25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

57. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Björn Líndal:

Það er ekki margt, sem jeg þarf að taka fram ennþá í þessu máli. Jeg hefi lítið eða ekkert að athuga við þessar till. hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Bæjarstjórn Akureyrar hefir óskað, að sú breyting yrði gerð á lögunum, að 3 eða 4 bæjarfulltrúar gætu krafist hlutfallskosningar í nefndir. Mjer fyrir mitt leyti er því alveg sama, hvora töluna hv. þdm. samþykkja. Hv. 2. þm. Reykv. hefir nú sýnt fram á, að það geti þó haft nokkra þýðingu, hvor talan er samþykt, og get jeg því vel fallist á þessa brtt. En hvað hina brtt. snertir, álít jeg hana vera óþarfa, því bæjarstjórnin getur gert þetta, ef hún vill, en þó sje jeg heldur ekkert á móti því, þó þetta yrði samþykt, til þess að taka af allan vafa í þessu efni.