hv. þm. (JAJ) talaði eins og hann vissi ekki um, að til eru lögskipaðir skoðunarmenn, sem eiga að fara um, og gera það líka víðast. En þó að þeir teldu ekki heyjaforðann nógan að hausti, og sveitirnar mættu ekki selja af heyafla sínum, þá sje jeg enga hættu því samfara Ætli menn sæktu þá ekki í þorpunum, eins og nú, hey til útlanda? Eins og nú standa sakir, tel jeg, að engin hætta ea verulegt gagn myndi af hljótast, ef brtt. okkar verðnr samþykt.