07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. frsm. síðari kafla fjárlagafrv. (TrÞ), sem jeg þarf að segja. Háttv. frsm. segir, að fjvn. hafi slegið því föstu, að Skeiðaáveitufjelagið skuli fá 6 þús. kr. styrk frá og með árinu 1927, en ekki 1926, vegna þess að nefndin leggi sterka áherslu á að koma lagi á fjárreiður fjelagsins. Út af þessu vil jeg þá benda á, að samkvæmt tillögum fjvn. á stjórnin að sjá um, að áveitubændum verði gefið eftir vextir og afborganir af lánum þeirra úr Landsbankanum árin 1924 og 1925. Ef nú þetta verður samþykt, en ekki brtt. hv. 2. þm. Árn. (JörB), þá fer svo, að 1926 fá áveitubændurnir enga hjálp, því að flóðgarðastyrkinn geta þeir ekki notað til greiðslu í bankann. Hann þurfa þeir að nota til flóðgarðahleðslu, og hann er ekki nema 1/1 þess kostnaðar. Nú sjá það allir, að það er ákaflega óhentugt fyrir áveitubændurna að láta þá vera styrklausa 1926, en styrkja þá bæði fyrir og eftir, en ríkissjóði er sama, hvort hann byrjar að styrkja 1926 eða 1927. Orð hv. frsm. (TrÞ) hljóta því að vera á misskilningi bygð. Hann heimtar lag á fjárreiður áveitubænda, en gætir þess ekki, að það getur ekki komið fram fyr en 1926, hvort þeir geta staðið í skilum. Úr því að viðurkent er, að bændur þessir eigi að fá styrk í 5 ár, þá er best að byrja strax að styrkja þá, en vera ekki að seigpína þá fyrst og hjálpa þeim svo, þegar þeir eru komnir yfir örðugasta hjallann.

Jeg skora því á hv. deild að samþykkja till. hv. 2. þm. Árn. (JörB).