07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vil byrja á því að svara fyrirspurn hv. þm. Str. (TrÞ), sem hann bar fram út af till. um styrkveitingu til landsspítala. Hann spurði, hvort ákveðið væri að drepa landsverslunina til þess að losa varasjóð hennar.

Um þetta efni hefir engin ákvörðun verið tekin, eins og gefur að skilja. En jeg er samþykkur því, sem hann sagði, að ef þetta ætti að gera, þá ætti það að koma fram í fjárlagafrv. Annars þykist jeg ekki þurfa að endurtaka það, sem jeg hefi sagt um þetta mál í heild sinni, að ef menn vilja taka í fjárlög meiri útgjöld en tekjurnar leyfa, þá er þessi möguleiki til.

Þá ætla jeg mjer að snúa mjer lítillega að till., sem fram er komin frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um að hækka tekjuáætlunina. Jeg vil byrja á að svara fáum orðum ummælum hans frá 2. umr. Hann kvaðst ekki vita, hvaðan mjer kæmi vitneskja um kreppu á næstu árum, og gat þess til, að jeg hefði einhver ráð undir rifjum að knýja hana fram.

Það er gamalt orðtæki, að ekki veldur sá, er varir. Það er víst upprunalega komið fram sem andmæli gegn svona löguðum ósanngjörnum ummælum. En ef háttv. þm. (JakM) vill vita, hvaðan mjer kemur vissa um kreppu, þá er því að svara, að hún er sama eðlis og sú vissa hans, að nótt kemur á eftir degi. Það veit hann, að ekki bregst, og jeg veit heldur ekki til, að það bregðist, að kreppa kemur á eftir uppgangstíma. Hv. þm. getur rakið, að svo hefir það gengið ávalt í öllum löndum, og á þessu byggi jeg þá vissu mína, að kreppan kemur. Hvort það verður 1926 eða síðar. er ekki unt að segja, en eins og horfir er ekki líklegt, að það dragist lengi.

Hitt er líka rjett, að eins og næturnar eru misdimmar, svo eru kreppurnar misharðar. Það er í mannanna valdi að afstýra verstu afleiðingunum með því að vera undirbúnir. Og það, sem jeg fer fram á, er, að þessi hv. deild taki tillit til þess, að kreppan hlýtur að koma. En að jeg hafi ráð til þess að framkalla hana og muni beita því, nær engri átt, ekki fremur en ef sagt væri, að nóttin kæmi af því að hv. þm. (JakM) hefði hnýtt spotta upp í sólina og teymt hana burtu.

Þá kem jeg að till. háttv. þm. Eftir þær hækkanir, sem samþyktar voru við 2. umr.till. fjvn., þá er áætlunin orðin jafnhá og tekjur urðu 1923, að viðbættum þeim tekjuauka, sem síðan hefir orðið samkvæmt breyttri löggjöf. Og það er ekki hægt að neita, að það er mjög ógætilega áætlað, að tekjur verði hærri 1926 en þær urðu 1923, vegna þess að engin vissa er fyrir því, að næsta ár verði betra tekjuár en 1923. En öll vor reynsla heimtar, að tekjur fari 15% fram úr áætlun. Það þarf gott tekjuár 1926 til þess að svo verði.

Jeg skal láta þetta nægja og þreyta ekki með tölum.

En viðvíkjandi hækkunartill. á þskj. 299,1, um tekjur af tóbakseinkasölu, þá er tekjuáætlunin komin svo langt fram úr því, sem reynslan gefur tilefni til, að hún er 125 þús. kr. hærri en 1923 og 100 þús. kr. hærri en meðaltal síðustu þriggja ára. Þetta er ekki sú varfærni, sem ríkja á, ef vel á að fara.

Þá vil jeg minnast á till., sem kend er við hv. fjvn. á þskj. 290,VI, um aðstoðarlækni á Skutilsfjarðareyri. Sá læknir er ekki til. En aðstoðarlæknir á Ísafirði er skipaður með lögum. Ef þetta á að vera sami maðurinn, þá er hjer farið fram á að breyta gildandi lögum með fjárlagaákvæði. Á síðasta þingi vísaði hæstv. forseti (BSv) tillögu hjer frá af þessari ástæðu, og orkar því mjög tvímælis, hvort þessi till. á að koma til atkv. Að öðru leyti skal jeg ekki út í þessi nafnaskifti fara.

