24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) spurði í gær um kolakaup ríkisins handa opinberum stofnunum. En í sambandi við þessa fyrirspurn fór hann með firrur einar og staðlausu stafi, eins og hans er vandi. Háttv. 2. þm. Rang. (KIJ) hefir nú lækkað í honum rostann, svo að jeg get verið fáorðari en ella.

Kol þessi, sem hjer er um að ræða, voru keypt samkvæmt útboði og lægsta boði tekið, sem var kr. 63,75 pr. smálest. Þegar farið var að skipa kolunum upp í Hafnarfirði, þóttu þau of smá, og var neitað að taka á móti þeim þar. Var þá dálítill dráttur á uppskipuninni; skipið kom hingað inneftir og tveir matsmenn skipaðir til þess að skoða kolin og meta þau. Komust þeir að raun um, að kolin væru í smærra lagi, en alls ekki ónothæf eða svo, að ráðlegt væri að ganga frá kaupunum. Auk þess sýndi sig, að því smæsta af kolunum hafði verið skipað upp í Hafnarfirði, og tóku eigendurnir að sjer að selja þau. Hin kolin, sem eftir voru í skipinu, keypti svo landsstjórnin og skifti þeim á milli ýmsra ríkisstofnana, og fengu mest:

1. Vífilsstaðahælið 190 smál.

2. Laugarnesspítalinn 150 —

3. Esja ........................ 380 —

4. Bæjarsjóður Reykjavíkur 125 —

Hið síðastnefnda keypti bæjarsjóður Reykjavíkur. Fleira er ekki um þessi kolakaup að segja, enda er háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) ekki svaraverður í þessu máli eða öðrum. Hann fer með fullyrðingar einar og forðast að fœra nokkur rök fyrir máli sínu. T. d. sagði hann, að stjórnin vildi undanþiggja lögmœtum tekjuskatti stórgróðafjelög og stóreignamenn. Maður, sem skrökvar svo um þingmál og reynir ekki að færa minstu rök fyrir máli sínu, hann er að mínum dómi alls ekki svaraverður.

Um innflutningshöftin sagði hann, að þau hefðu í framkvæmdinni orðið „eitt samanhangandi hneyksli“ og að það, sem neitað hefði verið um að flytja inn í maí, hefði verið leyft í júlí.

Það er satt, að háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir oft komið með rosta og miklu veldi og heimtað að fá hitt og þetta flutt inn, enda hefir hann gengið lengra en flestir aðrir í frekjunni. Veit jeg þó ekki, hvort hann álítur sem svo, að brauðgerðarhús hans eigi fremur heimtingu á innflutningi margskonar óþarfa, og það í stórum stíl, heldur en aðrir, en svona hefir framkoma hans verið.

Jeg sje, að þm. brosir; hann mun kannast við þetta, enda er honum ekki til neins að neita því.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) gerði lítið úr því gagni, sem innflutningshöftin hefðu gert, og fullyrti, að eftir fregnum víða úti um land hefðu þau verið mjög misnotuð.

Að vísu láðist honum að skýra frá því, á hvaða rökum slíkar fregnir væru bygðar, enda skildist mjer á ræðu hans, að hann færi eftir orðrómnum einum. En þó að sagt sje, að sjaldan ljúgi almannarómurinn, þá er ekki altaf ábyggilegt að treysta honum, enda hafði jeg haldið þennan hv. þm. vandari að virðingu sinni en svo, að hann hlypi eftir því, sem vinir Gróu á Leiti hafa að segja um framkvæmdir stjórnarinnar.

Hann var líka að barma sjer yfir því, að frv. hans um innflutningshöft hefði ekki náð fram að ganga í fyrra, og er ekkert um það að segja.

En nú vil jeg spyrja hann, hver tilgangur hans sje með innflutningshöftum. Var hann sá, að hafa þau til þess að jafna viðskiftin við útlönd eða ekki? Ef það er tilgangur hans að jafna með þeim viðskiftin við útlönd, þá verður hann að játa, að þegar verslunarjöfnuðurinn er eins hagkvæmur og síðastliðið ár, þá ben að slaka til á höftunum. En ef háttv. þm. (HStef) álítur, að innflutningshöft og verslunarjöfnuður við útlönd komi ekki hvort öðru við, þá erum við ósammála og getum ekki átt samleið í þessu máli.

