15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Jónas Jónsson:

í nál. er tekið fram, að við hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) höfum nokkra sjerstöðu í þessu máli. Við lítum svo á, að síst sje þörf á fjölgun presta í landinu og álítum, að hægt væri enn að færa brauð saman meira en gert hefir verið. Slíkar brauðasamsteypur hafa víða gefist vel, t. d. í Eyjafirði, þar sem einn prestur þjónar sjö kirkjum.

En þrátt fyrir þessa skoðun lít jeg svo á, að nauðsyn beri til að gera þá undantekningu, sem frv. fer fram á í þessu efni, vegna þess að hjer stendur alveg sjerstaklega á. Jeg hefi heyrt sagt, að 18 skriður hafi fallið á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur á einum degi á leið prestsins til Bolungarvíkur. Það er því beinlínis lífsháski fyrir prestinn að fara þessa leið. Af þeirri ástæðu einni fylgi jeg frv. þessu, enda þótt jeg hafi aðra skoðun á þessum málum yfirleitt.