Þá skal jeg minnast á örfáar till., sem fara fram á að auka útgjöldin um stórar upphæðir. Þar koma landsspítali, stúdentagarður, Eiðaskólinn og barnaskólar. Jeg er því samþykkur, að þetta sjeu framkvæmdir, sem eigi að bíða, og skal nú fara nokkrar ástæður fyrir því. Það er kunnugt bæði innanþings og utan, að ýmsir menn hafa orðið fyrir ámæli fyrir það að ráðast árið 1920 í framkvæmdir, sem þá urðu nokkru dýrari en síðar varð. Og ámælið byggist auðvitað fyrst og fremst á því, að sú breyting hefir orðið síðan, að ef framkvæmdirnar hefðu beðið þessa tíma, þá hefðu þær orðið nokkru, já, það er óhætt að segja nálega 1/4 ódýrari en þegar þær voru gerðar 1920. Það hefir oft verið kastað ómaklegum hnútum að þeim mönnum, sem rjeðu því, að ráðist var í þessar framkvæmdir 1920. Þær voru sem sje flestar afráðnar fyr, eða í stríðslokin 1919. Og ef segja á sannleikann, þá var í rauninni ófyrirsjáanlegt þá, að verðlagið myndi halda áfram að hækka. Allir bjuggust sem sje við, að verðlagið hefði náð hámarki sínu við stríðslokin haustið 1918 og myndi svo lækka og fara sílækkandi úr því. Sú von brást. Nú horfir svo við, að svo framarlega sem það er vitanlegt og sjáanlegt, að gengi peninganna á að halda áfram að hækka, þá hækkar verðlagið, og að það lækkar nokkurnveginn jafnört og peningarnir hækka. Enn er ekki unt að synja fyrir það, að við þykjumst tilneyddir til þess að láta peningagildið hækka alt upp í gullverð, og það á ekki mjög löngum tíma, en þetta þýðir það, að alt verðlag lækkar um 50% frá því, sem nú er. Og ef það er ámælisvert, að ráðist var í framkvæmdir 1919, þegar alment var ekki annað sjáanlegt en að verðlækkun væri fyrir hendi, ætli þá að svo geti ekki farið, að einhverjir hljóti ámæli, ef þeir eru of örir til að ráðast í framkvæmdir 1925, þegar allmikil líkindi eru til, að mikil verðlækkun sje framundan, og hún mjög nálæg, vegna lækkandi gengis. Jeg held, að meðan engin ákvörðun er tekin viðvíkjandi peningamálum okkar yfir höfuð, þá sje ekki hyggilegt fyrir einn eða neinn að ráðast hvatvíslega í framkvæmdir, sem unt er að fresta. En alveg af sömu ástæðu gera kringumstæðurnar, meðan svo stendur á, það nauðsynlegt fyrir hvern og einn að losa sig úr skuldunum eftir allri getu sinni. Því alveg eins og framkvæmdirnar verða því auðveldari sem peningarnir hækka meira, alveg eins verða skuldirnar því þungbærari, sem þeir hækka meira. Það er þess vegna í mínum augum alment tekið ekki annað en sjálfsögð varfærni, eins og nú stendur á, að fresta framkvæmdum eftir því, sem forsvaranlegt er, og að borga skuldirnar eftir því, sem getan leyfir. Þar með hefi jeg ekki tekið neina afstöðu til þess, inn á hvaða leið jeg vil fara í peningamálum okkar, eða að því er snertir gildi peninganna.

Um þessar einstöku till. skal jeg ekki fara mörgum orðum.

Um landsspítalann vildi jeg segja það, að nú eru byrjaðir samningar milli landsstjórnarinnar og forráðamanna landsspítalasjóðsins um framkvæmd á þessu máli. Jeg get ekki sagt, hvernig þeim lyktar, en skal aðeins geta þess, að sá möguleiki virðist ekki útilokaður, að það mál geti komið til framkvæmda eftir allra óskum 1926, án framlags úr ríkissjóði. Meðan svo er, sje jeg ekki að ástæða sje til að samþykkja till. hv. fjvn. um fjárveiting til þessa fyrirtækis á árinn 1926. Mun nógur tími til þess við síðari umr. fjárlaganna, ef þess sýnist þörf.

