07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1926

Klemens Jónsson:

Jeg ætla að gera nokkuð nánari grein fyrir brtt. minni á þskj. 299 um fje til byggingar á Stóruvöllum. Jeg verð að segja, að mjer brá í brún, þegar jeg heyrði, að bæði hæstv. atvrh. (MG) leggur á móti þessu og einnig að hv. fjvn. var á móti því.

Hæstv. atvrh. lýsti því yfir, að fyrst þyrfti að græða upp landið, áður en farið væri að byggja húsin yfir sandgræðslumennina. Getur verið, en þó verður að athuga, hvað sjerfræðingarnir segja um þetta. Þessi mál hafa verið lögð fyrir Búnaðarfjelag Íslands, og jeg verð að álíta, að taka verði meira tillit til þess, sem sjerfræðingar segja um þetta, en aðrir. Jeg tók fram í gær, eftir ummælum búnaðarmálastjóra sjálfs, hvaða rök væri hægt fram að færa í þessu máli, en jeg hefi víst ekki gert það nægilega skýrt, og ætla jeg því, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp eigin orð búnaðarmálastjóra:

„Til bygginga á Stóruvöllum er ætlað alt að kr. 25000,00. Sandgræðslan hefir nú starfað í nær 20 ár. Á þessum árum hefir unnist töluverð reynsla með eitt og annað, sem hefir sannað það, að möguleikar eru til að stöðva sandfok og græða upp sanda. En á hinn bóginn hafa ekki verið ástæður til að gera neinar ítarlegar og ábyggilegar tilraunir. Sandgrœðslustaðirnir eru dreifðir, sandgræðsluvörðurinn verður að ferðast á milli þeirra og dvelja um tíma á hverjum stað, meðan verið er að framkvæma aðalstörfin. Flestar tilraunir þurfa stöðugt eftirlit og athugun, ef ábyggilegar eiga að vera. Þetta er því aðeins framkvæmanlegt, að til sje ein aðalstöð, bar sem sandgræðsluvörðurinn sje búsettur og geti haft, eða látið hafa, eftirlit alt árið.

Á Stóruvöllum í Landmannahreppi er ágætlega vel fallið að stofna slíka stöð“.

Jeg álít, að taka verði meira tillit til þess, sem svona maður segir, en aðrir, sem ekki bera fult skyn á málið. Jeg ímynda mjer, að hæstv. atvrh. hafi ekki talið fært að taka þetta upp í fjárlagafrv. vegna fjárhagsvandræða, af því að upphæðin var þetta há, 25 þús. kr. Nú hefi jeg borið fram 10 þús. kr. Jeg hefi borið mig saman við búnaðarmálastjóra, og hann álítur, að þessa upphæð megi nota. Það, sem hæstv. atvrh. segir um, að stöðin eigi ekki að koma fyr en búið sje að græða upp landið, er því þvert ofan í álit búnaðarmálastjóra. Jeg játa, að jeg hefi enga sjerþekkingu á þessu máli, og það hafa sjálfsagt fæstir hjer, en þessa sjerþekkingu hefir búnaðarmálastjóri, og ætti það að nægja. Jeg spurði hæstv. atvrh., hvort hann vildi lofa að taka þessa upphæð upp í næsta fjárlagafrv. Það gæti jeg vel sætt mig við. En hæstv. atvrh. vildi ekki gefa neitt ákveðið loforð, en hinsvegar tók hann því ekki ólíklega. Jeg vil þó ekki taka tillögu mína aftur, en tel rjettast að láta það ráðast, hvernig fer um þetta núna, og gefst hv. þdm. þá tækifæri til þess að sýna með atkvgr., hversu ant þeim er um ræktun landsins. Hjer er um svo þýðingarmikið atriði að ræða, að því verður að gefa nánari gætur en áður hefir verið gert.

Jeg finn ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Afstöðu mína gagnvart hinum brtt. mun jeg sýna með atkvgr.