17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Magnús Torfason:

Það er eitt atriði í þessu máli, sem mjer finst ekki hafa komið nógu vel fram, sem sje það, að þetta prestakall, sem hjer um ræðir, er það næstfjölmennasta á landinu. Þar eru um 4000 manns, og er það álíka margt og í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sem eru með fjölmennustu sýslum landsins. Þetta atriði ætti að sýna mönnum, að meiri ástæða er til að sinna þessu en um öll önnur prestaköll, sem verið er að biðja um skiftingu á.

Að því er kostnaðarhlið málsins snertir vil jeg strika undir það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði. Prestakallinu koma svo miklar tekjur, að það borgar sig, og hefir auk þess um langan tíma lagt stóran skerf í landssjóð. Ekkert var 1921 minst á, og heldur ekki núna, fastar tekjur prestakallsins. Jeg sló upp í jarðamatsbók og öðrum gögnum og sá, að sú fúlga, sem Ísafjarðarprestakall hefir fært kirkjujarðasjóði, nemur hvorki meira nje minna en 60 þús. kr. Jarðir, sem prestakallinu tilheyrðu, hafa verið seldar fyrir offjár, og t. d. hefir 700 kr. afgjald af Eyri í Skutulsfirði verið lagt prestakallinu. Tekjur prestakallsins munu vera um 9–10 þús. kr. á ári, og sjest á því, að það er sjálfu sjer nógt, þótt skift verði. Og þótt aðskilnaður ríkis og kirkju komi einhverntíma til mála, verður þessi skifting prestakallsins því aldrei til fyrirstöðu. Þau geta sjeð fyrir sjer sjálf.

Í þessu prestakalli eru 4 læknar, og hygg jeg það vera einsdæmi. Á því sjest, hversu afskaplegt er, að því sje ekki skift, án alls tillits til örðugleikanna. Í greinargerðinni er talað um reiðveg út í Bolungarvík, en hann er enginn. Það eru víst 15 ár síðan farið hefir verið með hest þar; það borgaði sig ekki að viðhalda veginum; kostnaðurinn varð alt of mikill. Er því síst gert of mikið úr vegatorfærunum.

Það er rjett að geta þess, að komið hefir til tals að sameina Súgandafjörð og Hólssókn í eitt læknishjerað; það má heita, að læknirinn hafi land undir fæti alla leið þar á milli, og er fjallvegurinn fremur stuttur og lágur. Það væri vit í að sameina Súgandafjörð og Hólssókn líka í eitt prestakall; með því þarf ekki prestaköllum landsins að fjölga neitt. Að ekki hefir verið stungið upp á þessu, kemur til af því, að álitið er, að skiftingin þurfi að fara fram strax, en presturinn í Súgandafirði er maður mjög heilsugóður, þó gamall sje, og er sjálfsagt, að hann sitji í sínu embætti eins og það er nú. Sameining þessara prestakalla á því langt í land. En þessi skifting er nauðsynleg nú þegar.