17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Pjetur Ottesen:

Þó að mjer sje hjer gefið allmikið efni til athugasemda, ætla jeg ekki að halda langa ræðu. Flest af því, sem nú hefir verið sagt til meðmæla með þessu frv., hefir áður verið tekið hjer fram og því svarað þá.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði, að nýtt væri komið fram í málinu, sem herti á því, að skiftingin færi fram; sem sje það, að Hnífsdælingar hefðu í hyggju að koma upp hjá sjer kirkju. Jeg sje ekki, að þetta skifti miklu máli fyrir prestinn; hjer er um örlitla vegalengd að ræða, ekki meiri en svo, að það er bara til hressingar og heilsubótar fyrir prestinn að skreppa þennan spöl. Þangað verður presturinn auðvitað að fara öðruhvoru til þess að framkvæma prestsverk hvort sem er, en þetta mundi í mörgum tilfellum geta farið saman, að presturinn framkvæmdi slík aukaprestsverk messudaginn, og er þessi kirkjubygging þarna í Hnífsdal engan veginn sú höfuðástæða í þessu máli, sem hv. þm. N.-Ísf. vill vera láta. Jeg get ekki betur sjeð en að sumstaðar annarsstaðar sjeu þó nokkuð meiri erfiðleikar fyrir prestinn að sjá sóknarbörnum sínum fyrir sálusorgun en hjer. Í þessu sambandi má geta þess, þar sem altaf er verið að gera ferðakostnað prestsins svo ægilegan, að eftir því sem fólksfjöldinn er meiri í hverju prestakalli, má búast við meiri aukatekjum, og má þá ætla, að presturinn standi betur að vígi með að leggja eitthvað í kostnað við ferðalögin.

Hv. þm. N.-Ísf. tók af skarið um það, er hann sagði, að þetta væri eina rjettmæta krafan, sem fram gæti komið um stofnun nýs prestakalls, og að allar aðrar kröfur væru órjettmætar, samanborið við þessa. Jeg byggi nú ekki svo mjög á því, að hann geti fullyrt sjerstaklega um þetta efni, af því að hann sje svo nákunnugur annarsstaðar á landinu, eða líti sömu augum á þarfir annara í þessu efni. Jeg veit t. d. ekki betur en að hv. þm. A.-Sk. mundi fara fram á eitthvað svipað, vegna þess að aðstaða er svipuð hjá honum, og jeg geri ráð fyrir, ef gengið er inn á þessa braut, að þá myndu fleiri koma á eftir, sem erfitt væri að mótmæla, að hefðu hliðstæðan rjett. Jeg mintist á, að til mála gæti komið, að nefnd sú, sem jeg gat um áðan, mundi ef til vill gera tillögur um skilnað ríkis og kirkju; að öðru leyti fór jeg ekkert út í það mál, nema hvað jeg sagði, að mjer þætti slíkt ekki óhugsandi. Út af þessu var hv. 4. þm. Reykv. (MJ) fljótur á sjer að dæma um aðskilnaðinn, hvað þjóðin mundi verða vel kristin við þá breytingu. Án þess að jeg vilji fara að dæma um þetta, vil jeg segja, að það horfir svo, frá mínum bæjardyrum sjeð, að þar sje einmitt leiðin til að gera hana betur kristna; að slík breyting mundi vekja menn til umhugsunar um trúarmálefni og hrekja á brott þá deyfð og þann drunga í trúarefnum, sem sýnilega þróast svo vel í skauti þjóðkirkjunnar. Háttv. þm. hjelt langa ræðu um þetta mál, og var ekki nema nokkur hluti hennar um efni þessa frumvarps sjerstaklega. Hann þykist hafa góða aðstöðu, og það öðrum fremur, til að leggja hjer orð í belg, bæði af því, að hann telur sig samkvæmt stöðu sinni nokkurskonar læriföður í þessum málum hjer í deildinni, og svo af því, að hann hefir verið þjónandi prestur í þessu prestakalli. En þótt hv. þm. (MJ) gefi upplýsingar um þessa erfiðleika, sem presturinn eigi þarna við að stríða, þá get jeg ekki gengið fram hjá upplýsingum, sem jeg hefi fengið frá presti, sem hefir starfað þar í tugi ára, og þær eru enganveginn í samræmi við það, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) og aðrir bera fram, og verð jeg að draga þá ályktun af því. að engu síður megi byggja á upplýsingum þess mæta manns, sem hefir látið mjer þær í tje, og það því fremur, sem hann talaði um þetta af meiri og lengri reynslu en meðmælendur þessa frumvarps allir til samans. Og hvíldu þó í tíð þessa merka prests meiri og fleiri störf á prestunum en nú, t. d. eftirlitið með barnafræðslunni, sem prestar nú alment álíta að sje fyrir utan sinn verkahring.

