15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Einar Árnason:

Mjer er vel ljóst, að verði þetta frv. samþykt, hlýtur það óhjákvæmilega að draga samskonar dilka, og þá líklega marga, á eftir sjer, áður en mjög langt verður um liðið.

Það má vel vera, að það sje nauðsynlegt að skifta þessu prestakalli, en jeg veit líka, að það má tilfæra svipaðar ástæður annarsstaðar á landinu, og þegar þingið einu sinni er gengið inn á þessa braut, verður það að halda áfram að skifta prestaköllum, og getur það leitt til þess. að prestum verði fjölgað úr hófi fram.

Mjer finst, að frv. þetta hafi enn ekki verið útskýrt nógu vel, hvorki í nál. eða af hv. frsm. nefndarinnar (EP). Það kom til orða í umræðunum um þetta mál í háttv. Nd., að hugsanlegt væri, að hægt mundi að sameina Bolungarvík við Eyri í Súgandafirði. Jeg er ekki nógu kunnugur til að geta dæmt um þetta, en jeg álít, að ástæða hafi verið til að rannsaka það atriði nánar, því sá háttv. þm., sem drap á þetta í hv. Nd., var vel kunnugur þarna vestra.

Hv. frsm. (EP) talaði um, hversu kall þetta væri örðugt. Jeg veit lítið um það. en geri þó ekki ráð fyrir, að hægt verði að neita því, að svo sje; en hitt er jafnvíst, að mörg önnur prestaköll eru jafnerfið. Hann sagði, að þegar presturinn væri kominn til Bolungarvíkur, þyrfti hann að flýta sjer mjög að komast heim aftur til Ísafjarðar, vegna embættisanna. Það má vel vera, að svo sje, en jeg spyr þá, hvað hæft sje í því, sem jeg hefi heyrt, að þessi prestur hafi með höndum annað starf, prestsverkum óviðkomandi, á Ísafirði. Jeg hefi sem sje heyrt, að hann sje gæslustjóri við annað bankaútibúið þar, og ef svo er, tel jeg eðlilegt, að hann megi ekki vera lengi að heiman. Jeg orðlengi svo ekki frekar um þetta; jeg þykist vita, að forlög þessa frv. muni fyrirfram ráðin vera og að andmæli sjeu tilgangslaus. En jeg mun ekki greiða því atkv. mitt, til þess að binda ekki með því hendur mínar, svo að jeg verði síðar ef til vill að samþykkja fleiri slík frv., sem áreiðanlega munu koma fram á eftir þessu frv.