07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Jeg ætla að víkja ofurlítið að þeim till., sem jeg á við þessa umr. fjárlagafrv. Út af því, sem fram hefir komið viðvíkjandi styrk til kvöldskóla verkamanna, hefir hv. frsm. fjvn. (TrÞ) sagt, að einhver hluti fjvn. væri á móti honum. En jeg býst ekki við, að við þurfum að ræða það frekar; atkvgr. mun skera úr um það, hvernig fer með þessa litlu fjárveitingu.

Viðvíkjandi styrknum til styrktarsjóðs verkamanna verð jeg að segja, að mjer þykir það undarlegt, að hv. frsm. fjvn. (TrÞ) skuli ekki vilja láta þennan styrk ná fram að ganga, vegna þess að ef slysatryggingar komist á, þá sje þessi sjóður óþarfur. Jeg vona nú, að þær komist á og að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á þeim í Ed., því að ef frv. nær fram að ganga eins og það er nú, þá verður það til þess, að nær helmingur þeirra manna, sem vinna við uppskipun hjer í Reykjavík, getur ekki fengið styrk. (TrÞ: Veit hv. þm. (JBald), hvernig lögin verða afgreidd?). Nei, við erum báðir, hv. frsm. (TrÞ) og jeg, að tala um það, sem nú er. (TrÞ. Er þá ekki gott að bíða og sjá, hvernig fer?). Mjer þætti miklu vissara að fá fjárhæð þessa, sem brtt. mín fer fram á, inn í fjárlögin nú, heldur en bíða þar til frv. um slysatryggingar hefir gengið í gegnum hreinsunareldinn í hv. Ed., þó að jeg auðvitað taki fegins hendi á móti stuðningi hv. fjvn. í þessari hv. deild við eina umr. fjárlaganna.

Þá till., sem jeg er hjer við riðinn um landsspítalann, þarf jeg ekki að segja neitt um; aðeins vil jeg, út af því sem hv. frsm. fyrri hluta fjárlagafrv. (ÞórJ) sagði, að það skifti ekki miklu, þó að það biði 1–2 ár enn, geta þess, að jeg held, að menn sjeu nú orðnir sammála um það yfirleitt, að þetta mál þoli ekki lengri bið. Á tveimur undanförnum árum hefir verið sagt á þinginu: það er svo erfiður fjárhagur enn, að þetta verður að bíða. En við getum ekki haldið áfram að skjóta þessu fram af okkur þing eftir þing, og þar sem ástæðumar hjá ríkissjóði eru sæmilegar nú, finst mjer, að við ættum að leggja út í þetta, einkum þar sem telja má víst, að það verði gott samkomulag við landsspítalanefndina um þann sjóð, sem safnað hefir verið; tel jeg því varasamt að skjóta því lengur á frest.

Þá ætla jeg lítillega að nefna till., sem útbýtt hefir verið hjer í deildinni nú undir umr. og jeg hefi leyft mjer að bera fram. Þar er ætlað fyrir samningu á efnisyfirliti yfir Stjórnartíðindin 1916–1925 2500 kr. Jeg þykist vita það, að flestir hv. þm. hafi orðið varir við það, hve erfitt er að leita í mörgum árgöngum Stjórnartíðindanna, sem ekki er til efnisyfirlit yfir, — en það, sem til er, nær fram að árinu 1915; þegar þarf að leita að einhverjum yngri lögum, verða menn að leita í gegnum þessa tíu árganga, sem ekki er til efnisyfirlit yfir, því að menn hafa ekki leitað af sjer allan grun, fyr en alt er blaðað í gegnum. Annars sýnist það hafa átt að vera venjan að gefa út efnisyfirlitið á 10 ára fresti, en síðan 1916 hefir það ekki verið gert. Í landsreikningunum 1916 sjest, að greiddar hafa verið 500 kr. í þessu skyni, en síðar hafa verið greiddar 300 kr. umfram, og hefir þannig fyrir 15 arkir af þessu yfirliti verið greitt alls 800 kr., og hefi jeg miðað þessa till. mína á þskj. 318 við þetta og þær breytingar á verðlagi, sem síðan hafa orðið. Jeg geri ráð fyrir, að efnisyfirlit fyrir síðustu 10 árin verði nokkru meira að vöxtum en fyrir næstu 10 árin á undan, nálægt 20 örkum, og hefi jeg reiknað út, að hæfilegt mundi að greiða 125 kr. fyrir að semja hverja prentaða örk í þessu efnisyfirliti, og myndi það verða um 2500 kr. Jeg ímynda mjer, að ekki þurfi að mæla neitt með þessari till.; hv. þm. finna það sjálfir, að nauðsynlegt er að koma slíku í verk. Mjer hefir ekki dottið neinn sjerstakur maður í hug, sem ætti að gera þetta, enda er best til fallið, að hæstv. stjórn ákveði það, en það þarf sjálfsagt að vera mjög vandlega gert og væri mjög gott, ef hægt væri að njóta aðstoðar skrifstofustjóra Alþingis, enda datt mjer fyrst í hug að fela honum þetta, en hvarf frá því aftur og legg það nú í vald hv. stjórnar. Jeg skal taka það fram, að hjer er eingöngu átt við kostnaðinn við að semja þetta yfirlit, en svo bætist við kostnaðurinn við útgáfu þess, sem sjálfsagt verður nálægt 3000 kr., og mundi þá allur kostnaðurinn verða nær 5000 kr., en þetta er óhjákvæmilegt verk, sem ekki má dragast lengur að gera.