Um till. XXII á þskj. 290, til viðbótarbyggingar við skólann á Eiðum 56 þús. kr., vil jeg segja það, að við 2. umr. var hjer borin fram og feld till. um að veita 60 þús. kr. til að byggja hús á þessum sama stað á tiltekinn hátt, sem þá var lýst. Nú er ekki leyfilegt að bera tvisvar upp samskonar till., og verð jeg því að gera ráð fyrir, að þessi till. sje miðuð við aðra byggingu en ákveðin var og teiknuð hefir verið. Því að vitaskuld er það sama till., þó að upphæðin sje hækkuð, ef átt er við sömu bygginguna, því að þá verður ríkissjóður að greiða allan kostnaðinn, sem verkið hefir í för með sjer. Jeg verð þess vegna að líta svo á, úr því hin till. var feld við 2. umr., að þá sje stjórninni heimilt, þó að þessi till. verði samþykt, að nota ekki þessa fjárveitingarheimild, ef sjáanlegt er, að fyrir hana er ekki hægt að koma upp forsvaranlegri byggingu.

Um fjárveitingu til stúdentagarðsins get jeg ekkert sagt fyrir stjórnarinnar hönd; hún hefir enga afstöðu tekið til hans. En mitt álit einvörðungu er það, að því málefni sje mestur greiði ger með því að halda áfram fjársöfnuninni nokkurn tíma enn. Hún var hafin, eins og kunnugt er, þegar nokkur fjárþröng ríkti í landinu. Nú í bili hefir breyst til batnaðar, og jeg vona því, að fjársöfnunin muni nú bera tiltölulega betri árangur en þegar hún var hafin. En af sömu ástæðu er og hentugast fyrir fyrirtækið að gera sem mest úr fjársöfnuninni með því að velja frekar þann tíma til framkvæmda, þegar verðlagið er lægra. Og svo vil jeg bæta því við, algerlega frá eigin brjósti, að jeg get ekki horft á það með sjerlegri ánægju, að til annars eins fyrirtækis og þessa sje stofnað með skuld á baki. Jeg álít, að það beri að stefna að því, að þessari byggingu verði komið upp algerlega skuldlausri, og þess vegna get jeg að sjálfsögðu ekki fylgt þeirri till. að veita henni ábyrgð ríkissjóðs fyrir 100 þús. kr. láni. Aftur á móti get jeg sagt fyrir mína hönd, en ekki stjórnarinnar, að ekki skal standa á mjer, þegar tími er til kominn, að styðja að því, að þessari byggingu verði komið upp skuldlausri með ríflegu fjárframlagi úr ríkissjóði.

Um fjárveitingar til barnaskólabygginga hefi jeg ekki annað að segja en það, að mjer finst þær geti eins vel beðið eins og margar aðrar framkvæmdir, sem nú verður að fresta.

Um till. hv. minni hl. fjvn. (BJ) um að hækka styrkinn til búnaðarfjelaganna verð jeg að segja, að jeg er sammála öllu og einu, sem hann hefir sagt um þetta mál, og jeg vil taka undir það, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði um gagnsemi þessa fjelagsskapar. Og þegar háttv. þm. Str. (TrÞ) segir, að búnaðarfjelögin hafi verið veigaminsti þátturinn í búnaðarframkvæmdum hjer á landi, þá neytir hann ekki söguþekkingar sinnar eins vel og honum er títt. Því að það vita allir, sem kunnugir eru til sveita, að framfarir í jarðrækt hjer á landi alt frá því um 1880 til 1914, er styrjaldarvandræðin stöðvuðu þær, voru svo að segja allar eingöngu búnaðarfjelögunum að þakka. Og það er ekki lítill þáttur, sem þau hafa átt í því að halda landbúnaðinum uppi á þeim krepputímum, sem nú hafa gengið yfir. Mjer hefir oft fundist hjer á Alþingi í seinni tíð, að starfsemi búnaðarfjelaganna hafi ekki verið fyllilega viðurkend, og jeg ætla, að fjárveitingum til landbúnaðarins væri betur varið á þann hátt að lækka styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands, en hækka hann að sama skapi til búnaðarfjelaganna. Ef gera ætti búnaðarfjelögin að engu, en láta Búnaðarfjelag Íslands hafa alt með höndum, sem að landbúnaðinum lýtur, þá væri það líkt og að skipa kirkjumálum á þann hátt, að hafa hjer dómkirkju með kórdjáknum og nokkrum hóp af klerkum, en sleppa guðsþjónustuhaldi úti um land alt. Eða að skipa heilbrigðismálum svo, að láta sjer nægja, að hjer væri landsspítali og landlæknir, en hirða ekki um svipaðar framkvæmdir úti um land. Og jeg held, að slík samsöfnun á eina hönd á einum stað á landinu, eins og nú er verið að stuðla að í þessu efni, jeg held, að hún leiði ekki til góðs árangurs.

