07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

1. mál, fjárlög 1926

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg vildi aðeins gefa nokkrar upplýsingar viðvíkjandi brtt. fjvn. á þskj. 290 um fjárveitingu til Vaðlaheiðarvegar, í viðbót við það, sem hv. frsm. (ÞórJ) þegar hefir tekið fram. Jeg ætla þó ekki að fara að tala um nauðsyn vegarins; það er þegar búið að upplýsa það, og jeg hygg, að ekki þýði að bæta miklu þar við. En þau ummæli munu hafa komið fram við 2. umræðu fjárlaganna, að vegamálastjóri hafi álitið upphæð þá, sem fjvn. fór þá fram á, sem var 20 þús. kr., alt of lága. Er mjer ekki grunlaust um, að sá skilningur hafi komist inn hjá sumum hv. þdm., að vegamálastjóri væri þar af leiðandi á móti tillögunni, og að sá skilningur hafi máske ráðið þeim úrslitum, að tillagan var feld hjer í deildinni við 2. umr. fjárlagafrv.

Jeg vildi þess vegna skýra frá því nú um þessa till., sem fjvn. ber fram að nýju um tillag til þessa vegar, sem er 18000 kr., að till. er borin fram í samráði við vegamálastjóra. Hann hefir að vísu í áliti sínu til stjórnarinnar um vegagerð 1926 látið skýrt uppi, að mikla nauðsyn bæri til, að lagning Vaðlaheiðarvegar; yrði hraðað sem mest, og mætti alls eigi fresta lengur en til 1927, og lagningin fullgerast — mig minnir að hann nefndi á 3–4 árum. Hefir mjer skilist, að hæstv. atvrh. hafi fallist á þá till. vegamálastjóra. Er þessi skoðun vegamálastjóra vitanlega óbreytt, en þó álítur hann, að till., sem hjer liggur fyrir um 18000 kr. fjárveitingu til þess að byrja á veginum árið 1926, sje mjög æskileg, og hann býst við að haga þeirri fjárveitingu á þann veg, að unnið verði að þessum vegi vorið og haustið 1926, og hann telur, að þessi byrjun mundi verða á neðsta kafla vegarins, þar sem hann liggur með bæjum, og þess vegna hægt að framkvæma vinnuna að vorinu og haustinu. Telur hann, að þessi byrjun myndi greiða mjög fyrir framhaldi vegargerðarinnar, sem talið er að muni öll kosta um 190 þús. kr., eftir hans áætlun. Jeg ætla ekki að tefja tíma hv. deildar með því að ræða mikið um þetta mál vildi aðeins gefa þessar upplýsingar um till., að hún er alveg í samrými við álit vegamálastjóra og borin fram í samráði við hann.