02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

61. mál, vörutollur

Magnús Torfason:

Jeg ætla ekki að fara út í tollatriði eða verndaratriði þessa máls, heldur aðeins undirstrika það, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, og lýsa því yfir, að hvað mig snertir, þá mun jeg greiða brtt. á þskj. 239 atkv. mitt. Jeg skoða hana nefnilega sem nauðsynlegan undirbúning þess að banna algerlega heyflutning til landsins, því að hann getur verið landbúnaðinum stórhættulegur. En jeg veit, að slíkt bann mundi mæta afarmikilli mótstöðu, og því tel jeg nauðsynlegt að setja þetta fyrst inn í lögin, því verði það gert, má búast við að mótstaðan gegn banninu verði minni á sínum tíma.