08.04.1925
Neðri deild: 54. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2443 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

100. mál, sala á prestsmötu

Frsm. meiri hl. (Björn Líndal):

Jeg býst ekki við að þurfa að hafa langa framsöguræðu, því að hv. fyrsti flm. (HK) færði við 1. umr. skýr rök fyrir málinu, og í greinargerðinni er nákvæmlega gerð grein fyrir ástæðunum fyrir frv. Leggur meiri hl. fjhn. til, að frv. verði samþykt óbreytt.

Hjer er um gamla kvöð að ræða, sem að sumu leyti er bæði óeðlileg og ósanngjörn. Jeg er ekki sögufróður, en þetta ætla jeg upphaf þessarar kvaðar: Þegar hin svonefnda siðbót komst á hjer á landi, fækkaði prestum allmikið, svo að margir bændur, sem þyngsli höfðu haft af prestshaldi, losnuðu við þau. Þótti samt ekki sanngjarnt, að þeir tækju engan þátt í því, enda þurfti nú að launa presta enn meira en áður, þar eð þeir tóku að kvongast. Var þá tekið það ráð að leggja á kirkjueigendur að borga til presta helming af þeim kúgildaleigum, sem kirkjan átti. Þetta var fastsett með Alþingisdómi 1629. Svo gömul kvöð er nú þetta. Hún hefir altaf verið óvinsæl, en þó sjerstaklega nú í seinni tíð, þegar búið er að rýra tekjur kirknanna svo mikið, að það er stór ábaggi að vera kirkjueigandi til sveita. Kirkjueigendur hafa skyldu til þess að viðhalda kirkju sinni, en tekjur kirknanna eru svo naumar, að ómögulegt er fyrir menn að halda kirkjuhúsunum sæmilegum sjer að skaðlausu. Nú getur heldur enginn maður bygt kirkju án stórútgjalda úr eigin vasa. Og reynslan hefir sýnt, að eigi það að vera sæmilegt guðsþjónustuhús, sem bygt er, þá verður það svo dýrt, að erfitt verður og jafnvel ómögulegt að koma því af herðum sjer yfir á söfnuðina. Þannig fælir ástandið menn frá því að byggja sæmilegar kirkjur, þar eð menn vilja komast hjá, ef hægt er, að stór skuldasúpa og þung viðhaldskvöð leggist á þá, og gangi jafnvel í erfðir til barna þeirra og barnabarna. Því væri í rauninni sanngjarnast og rjettast, að prestsmatan legðist til kirknanna, eins og gert var í hitteðfyrra viðvíkjandi Grundarkirkju. Væri þess þá frekar von, að kirkjur úti um land væru sæmilega bygðar. Kvaðir kirkjueigenda og kröfur þær, sem til þeirra eru gerðar, eru líka miklum mun meiri nú en áður. Nú vilja menn hafa ofn í kirkjum og telja jafnvel, að kirkjubóndi eigi að leggja til eldsneytið að meiru eða minna leyti og taka drjúgan þátt í sönggjaldi, og þótt hvorugt sje lögboðið, er það illa sjeð, ef kirkjubóndi skorast með öllu undan því Þetta er að bæta gráu ofan á svart, þar sem svo er búið að rýra tekjur kirknanna, að ómögulegt er að koma upp guðsþjónustuhúsum sæmilega án stórútgjalda fyrir einstaklinga og söfnuði.

Þess vegna væri langsanngjarnast, að prestsmatan legðist til kirknanna sjálfra. Þó er ekki farið fram á það í frv. þessu. Hjer er hvorki um ívilnun eða eftirgjöf að ræða, heldur það eitt að koma stöðugra verðlagi á þessa prestsmötu en verið hefir.

Samkv. lögum um laun presta frá 1907 er prestsmatan metin til 10 ára í senn og miðuð við verðið næstu 5 ár á undan, en samkv. lögum um sölu á prestsmötu, nr. 54, frá 27. júní 1921, er verð mötunnar miðað við verðlag á smjöri næstu 10 ár á undan. Með þessu móti breytist verð mötunnar frá ári til árs, einkum á sveiflutímum eins og nú eru. Af þessu leiðir, að menn draga það oft lengur en skyldi að kaupa af sjer þessa kvöð. Menn fresta að kaupa mötuna er verðið er hátt, í von um að það lækki, og getur hún þá oft brugðist. Þetta verðlag er svo óstöðugt, að tilviljun ein getur ráðið því, hvort jeg eða ná granni minn hitti á að kaupa mötuna með hagkvæmu verði. Þá virðist og varla sann gjarnt að miða verð mötunnar aðeins við smjörverð, því að allir vita, að það er mjög breytilegt og mismunandi á landinu. Ráða sveitabændur minstu um verðlagið, heldur fer það fyrst og fremst eftir staðháttum, og þó einkum eftir því, hvort stórir kaupstaðir og sjávarþorp eru í grendinni.

Með því fyrirkomulagi á sölu prestsmötunnar, sem hjer er stungið upp á, er komið meira samræmi á milli sýslnanna og stöðugra verði á mötuna. Breytist verðið hjer ekki frá ári til árs. Er þetta nokkur hagur fyrir þá, sem mötuna vilja kaupa, en enginn órjettur er gerður prestum nje ríkissjóði. Ætla jeg, að öllum sýnist þetta sanngirnismál og að jeg þurfi ekki að fara um það fleiri orðum. Leyfi jeg mjer að vænta þess, að frv. nái greiðlega samþykki hv. deildar.