Annars ætla jeg ekki að fara að fjölyrða um það, sem hv. þm. (MJ) talaði alment um prestastjett þessa lands. Það er vitanlegt, að það hafa verið ýmsir mjög mætir menn í þessari stjett, en eftir því sem honum fórust orð, þá var naumast hægt að skilja hann öðruvísi en að það gengi furðu næst, að lífvænt skuli vera hjer á landi síðan prestunum fækkaði, því þeir hefðu verið sveitunum alt bæði í andlegum og líkamlegum efnum; hvað þá heldur ef þeim væri fækkað enn meira eða annað skipulag tekið upp. Það mætti máske minna hv. þm. (MJ) á, að það er eitt verkefni biskups á synódus að lesa upp registur yfir messuföllin á landinu, og munu þau sjaldnast vera færri en þetta 3000 á ári, og mjer hefir verið bent á, að það væri hægt að nefna nokkrar sóknir á landinu, þar sem messað væri 2–3 sinnum á ári, jafnvel þó presturinn hafi ekki nema tveim kirkjum að þjóna. Jeg geri ráð fyrir, að þar sem um svo daufa kirkjusókn er að ræða, sje sambandið milli prests og sóknarbarna mjög svipað. Heldur nú hv. þm. (MJ) virkilega, að þetta sje alt því að kenna, hversu prestarnir eigi erfitt með að sinna prestsstarfinu og hafa samband við söfnuðina? Nei, þar kemur fleira til greina, og jeg get vel skilið, að hv. þm. (MJ) vilji hliðra sjer hjá að rekja orsakirnar til þessa ástands til annars en þess, að prestarnir sjeu of fáir. Jeg tala um þetta vegna þess, að hv. þm. (MJ) sagði, að með brauðasamsteypunni væri slitið nálega öllu sambandi milli prestanna og sóknarbarnanna, og því væri komið sem komið er; en hjer kemur líka fleira til, og þær ástæður liggja nokkuð í þjóðkirkjufyrirkomulaginu sjálfu.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) kvaðst líka nákunnugur þarna og vildi láta sitt ljós skína í þessu máli. Hv. þm. segir, að það standi alt öðruvísi á um þetta prestakall en önnur, og ekki ástæða til að sinna öðrum kröfum, þótt fram kæmu. Þetta segir hver um sig.

Þá var talað um fjárhagsviðskifti ríkissjóðs og þessa prestakalls og sagt, að það legði svo mikið í ríkissjóð, og eiginlega miklu meira en það fengi aftur. Það má vel vera, að svo sje. Það er misjafnt, hve miklar eignir fylgja prestaköllum, en jeg vil benda á eitt í þessu efni; það er, að það eru ávalt mikil hlunnindi fyrir prestana, þar sem miklar heimatekjur eru, og sjerstaklega þar sem mikið smjörgjald er um að ræða, ekki einasta af því, að smjörið sje góður hlutur, heldur af því, að venjan er að reikna þeim smjörið langt fyrir neðan sannvirði. Jeg held, að í Hólssókn sje það reiknað á 90 aura pd. (MT: Það kemur ekkert þessu máli við). Jú, það kemur einmitt sjerstaklega þessu máli við, þegar verið er að tala um, að presturinn verði sjerstaklega hart úti við að sækja annexíuna; þá má líta á það, að það er ekki einskis virði fyrir prestinn, að heimatekjurnar sjeu ekki metnar upp í launin nema sem svarar helmingi eða þriðjungi þess, er þær raunverulega gefa af sjer. (TrÞ: Það er ekki presturinn, sem metur smjörið). Það er sama, hver metur það. Það er presturinn, sem nýtur þess, að það er metið svona. (MT: En næsta mat?). Já, það breytist kannske nokkuð við næsta mat, en grundvöllurinn er altaf sá, að prestarnir munu oftast fá heimatekjurnar reiknaðar upp í laun sín langt undir sannvirði.

Þá var talað um ósamræmi í því, að ekki væri nema einn prestur í þessum sóknum, þó þar væru fjórir læknar. Já, þá er víst aukalæknir á Ísafirði með í tölunni. Þá er það þó svo, að það er að nokkru leyti bætt upp, sem háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) var að tala um, að prestarnir hefðu áður þurft að vera meðal annars læknar í sóknum sínum. Það er þá sjeð fyrir því hjer, að svo þarf ekki að vera.

Þá kom háttv. 1. þm. Árn. (MT) fram með till. í þessu máli, sem vel er þess verð, að hún sje athuguð, að kannske væri hægt að sameina Hólssókn við annað prestakall, sem ljettara væri að þjóna henni frá en frá Ísafirði. Það er ekkert við það að athuga, en niðurstaðan, sem hv. þm. (MT) komst að út frá þessari athugun, var harla einkennileg, því hann vildi fyrst stofna sjerstakt embætti þarna og veita það ungum manni, og fara svo að afhuga möguleikana á því að sameina þessar sóknir.

Mjer finst, að hjer komi einmitt fram alveg ný ástæða til að fresta því að taka ákvörðun í þessu máli nú, því að vel má vera, að hægt verði að ná samkomulagi nú þegar við þennan prest í Súgandafirði um að taka að sjer þennan söfnuð. Hafi hann lítið að starfa, og sjer það hinsvegar, að þeir í Hólssókn verða hart úti með prestsþjónustu, þykir mjer líklegt, að kennimannsandinn verði svo sterkur hjá honum og umhyggjan fyrir sálarheill þeirra, að hann vilji sjá þeim fyrir betri sálusorgun.

Að endingu vil jeg minna á það, þar sem menn segja, að þessi prestur ofþjakist af prestsverkunum, að jeg hefi heyrt, að hann hafi með höndum aukastarf, sem taki hann töluverðan tíma; en sje hann svona hlaðinn prestsverkunum, sem af er látið, þá er engin ástæða til að halda, að hann fari að taka að sjer ýmislegt veraldarvafstur og vanrækja þar með skyldur sínar gagnvart sóknarbörnunum. Mjer finst því, að þessi ráðbreytni prestsins vitni á móti því hvorutveggja, að hann sje alt of störfum hlaðinn við prestsverkin og að söfnuðurinn sje vanhaldinn af prestsþjónustunni hjá honum.