15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg þykist skilja, að hæstv. forseti ætlist til, að umræður verði ekki langar um þetta mál, er hann tekur það fyrst af þeim málum, sem á dagskrá eru, og skal jeg þess vegna ekki lengja þessar umr. fyrir mitt leyti.

Það er vitanlegt, að um það eru nú allskiftar skoðanir, hvort nokkur þörf sje á að hafa presta, og hafa ekki ósjaldan heyrst raddir um það, að fremur bæri að fækka þeim en fjölga, vegna þess að stjett þessi væri miður þörf í þjóðfjelaginu. En hinsvegar sýnist þessi skoðun þó ekki eiga mjög fastar rætur hjá þjóðinni. Það hefir oft sýnt sig, ef komið hefir til mála að leggja niður eitthvert prestakall, að þá hafa jafnan komið fram mótmæli frá viðkomandi söfnuði eða söfnuðum. Og hafi það komið fyrir, að prestakall hafi verið lagt niður, hafa óðar komið áskoranir um endurreisn þess. Það sýnist því, að meiri hluti þjóðarinnar vilji heldur hlynna að kirkju og kristnihaldi í landinu en draga úr því, og því virðist mjer, að þing og stjórn, sem hefir það með höndum að vernda kirkjuna og halda henni við, verði að taka slíkar raddir til greina. Þó getur vitanlega ekki komið til mála að sinna öllu slíku, sem fram kann að koma. En þegar rjettmætar kröfur koma fram, verður að sinna þeim, og svo virðist einmitt vera háttað um þetta frv.

Í greinargerð þessa frv. er ítarlega lýst kringumstæðum þeim, sem orsakað hafa að frv. er fram komið. Prestakall það, sem hjer ræðir um, er afarörðugt, og að dómi allra, sem yfir höfuð vilja sinna kirkjumálum, verður að gera eitthvað til að gera kallið ljettara, t. d. að skifta því, eins og hjer er farið fram á.

Jeg veit, að margir háttv. þingdeildarmanna eru þarna eflaust kunnugri en jeg, og munu þeir viðurkenna þetta. En það er þó öllum kunnugt, að alllangur vegur er á milli Ísafjarðarkaupstaðar og Bolungarvíkur. Og þó er ekki mest um vert vegalengdina, heldur hitt, hversu vegurinn er illur yfirferðar.

Fyrrum átti svo að heita, að einhver vegarnefna hafi verið þarna á milli, en þeim vegi hefir lítt eða ekki verið við haldið, og er hann nú með öllu af tekinn, eftir því sem mjer er sagt. Það er því ekki um annað að gera fyrir prestinn á Ísafirði en að fara sjóleiðina, er hann þarf að fara til að gegna prestsverkum í Bolungarvík. En það er ekki nema endrum og eins, sem ferðir eru þar á milli. Um daglegar ferðir er alls ekki að ræða, og falla þær því ekki nema með höppum og glöppum. Nú stendur svo á í þessu prestakalli, að langmestur hluti safnaðarins er á Ísafirði, og auk þess er presturinn búsettur þar. Af þessu leiðir það, að þegar presturinn er kominn til Bolungarvíkur, verður hann að vera eins og byssubrendur og flýta sjer sem mest hann má, til að komast heim aftur til Ísafjarðar, með því að þar kalla flest störfin að honum. Þetta er því ilt og lítt viðunandi, bæði fyrir prestinn og safnaðarfólk hans. Auk þessa er um fleira að gera en Bolungarvík eina, sem hlýtur með þessum hætti sem er að hafa ónóga prestsþjónustu, því að allstór hluti af Hólssókn, þ. e. Skálavíkin, heyrir og undir þessa sókn og þetta prestakall Presturinn þarf því ekki aðeins að fara frá Ísafirði til Bolungarvíkur, heldur verður hann einnig að fara frá Bolungarvík út í Skálavík, og er sá vegur afarörðugur, sem þangað er farinn.

Þó að ýmsir kunni að vera þeirrar skoðunar, að varlega eigi að fara út í það að fjölga prestsembættum, held jeg þó, að enginn geti samkvæmt framansögðu staðið á móti þessu frv. Þrátt fyrir það, þó að þessi skifting færi fram, verður þó fullkomið prestakall eftir sem áður á Ísafirði Og verði sjerstök kirkja bygð í Hnífsdal, eins og nú er gert ráð fyrir, stækkar verksvið Ísafjarðarprestsins óbeinlínis við það. Bolungarvík verður einnig fullkomið prestakall. Þorpið er stórt og allmannmargt, og þegar tekið er tillit til Skálavíkur, er það ljóst, að sjerstakur prestur í Bolungarvík komi einnig til að hafa ærið nóg verksvið.

Jeg lít svo á, að ekki þurfi mikið lengri framsögu fyrir þessu máli. Öll nefndin er sammála um, að þrátt fyrir alt beri að samþykkja þetta frv., hvað sem annars mætti segja um fjölgun prestsembætta yfir höfuð.