Þá kem jeg að brtt. minni á þskj. 317 við brtt. hv. 2. þm. Árn. (JörB) um framlag til Skeiðaáveitunnar. Eins og háttv. þdm. sjá, fer brtt. mín ekki fram á annað en að hnýtt sje aftan við brtt. hv. 2. Fjárlög 1926 þm. Árn. sem skilmálum þeim atriðum, sem hv. fjvn. hefir tekið upp í till. sína á þskj. 290, brtt. XXXVIII, viðvíkjandi Skeiðaáveitunni. Jeg þarf ekki að tala fyrir till. Hæstv. atvrh. (MG) benti á, að svo framarlega sem það á að koma skipulagi á fjárreiður áveitunnar á þeim grundvelli, að ríkissjóður greiði í 5 ár 6 þús. kr. upp í veðdeildargreiðslurnar, þá er ekki hægt að gera það með öðru móti en því, að greiðslan úr ríkissjóði byrji þegar á árinu 1926. Það mælir líka engin sanngirni með því að heimta, að fjelagið greiði á fyrsta ári 6 þús. kr. meira en hin árin. Hitt er miklu eðlilegra, að stuðningur ríkissjóðs byrji strax og leiði til að koma skipulagi á fjárreiður fjelagsins. Jeg tel nú viðkunnanlegra form að gera eftirgjöf Landsbankans að skilyrði fyrir framlaginu úr ríkissjóði, og það, að komið sje skipulagi á fjárreiður fyrirtækisins, eins og hv. fjvn. vill. Jeg fyrir mitt leyti tel það rjett og sanngjarnt, að áveitufjelaginu sje veittur þessi styrkur, ekki eingöngu vegna klapparinnar, sem varð fyrir mönnum við skurðgröftinn, því að þó að hún hafi kostað fje, hefir framkvæmd verksins ekki orðið dýrari en ætlað var, ef reiknað er með rjettu verðlagi hvers árs. En framkvæmdin varð svo dýr af því, að verðlagið fór síhækkandi frá því hún var byrjuð, og þess vegna verður hún miklu þungbærari en ráð var fyrir gert. Jeg álít nú, að það sje fyrsta og sjálfsagðasta verkefnið, sem liggur fyrir hinni fjárhagslegu endurreisn nú, að bætt sje úr og bundinn endi á þau skakkaföll, sem orðið hafa á hverju sviði undanfarið. Um þessa framkvæmd er það að segja, að afstaða ríkisins til hennar. er þannig, að ekki er hægt að skjóta sjer undan því að rjetta hjer hjálparhönd. Þess vegna mæli jeg með þessari till. og vona, að með samþykt hennar sje málinu lokið.

Þá vil jeg aðeins minnast á till. háttv. fjhn. um styrk til mjólkurfjelagsins Mjallar. Jeg vil ekki mæla á móti henni, þótt jeg sje sannfærður um, að óheppilegt er að miða framlag ríkissjóðs við tiltekna krónutölu fyrir hvern mjólkurkassa, sem framleiddur er. Það gætu komið þær kringumstæður, að best væri fyrir alla málsaðilja, að fjelagið stöðvaði starfsemi sína nokkra hríð, og er þá með þessari till. hv. fjhn. fyrirbygt, að fjelagið njóti þá styrksins. Jeg skal útskýra þetta betur. Það er nú varla ársfjórðungur síðan forgöngumenn fyrirtækisins komu til mín til þess að biðja um ábyrgð ríkisins fyrir 40 þús. kr. láni. En það hafði stjórninni verið heimilað að veita. Þá var fyrirtækið komið alveg í kring og jafnvel byrjað á dálítilli starfrækslu til reynslu. Var búið að leggja fram 60 þús. kr. í hlutafje og sýslufjelög Mýra- og Borgarfjarðarsýslu höfðu tekið á sig ábyrgð fyrir 40 þús. kr. Var þá ekki unt að neita um bakábyrgð ríkissjóðs. En jeg benti forgöngumönnunum á þá örðugleika, sem fyrirtækið myndi eiga framundan fyrst í stað, því að peningarnir fóru hækkandi og verð innfluttrar mjólkur hlaut að lækka. En áætlun þeirra sýndi, að ekki mátti við því, að innflutta mjólkin lækkaði í verði, nema þá að mjólk sú, er úr er unnið, lækkaði líka.

