08.04.1925
Neðri deild: 54. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

100. mál, sala á prestsmötu

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. frsm. meiri hl. (BL) er nú búinn að taka fram mest af því, sem fram þarf að taka. Jeg held það sje best og farsælast, að aðferð sú, sem frv. gerir ráð fyrir, verði viðhöfð. Það má ekki miða prestsmötukaup við smjörverð 5 undanfarin ár, því við því verði vill enginn kirkjubóndi kaupa. Jeg er alveg sannfærður um, að smjör verður í viðlíka verði og undanfarin 2–3 ár, svo að 1928 ætti smjör að vera kringum 4 kr. kg., en ef það yrði 1932 í 2 kr. kg. og reiknað prestum í heimatekjur 4 kr., þá hygg jeg, að prestar komi og segi: „Við fáum ekki þær heimatekjur, sem okkur ber.“ Annars er ekki hægt að neita því, að margir kirkjubændur hafa orðið hart úti, vegna þess að í mörgum tilfellum hafa jarðir lagst í eyði, eða afgjöld hafa lækkað. Jeg veit til þess t. d. um Ögurkirkjubónda. Þar hafa tvær eða þrjár jarðir lagst í eyði, en á 3 orðið að lækka afgjöldin, þar sem afgjaldið var, eins og sagt var, hálft af landi og hálft af sjó. En 1883–87 brást afli, og þá vildu menn ekki búa á jörðunum fyrir sama afgjald og áður, svo að nauðugur einn kostur var að lækka afgjöldin.

Það er ekki hægt að neita því, að svolítil ívilnun er áskilin kirkjubændum frá lögunum 1921, ef þeir vilja kaupa mötuna, en jeg held, að með sanngirni sje ekki hægt að segja annað en að þeir hafi orðið afarþungt úti í mörgum tilfellum.