08.04.1925
Neðri deild: 54. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

100. mál, sala á prestsmötu

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg er ekki sammála hv. frsm. meiri hl. (BL), þótt jeg sje með frv. Það er alveg rjett hjá hv. frsm. minni hl. (MJ), að það var stór ívilnun fyrir jarðeigendur þá, er prestsmötukvöðin var sett á í fyrstu. Upprunalega var það svo, að í katólskri tíð gáfu eigendur jarðanna höfuðstól til að halda uppi guðsþjónustum og halda presta á stöðunum. Eftir siðaskiftin fækkaði prestum. Jarðareigendurnir voru þá losaðir við þá kvöð að halda presta á staðnum. Í staðinn skuldbundu þeir sig til að greiða prestsmötuna, og í öllum tilfellum tóku þeir þá á sig ljettari byrði fyrir þyngri. Nú sje jeg ekkert á móti, að haldið sje áfram á sömu braut og studdir sjeu sjálfseignarbændur í landinu, eins og ríkið hefir stutt þá með sölu þjóðjarðanna, sem að jafnaði hefir verið bændum hagstæð. Ríkið getur selt prestsmötu við vægu verði eins og jarðir kirkjunnar; það á hvort sem er að annast kirkjuna fjárhagslega.