Jeg verð nú að segja, að mjer finst nokkuð snemt fyrir svona fyrirtæki að leita hjálpar ríkissjóðs, svo skömmu eftir að það er stofnað. Jeg veit heldur ekki til, að neinn hafi fullyrt, að verðfall útlendrar mjólkur haldi ekki áfram. Hjer er farið fram á framlag á árinu 1926. En hvar stendur fjelagið, ef frá þessum tíma og til 1926 verður eins mikið verðfall á útlendri mjólk og orðið hefir frá því fyrirtækið byrjaði og þar til nú? Þá sýnist mjer, að þessar 2 kr. á kassann verði hefndargjöf. Jeg mæli nú samt ekki á móti því, að fjelaginu sje veittur nokkur styrkur úr því sem komið er. En jeg tel rjett að benda á þetta, þeim til viðvörunar, sem ráðast í fyrirtæki, sem eiga að gefa seintekinn arð, á tímum eins og nú er.

Þá ætla jeg að minnast á till. hv. fjvn. um nýjan lið við 25. gr. II, um að gefa Hólshreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu upp viðlagasjóðslán að upphæð 16 þús. kr., enda kosti hreppurinn aðgerð og viðhald á brimbrjótnum í Bolungarvík. Við 2. umr. fjárlagafrv. kom fram till. frá hv. þm. kjördæmisins (JAJ) um 10–12 þús. kr. fjárveiting til viðgerða á þessum brimbrjót. Jeg get ekki annað sagt en að mjer finst, að skynsamlegra væri að veita 10 þús. kr. í þessu skyni með sæmilegri tryggingu fyrir því, að verkið verði framkvæmt, heldur en að veita 16 þús. kr. og eiga það alveg undir getu lántakenda, hvort viðgerðin kemst í framkvæmd eða ekki. Nema meiningin sje sú, að láta sig framvegis engu skifta, hvort mannvirki þessu er haldið við eða sjórinn fær að brjóta það. En eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi um gagnsemi brimbrjótsins, tel jeg ekki rjett að láta hann verða að engu. Og ef svo er, skil jeg ekki í því, að farið er fram á að veita hærri upphæð með minni tryggingu fyrir því, að það verði gert, sem gera þarf í þessu efni.

Jeg skal svo að lokum minnast á þær till., sem fara fram á að veita ríkisstjórninni heimild til að ábyrgjast lán, er fyrir liggja Jeg vil segja um þær tillögur alment, að háttv. þingmenn mega ekki gera sjer neinar vonir um, að jeg láti í tje slíkar ábyrgðir, ef til kemur, meðan horfur breytast lítið eða ekkert frá því, sem nú er. Ríkissjóður borgar nú sem stendur upp undir 100 þús. kr. á ári vegna ábyrgða, og mjer þykir sem stendur ekki bætandi á þá áhættu. Jeg get þessa til varhygðar, svo að ef einhver slík ábyrgð þykir nauðsynleg, þá sje gerð bein ákvörðun um það efni, en ekki aðeins veitt heimild.

Þá þarf jeg að segja örlítið við háttv. þm. Dala. (BJ) út af ummælum hans, sjerstaklega út af brtt. hans við 26. gr. Jeg var raunar búinn að segja við 2. umr., að ef fyrirheit Alþingis væru ekki gildandi eftir þeim lögum, sem nú eru í landi, þá þyrfti ekki heldur að auka þessu þarna við, og get jeg því að mestu slept að minnast á, hvað hv. þm. sagði um það, hvernig ætti að líta á slík loforð. En þegar loforð eru hvergi skrifuð, er ekki einungis hætt við heldur víst, að einhver ágreiningur verður um það síðar, hvort loforð hafi verið gefið eða ekki. Það væri holt að temja sjer þá reglu á Alþingi, sem álitin er nauðsynleg í viðskiftaheiminum, að staðfesta loforð með brjefi. Þá er um leið kominn samningur. Jeg benti á það við 2. umr., að svona ætti að ganga frá bindandi loforðum, svo gilt væri. Loforð án votta getur verið gott og gilt meðan sami maður er samningsaðili, en það getur verið erfitt fyrir þann, sem við tekur, að binda sig við munnleg loforð fyrirrennara óstaðfest, og því rjettara að hafa alt vottfast.

Jeg veit ekki, hvað jeg á að leggja upp úr því, sem hv. þm. (BJ) sagði, að jeg mundi bráðum detta af prikinu. Jeg get sagt honum, að það er ekki vant að saka lítinn dreng, þó að hann detti af priki. Og jeg býst ekki við, að það mundi saka mig heldur, þó að jeg dytti af þessu priki, sem hv. þm. stakk milli fóta mjer á dögunum, þegar hann af almætti sínu gerði mig að litlum dreng. Jeg vona að minsta kosti, að það verði ekki þeim til falls, sem þykjast ríða góðhestum, sitja fæstir í söðli og standa vel í ístöðunum.