Þá var háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) að tala um misrjetti það, sem menn hefðu verið beittir við framkvæmd innflutningshaftanna. Mjer dettur ekki í hug að halda því fram, að eitthvert misrjetti hafi ekki getað átt sjer stað, því að slíkt er vitanlega aldrei hægt að fyrirbyggja. En því verð jeg eindregið að halda fram, að þau hafi verið framkvæmd eins samviskusamlega og mögulegt var, En þó að einstöku menn hafi talið sig misrjetti beitta, er það engin sönnun.

Þannig hafa t. d. tvær verslanir kært hvor aðra á víxl, fyrir að hvorri þeirra um sig hafi verið veitt innflutningsleyfi, sem hinni var synjað um.

Þá mintist þessi háttv. þm. á Krossanesmálið fræga og taldi það tómlæti af stjórninni að vilja ekki láta setja á sig rannsóknarnefnd af þinginu. En jeg vil út af þessu minna háttv. þm. á, að hann hefir sjálfur verið á móti því, að mál þetta væri rannsakað eftir landslögum og málavöxtum, þar sem hann var með í að fella dagskrá háttv. þm. Dala. (BJ). Og úr því ekki má rannsaka málið eftir landslögum og rjetti, veit jeg ekki, hvernig á að að fara.

Háttv. þm. talaði um, að í dagskrá þm. Dala. (BJ) hefði verið áskorun til stjórnarinnar um að láta rannsaka málið. En svo var ekki. Þar stóð: „Í trausti þess, að stjórnin láti fara fram ítarlega rannsókn — svo fremi einn eða fleiri óska þess“. Þetta er það, sem sjálfsagt er að gera, og hið eina rjetta.

Þá kem jeg að háttv. þm. Str. (TrÞ). Hann sagðist ekki hafa tekið neitt aftur af þeim ákæruni, sem hann hefði sent mjer á árinu. En jeg hjelt, að lokareikningarnir hefðu verið gerðir upp með síðustu kvittun. En máske háttv. þm. telji ekki smánóturnar með. Eða kannske hann ætli að standa við söguna, sem hann flutti í blaði sínu í haust, að stjórnin ætlaði að fara að löggilda vigtir, sem vigtuðu alt að rangt, til þess að vigta á afurðir bænda í sláturtíðinni.

Þarna hefir hv. þm. flutt í blaði sínu beina lygasögu, eða sögu, sem hann hefir búið til sjálfur, og vildi jeg gjarnan fá að vita, hvort hann vill standa við þessa sögu.

Þá mintist háttv. þm. á enska lánið og taldi leiðinlegt, að ekki skyldi vera hægt að nota innieign bankanna erlendis til þess að borga af því. En háttv. þm. skilur ekki, að bankarnir þurfa að hafa varasjóð erlendis, til þess að halda genginu föstu. Úr því háttv. þm. skilur ekki þetta, er ekki von að hann skilji mikið í gengismálinu, því að slíkur varasjóður er alveg nauðsynlegnr, þegar illa gengur, til þess að halda genginu föstu.

Háttv. þm. var að segja, að jeg hefði verið að kvarta undan því, hve mjúkur hann hefði verið í máli. Þetta er ekki rjett. Jeg sagði, að mjer hefði þótt undarlegt, hve mjúkur hann var, eftir að hafa verið svo harður áður. En máske það hafi verið af því, að hann hafi ekki ætlað að láta fara fyrir sjer eins og segir í vísunni, sem hann var að vitna í í fyrra: „Best er að fara stilt á stað, steyptist einhver þarna“. Seinni hlutann vil jeg ekki fara með, því að mjer þykir hann of klúr. En eflaust man háttv. þm. Str. (TrÞ), hvernig hann er.

Þá var hann að hóta mjer, að við værum ekki skildir enn. Það má gjarnan vera svo. Jeg mun halda áfram brjefaskiftum við hann, ef hann vill. Jeg endaði núna síðast, svo ekki stendur upp á mig. Ef hann því sendir mjer brjef aftur, mun jeg svara um þad. Annars veit jeg ekki, hvort hann heldur, að hann í raun og veru græði á þessum brjefaskriftum.