08.04.1925
Neðri deild: 54. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

100. mál, sala á prestsmötu

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Eins og hv. þdm. sjá af þskj. 274, þá varð nefndin ekki sammála um þetta mál, þótt vart geti það stórmál heitið. Og eins og við í minni hl. höfum skýrt frá í þeim fáu línum, sem þar eru í letur færðar, þá álítum við, að frá þessu máli hafi verið gengið fullnægjandi með lögum nr. 54, 1921. Þar er kirkjubændum heimilað að leysa prestsmötukvaðir af jörðum sínum með mjög viðunandi móti. Það, sem farið er fram á í því frv., sem hjer liggur fyrir, er eiginlega ekki annað en það, að ívilnanir nokkrar sjeu gerðar að því er verð prestsmötunnar snertir, að þeir, sem prestsmötukvaðir hvíla á, geti losað sig við þær með nokkuð ódýrara móti en verið hefir. Þýðir það ekki annað en það, að jarðir þær, sem prestsmötukvaðir hvíla á, hækka nokkuð í verði; því ganga má út frá, að þær jarðir, sem kvöð liggur á, lækki að sama skapi og kvöðinni nemur. Og að gera kvöðina ljettari með lögum er ekki annað en að gefa jarðeigendunum ákveðna upphæð. Við í minni hl. sjáum ekki ástæðu til þessa, þótt við á hinn bóginn teljum ekki ósanngjarnt að leyfa kirkjubændur undan kvöðinni, ef þeir leggja fram svo mikið fje, að ríkissjóður sje skaðlaus af.

Hv. frsm. meiri hl. (BL) fór dálítið sögulega út í það, hvernig prestsmatan er til orðin, en mjer virtist, sem ekki væri laust við, að hann hallaði þar dálítið rjettu máli. Auðvitað er það rjett, sem hann sagði, að matan er til komin þegar siðaskiftin komu á. Var þá prestum fækkað stórum. Áður skiftu prestar hundruðum í Skálholtsbiskupsdæmi einu, enda voru prestar við allflestar kirkjur. En er fjöldi prestsverka, er tíðkaðist í kaþólskum sið, var af tekinn, gerðist þess ekki þörf, að prestar væru svo margir eða við jafnmargar kirkjur og fyr. Prestshaldi var því ljett af fjölda kirkna, en í staðinn var lögð á þær sú kvöð að borga nokkuð af prestsgjaldinu, eða sem nam 1/2 kúgildaleigu kirkjujarðarinnar. Því er það fjarri sanni, að dembt hafi verið alt í einu þessum kvöðum á kirkjurnar. Þvert á móti er þessi prestsmata stórkostleg ívilnun, sem kirkjubændum hlotnaðist. Þeir losnuðu við að borga prestum heilt eða hálft kaup og fengu í staðinn að borga tiltölulega vægt gjald fyrir prestsþjónustu, því ekki þótti rjett, sem von var, að losa menn alveg við prestsgjaldið. Þannig er prestsmatan minnismerki um stórar ívilnanir, sem menn fengu að því er prestshald snerti. Ekki var fastákveðið, hve gjald þetta skyldi vera mikið. Það mun hafa verið fyrst snemma á 17. öld, í tíð Odds biskups, að farið var áð koma föstu skipulagi á þetta, en til skamms tíma var ekki ákveðið nákvæmlega um það alstaðar. Þó mun venjan hafa verið sú lengst af, að það væri 14 fjórðungur smjörs af kúgildi. Af því, sem hjer hefir verið sagt um uppruna prestsmötunnar, sjest, hvílík fjarstæða það er að láta sjer detta í hug, að þetta gjald eigi að renna til kirknanna. Það væri alveg sama og segja, að forvextir víxla ættu að renna til víxilskuldara. Þetta er gjald, sem kirkjunum ber að borga til prestanna, og því verður ekki snúið svo við, að það beri að borga til kirknanna. Kirkjueigendur eiga að gjalda þetta. En eftir öllum aðstæðum nú virðist þó ekki ósanngjarnt að leyfa kirkjubændum að kaupa af sjer prestsmötu. Og spursmál það, sem menn hjer greinir á um, er þetta eitt: Hvort er sanngjarnara að meta verð mötunnar samkv. lögunum frá 1921 eða eins og hjer ef farið fram á? Þessi mismunur er hið eina og eiginlega deiluefni, þó lítið sje látið á því bera, heldur tali allir um, hvort það sje sanngjarnt eða rjett að láta þessa kvöð hvíla á mönnum. En nú skulum við gera samanburð á málinu með litlu dæmi. Segjum, að einhver kaupi nú prestsmötukvöð af kirkju sinni. Þá er svo ákveðið með lögunum frá 1921, að verð mötunnar skuli miðast við meðalverð 10 undanfarinna ára á verðlagsskrárverði smjörs og upphæðin skuli kapitaliseruð með 5%. Jeg veit ekki, hvernig finna á sanngjarnari grundvöll en þennan fyrir söluverðinu. En það, sem hjer er farið fram á, er það, að raunar skuli fylgt verðlagsskrárverði, en ekki næstu ára á undan, heldur meðaltalsverði því, sem þá gildir um heimatekjur presta, en það er ákveðið á 10 ára fresti, og getur því oft orðið mjög úrelt, og það er miðað við meðaltal 5 ára næstu þar á undan. Seinast var matan metin 1919, og það mat gildir til 1929. Hjer er því farið fram á, að þeir, sem nú kaupa prestsmötu, fái hana samkv. verði smjörsins á árunum 1914–’19. Virðist það lítil sanngirni, og því minna vit, að hafna eðlilegum mælikvarða og seilast eftir öðrum ósanngjarnari.

Þetta er farið fram á í frv., og ekki annað. Þess vegna er hjer ekki um að ræða, hvort prestsmatan sje sanngjörn, eða eigi að leyfa mönnum að kaupa hana af sjer, heldur einungis, hvor matsaðferðin sje yfirleitt hentugri. Mjer skildist, að sumir álitu prestinum vera metin prestsmatan eftir sjerstöku mati á smjöri, en svo er ekki, enda hefir biskup látið í ljós, að ekki sje hægt að leggja þar neitt til grundvallar annað en verðlagsskrárverð.

Jeg held, að jeg þurfi þá ekki að fara lengra út í þetta. Það er bara þetta, sem um er að ræða, hvort á að slá þessu af prestsmötunni eða ekki. Því á hv. deild að skera úr.